19.11.1941
Efri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson) :

Hv. frsm. meiri hl. menntmn., þm. S.-Þ., hefur nú lokið máli sínu. Hann talaði um í ræðu sinni, að útgefandi, sem hann kallaði smjörlíkiskarl og smjörlíkisgróssera, hefði farið að eins og þjófur í bifreið, — held ég að hann hafi sagt (JJ: Þjófur í stolinni bifreið.), eins og þjófur í stolinni bifreið, þegar hann prentaði þessa bók og kom henni á markaðinn. En sá hraði, sem hér er hafður á afgreiðslu þessa máls nú, finnst mér ekki ósvipaður því, sem þjófur væri á ferðinni í stolinni bifreið. Og mér finnst, að þessi bílstjóri hafi geigað allvíða í þessum seinasta akstri sínum.

Ég tel, að þó að verið sé að hafa hér hrópyrði um þessa útgáfu, þá beri nánast að skoða þau sem afleiðingu af gremju bókaútgefanda í samkeppni á bókamarkaðinum. Vil ég mega skrifa þessa gremju hv. þm. S.-Þ. á þennan reikning. Annars tel ég ekki hlutverk mitt að halda uppi vörn fyrir þennan bókaútgefanda, sem hér er um að ræða. Ég þekki ekki nema eina bók, sem það forlag hefur gefið út. Og af því að ég þýddi hana, tel ég, að það hafi verið mjög sæmileg bók. Og ég tel, að það, sem þessi

„smjörlíkiskarl“ hefur sent frá sér, hafi verið mjög sæmilegt að efni og öllum búnaði.

En út af því, sem barst í tal um það, að blað eitt hefði birt tilkynningu um þessa útgáfu, þá vil ég leiðrétta það. Þar var alls ekki um tilkynningu né auglýsingu frá útgefandanum að ræða, heldur bara venjulega blaðafregn, sem seinna sýndi sig, að var á misskilningi byggð. Og það er varla hugsanlegt, þó menn séu viðbragðsfljótir, að það hafi verið búið að breyta allri Laxdælu til nútímastafsetningar á þeim stutta tíma síðan við hv. þm. S.-Þ. höfum umr. um þetta mál.

Ég held, að okkur greini ekki á um það, að við viljum hvorugur láta draga fornbókmenntir okkar í svaðið, eins og hann nefnir það, en ef þessi útgáfa, sem hér um ræðir, er ekki annað og meira en það, að stafsetningin er færð til nútímamálvenju, sé ég ekki, að það sé stórhættulegt, a. m. k. hafa ýmsir góðir menn riðið þar á vaðið og ekki sízt þm. sjálfur. Ég hef hér fyrir framan mig grein eftir Arnór Sigurjónsson, sem birtist í blaðinu Þjóðólfi, þar sem segir frá því, að þegar þessi hv. þm, var að gefa út kennslubækur sínar, tók hann einmitt kafla

úr þessari bók, Laxdælu, og breytti ekki aðeins að stafsetningu, heldur einnig að efni til nútímamálvenju. Tel ég lítt sitja á honum að segja, að aðrir dragi fornbókmenntirnar í svaðið, þótt þeir fari líka leið og hann, og þó tæplega eins djarfa, í þessum sökum. Veit ég hv. þm. neitar ekki, að þetta muni satt vera, og hirði því ekki að lesa upp kaflann um það, hvernig hann fór með þessa kafla úr Laxdælu, en mun gera það, ef tilefni gefst til.

Það var ekki um neitt boðsbréf að ræða, aðeins venjulega blaðafrétt, en er sýnilegt var, að um missögn var að ræða, skrifaði ég grein um þetta mál, sem ég held, að hafi orðið til þess að vekja almenningsálitið til meðvitundar um það, að ekki mætti draga fornbókmenntir vorar í svaðið, og eins og á var bent þar, væri æskilegast, að ekki þyrfti að hafa löggjöf um efni sem þessi, heldur að ávallt mætti treysta því, að þeir menn væru á verði, sem gætu fyrirbyggt, að það kæmi fyrir, að fornbókmenntir vorar væru í nokkurri hættu.

Ég ætla svo ekki að fara lengra út í að svara því, sem hv. þm. sagði, og álít það tilgangslaust. Ég vil aðeins skýra stuttlega frá þeim brtt., sem ég ber hér fram.

Ef tími hefði unnizt til, hefði ég óskað að skrifa nál. um þetta mál, en þetta hefur borið svo brátt að og ég er staðráðinn í því að gera ekkert til þess að leggja stein í götu málsins, svo að ég verð að láta mér nægja að bera fram brtt.

Fyrri brtt. er við 1. gr. Þar stendur: „Þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundar, má ekki birta rit hans breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef breytingunum er svo háttað, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón af.“ Ég held, að hv. þdm. geti verið mér sammála um, að hér vanti aðila í. Hver á að dæma, hvort menning okkar og tunga bíði tjón? (JJ: Ríkisstj. og hennar ráðunautar.) Ríkisstj. og hennar ráðunautar, já. En ég tel nú, að úr því að við eigum því láni að fagna að eiga háskóla, og úr því við höfum norrænudeildina með þeim ágætu mönnum, sem þar starfa, að það eigi að vera þeirra að vísa okkur veginn um allt, sem viðkemur málvernd og málvöndun, og hef þess vegna borið fram þessa brtt.

Ég get ekki fallizt á það, að þó þessi brtt. yrði samþ. og síðari brtt. mín líka, sé málinu stefnt í hættu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að við getum afgr. málið héðan út í kvöld og Nd. tekið það til einnar umr. á morgun, svo því ætti að vera fyllilega borgið. Það er því algerlega rangt með farið, að ég vilji leggja stein í götu málsins, þvert á móti vil ég koma því úr því flaustursástandi, sem það er í, og gera það nokkurn veginn frambærilegt.

Hin brtt. er við 2. gr., sem er um það, að ríkið eigi réttinn til þess að gefa út íslenzk rit, sem samin eru fyrir 1400, en geti að nokkru framselt þann rétt. Brtt. gengur út á það, að þessu sé þannig fyrir komið, að það þurfi leyfi kennslumálaráðuneytisins, enda skal ráðuneytið leita álits heimspekideildar háskólans áður en það veitir slíkt leyfi eða synjar um það.

Ég held, að þessu sé miklu eðlilegar fyrir

komið með því að þessi aðili, sem á að vera forvörður okkar í málverndun, heimspekideildin, hafi þetta með höndum, — eða vill hv. þm. bera brigður á það, að norrænudeildin sé skipuð þeim mönnum, sem treystandi sé í þessu efni? Ég vil nefna Árna Pálsson, — ætli hann sé ekki sæmilegur? Hvað segir hv. þm. um hann? —- Hann vill ekki svara. Ég nefni Sigurð Nordal. Ætli hann sé ekki frambærilegur? (JJ: Þessi þm. vildi nú senda hann til Noregs.) Eða Alexander Jóhannesson? (JJ: Má ég skjóta inn í? Alþingi varð í vetur að leggja háskólanum til málfræðing, til þess að þaðan kæmu sæmilega færir menn.) Ég þakka fyrir þetta innskot. Þarna bætist maður við, svo þetta ber allt að sama brunni. Mér skilst það ekki geta leikið á tveim tungum, að heimspekideild háskólans sé ólíkt færari um að sinna þessu hlutverki heldur en pólitískur ráðherra, hver sem hann er. Ég er ekki að kasta neinni rýrð á núverandi ráðherra, en það er ætíð hætta á, að pólitískur ráðherra geti fallið undir grunsemd um það, að hann sé ekki alls kostar hlutlaus, og þess vegna á þessi till., sem hér er fram borin, svo mikinn rétt á sér.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en er sannfærður um, að hv. þdm. muni, ef þeir vilja ekki aka eins og þjófur í stolnum bíl, fallast á þessar till. mínar, sem ég hef borið hér fram til breyt. og geri mér fyllstu vonir um, að verði samþykktar. Það er engin hætta á, að málið nái ekki fram að ganga fyrir því. Við getum gengið frá því í kvöld, og það tekur ekki nema stuttan tíma í hinni deildinni.