19.11.1941
Efri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson) :

Það kom í ljós hjá síðasta ræðumanni, hvað þetta hefur allt gengið með bílhraða, og hann var á slíkri ferð eins og hann væri í stolna bílnum. Hann sagði, að engin trygging væri fyrir því, að ekki væri hægt að gefa út þessi helgu verðmæti á alls konar hrognamáli. Það er svo fjarri því, að mínar till. miði að því að draga úr slíkri tryggingu. í frv. er gert ráð fyrir, að málið sé háð hinu pólitíska valdi á hverjum tíma, en með till. mínum er það tryggt, að valdið sé falið fullkomlega hlutlausri og vísindalegri stofnun.

Hv. þm. virðist mjög hafa misskilið hina nýja útgáfu Laxdælu, þar sem hann talar um, að verið sé að breyta sögunni til nútímamáls. Það er ekki um það að ræða, heldur er breyt. aðeins stafsetningarlegs eðlis. Ég þykist sjá, að menn komi hér með fyrirfram sannfæringu og vilji engum rökum taka. Það vill oft fara svo, en ég held fast við það, að málinu er ekki stofnað í neina hættu. Það hljóta allir að fallast á, að frv. er ekki frambærilegt í þess núverandi mynd, og það er fjarri því, þó að ég sé í minni hl. í n., að ég vildi nokkuð tefja málið, þar sem ég í stað þess að skila rökstuddu nál. bar aðeins fram brtt. í. trausti þess, að málinu yrði ekki flaustrað af að ófyrirsynju, heldur drengilega á málum tekið.