20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

8. mál, lántaka fyrir síldarverksmiðjur ríkisins

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég skal fyrst taka það fram, að þetta frv. er borið fram skv. ósk fjmrn. Í því er í rauninni ekki annað en það að leita heimildar til þess að mega taka lán handa verksmiðjunum. Það kann að vera, að annar maður hefði átt að standa fyrir flutningi málsins, en þetta varð þannig fyrir þá sök, að hæstv. atvmrh. hefur ekki talið sig þurfa að hafa afskipti af meðferð þessa máls í þinginu. Viðvíkjandi fyrirspurnum hv. frsm. get ég upplýst það, hvað snertir reikninga verksmiðjanna fyrir árið 1940, að það, að þeir eru ekki komnir út enn þá, stafar af því, að það mun vera óuppgert enn þá milli ríkisins og verksmiðjanna í sambandi við sölu á mjöli til bænda, sem ríkisverksmiðjurnar ætlast til að verði bætt upp. Annars er hér maður úr stjórn verksmiðjanna, sem kynni að geta gefið frekari upplýsingar um þetta mál. —.

Hvað viðvíkur eftirlaunasjóðnum verð ég að játa, að mér er ókunnugt um það mál, en skal fúslega verða við tilmælum hv. frsm. um að koma áleiðis skilaboðum til réttra hlutaðeigenda. Annars kunna einhverjir aðrir af þeim, sem hér eru viðstaddir, að geta gefið upplýsingar um það mál.