18.11.1941
Sameinað þing: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar og stjórnarmyndun af nýju

forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég vil tilkynna hér á Alþingi, að gengið var endanlega frá stjórnarmyndun að nýju á ríkisráðsfundi kl. 5½ e. h. í dag.

Það mun ekki þykja óviðeigandi, að ég geri nokkra grein fyrir því, frá sjónarmiði mínu og flokks míns, af hvaða ástæðum ég hef tekið að mér að mynda stjórn á ný.

Áður en ég vík að því, vil ég rekja í stuttu máli aðdraganda þess, að ég baðst lausnar fyrir ráðuneytið.

Um það er ekki og hefur ekki verið neinn ágreiningur, að hin vaxandi dýrtíð í landinu sé eitt stærsta innanlandsmálið og mesta vandamálið, sem þjóðstjórnin hefur haft til meðferðar. Svo er þessu og háttað meðal annarra þjóða, þótt eigi sé nákvæmlega með sama hætti. Vaxandi dýrtíð er víðast mikið vandamál.

Að undanförnu, og einkum á þessu ári, hefur ekki verið um annað meira ritað í blöð stjórnmálaflokkanna en nauðsyn þess að ráða bót á dýrtíðinni. Blöð allra þeirra flokka, er studdu ríkisstjórnina, drógu af þessu þá eðlilegu ályktun, í margendurteknum skrifum um málið, að ef ágreiningur yrði um framkvæmd slíks stór

máls, þá mundi það og ætti að leiða til stjóraarskipta, — því að þá væri grundvöllur þjóðstjórnarinnar hruninn.

Í hugleiðingum sínum um síðustu áramót tók formaður Sjálfstæðisfl., Ólafur Thors atvinnumálaráðherra, það fram, að ef stjórnin gæti ekki með sameignlegu átaki leyst dýrtíðarmálin og alvarlegur ágreiningur yrði um leiðir í þeim málum, yrði ríkisstjórnin að segja af sér, og að dýrtíðarmálið væri einna líklegast til þess að verða henni að falli. Yrði stjórnin að sjálfsögðu að víkja fyrir annarri stjórn, sem starfhæfari kynni að reynast í slíku stórmáli. Við umræðurnar um dýrtíðarlögin í efri deild á síðasta þingi tók ég það sérstaklega fram, að gefnu tilefni, að ef leiðir ráðherranna og flokkanna skildu um framkvæmd dýrtíðarlaganna, gæti svo farið, að þing yrði að kveðja saman á ný, og að afleiðing þess gæti orðið sú, að stjórnin yrði að segja af sér.

Það er hví dálítið einkennilegt eftir allt þetta, sem um málið hefur verið sagt, að sum flokkshlaðanna, og það jafnvel þau, sem mest hafa haldið því á lofti, að ríkisstjórnin yrði að segja af sér, ef sameiginleg lausn fyndist eigi í dýrtíðarmálunum, skuli nú vera þeirrar skoðunar, að forsætisráðherra hefði ekki átt að biðjast lausnar fyrir stjórnina, og að samstarfið hefði átt að halda áfram órofið, þrátt fyrir það, að leiðir skildu í þessu aðalvandamáli.

Af opinberum umræðum, sem fram hafa farið, er mönnum í aðalatriðum kunnugt, hvað það er, sem samvinnuslitunum olli. Annars vegar var leið framsóknarmanna, að stöðva verðbólguna með lögum, hins vegar hin svokallaða „frjálsa leið“, sem að mínu áliti og míns flokks er þýðingarlaus eins og á stendur og táknar ekki annað en uppgjöf og úrræðaleysi í því mikla vandamáli, sem fyrir liggur.

Ég vil nota tækifærið til þess að minna á það, að einmitt þessa dagana berast fréttir um það. að svipað viðhorf sé að skapast í Bandaríkjum Norður-Ameríku: Þar vex verðbólgan mjög ört. Það er vitanlega hægt að fara þar, eins og hér, hina frjálsu leið, þ. e. að biðja verkalýðsfélögin að hækka ekki kaupgjaldið, en leyfa þeim hins vegar að gera það, ef þau vilja. En það er líka hægt að fara lögbindingarleiðina, og stjórn Bandaríkjanna virðist ráðin í því að fara þá leið, þótt það kasti mikil átök.

Við, sem viljum fara lögbindingarleiðina, teljum, að svo mikill munur sé á henni og „frjálsu leiðinni“, að raunverulega sé hér um. andstæður að ræða. Þegar sýnt var, að meiri hluti þings mundi taka fram fyrir hendur okkar og fara aðra leið en við álitum rétta, ákváðum við að afsala okkur því umboði, sem Alþingi hafði falið okkur í stjórn landsins.

Eins og þarna var málum komið, var mér sem forsætisráðherra þingræðislega rétt og skylt að beiðast lausnar, og það er stórfurðulegt fyrirbrigði í íslenzkum stjórnmálum, að því skuli vera haldið fram í rökræðum um þetta mál, sem eiga að vera alvarlegs eðlis, að forsætisráðherrann hefði átt að brjóta þingræðisreglur, og að það skuli beinlínis vera gert að árásarefni á forsætisráðherrann, að hann skyldi ekki brjóta þær.

Þingræðið byggist á því, að ráðherrarnir, og þá ekki sízt forsætisráðherrann, framkvæmi vilja meiri hluta Alþingis og beri ábyrgð á gerðum sínum gagnvart því. Ef forsætisráðherra eða aðrir ráðherrar eru ósamþykkir þeim vilja þingsins, er ræður í stórum málum, hafa þeir ekkert annað úrræði en segja af sér og losa sig við pólitíska ábyrgð af framkvæmdunum. Geri þeir það ekki, samþykkja þeir stefnu þingsins með því að þeir gangast undir að framkvæma hana og bera þá pólitíska ábyrgð á stefnunni samkvæmt því. En það tiltæki hjá forsætisráðherra að brjóta þingræðisreglur, neita að bera ábyrgð á stefnu Alþingis í stórmáli, en sitja samt áfram við völd, mundi leiða til þess, að þegar aðfinnslur kæmu fram í þinginu, mundi ráðherrann, í stað hinna venjulega vinnubragða, geta sagt sem svo, að hann hefði einatt verið andvígur þeirri stefnu, sem tekin hefði verið, og bæri því enga ábyrgð á framkvæmdum samkvæmt henni.

Ég vænti þess, að menn sjái það fljótt, í hverjar ógöngur það mundi leiða, ef slíkur háttur væri upp tekinn.

Það var vitanlega óumdeilanleg þingræðisregla og skylda eins og á stóð, að ríkisstjórnin segði af sér og afhenti Alþingi umboð sitt. Ráðherrarnir í ríkisstjórinni gátu með engu móti komið sér saman um lausn á þýðingarmiklu máli, og ráðherrasætin áttu þá að vera laus, til þess að unnt væri að mynda stjórn um þá stefnu, sem meiri hluti ríkisstjórnarinnar, með meir í hluta Alþingis að baki, hafði aðhyllzt gagnstætt vilja forsætisráðherra og viðskiptamálaráðherra og stuðningsflokks þeirra.

Eftir að ríkisstjórnin hafði sagt af sér, átti ríkisstjóri viðræður við formenn flokkanna og forseta Alþingis. Þegar þær viðræður höfðu varað alllengi, leitaði ríkisstjóri til allra flakka og spurðist fyrir um það, hvort þeir vildu gera tilraun til þess að mynda samsteypustjórn. Þetta mun hafa verið hinn 7. nóvember. — Afstaða Framsóknarflokksins kemur glöggt í ljós með því að birta hér orðsendingu, er flokkurinn sendi ríkisstjóra sem svar við þessari fyrirspurn hinn 8. þ. m.:

„Framsóknarflokkurinn lítur svo á, að samkvæmt þingræðisreglum beri þeim þingmeirihluta að mynda stjórn, sem stóð að því að fella það mál, sem varð þess valdandi, að ríkisstjórnin baðst lausnar. Framsóknarflokkurinn telur hins vegar, að kosningar eigi ekki að fara fram að vetrarlagi, og mun því, ef sá möguleiki ekki er fyrir hendi, að þingmeirihlutinn, sem felldi dýrtíðarfrumvarpið, myndi stjórn, taka til velviljaðrar athugunar myndun samstjórnar þeirra flokka, sem stóðu að fráfarandi ríkisstjórn, þó með nánar tilteknum skilyrðum.“

Eftir að hafa móttekið svar flokkanna, átti ríkisstjóri enn tal við flokksformennina og spurðist fyrir um það, hvort flokkarnir vildu hver um sig velja tvo menn úr sínum hópi til þess að ræða um myndun samstjórnar.

Þessari ósk ríkisstjóra svaraði Framsóknarflokkurinn með orðsendingu, dags. 10. þ. m., sem afhent var ríkisstjóra kl. 10½ f. h. sama dag, svo hljóðandi :

„Eins og fram er tekið í svari Framsóknar

flokksins í gær, lítur flokkurinn svo á, að samkvæmt þingræðisreglum beri þeim þingmeirihluta að mynda stjórn, sem stóð að því að fella það mál, sem varð þess valdandi, að stjórnin baðst lausnar.

Ef það liggur opinberlega fyrir, að þessi þingmeirihluti geti ekki myndað stjórn, er Framsóknarflokkurinn reiðubúinn til að verða við þeirri ósk ríkisstjóra að kjósa tvo fulltrúa frá flokknum í sameiginlega nefnd til að ræða um samstjórn þeirra flokka, er stóðu að fráfarandi ríkisstjórn.“

En kl. 12 á hádegi sama dag móttók formaður Framsóknarflokksins svofellda yfirlýsingu frá ríkisstjóra :

„Að gefnu tilefni hefur ríkisstjóri í dag átt tal við formann Alþýðuflokksins og formann Sjálfstæðisflokksins, hvorn í sínu lagi.

Lýstu þeir því báðir yfir greinilega, að flokkar þeirra vildu ekki mynda stjórn með þeim þingmeirihluta, sem stóð að því að fella mál það, sem varð þess valdandi, að ríkisstjórnin baðst lausnar.

Formaður Alþýðuflokksins bætti því við, að hans flokkur teldi sér ekki skylt að mynda slíka stjórn.“

Eins og af skjölum þessum sést, hefur það gerzt, að sá stóri þingmeirihluti, sem tók fram fyrir hendur Framsóknarflokksins og ráðherra hans í þessu máli, hefur neitað að mynda stjórn. Hér vil ég taka það fram, að þótt slík flokksstjórn hefði verið mynduð, taldi Framsóknarflokkurinn það alveg sjálfsagt, að samstarf milli flokkanna héldi áfram um öll utanríkismál og mái, er sneru að herjum reim, sem hér dvelja. Það samstarf hafði farið fram í utanríkismálanefnd, þar sem allir stjórnarflokkarnir eiga fulltrúa, og er hugsuð sem eins konar varanleg þjóðstjórn um þessi mál.

Í stjórnarskrá Íslands er hvergi ákveðið, að sá meiri hluti þings, sem fellir stórmál fyrir ríkisstjórn, sé skyldur til að mynda stjórn. Eigi að síður ber slíkum þingmeirihluta þó, að mínu áliti, siðferðisleg skylda til stjórnarmyndunar, og samkvæmt eðli þingræðisins ber honum einnig þingræðisleg skylda til þess. Menn verða að gera sér ljóst, að ef það tíðkast, að þessi regla sé brotin, þá er stjórnskipulag vort í verulegri hættu. Setjum nú svo, að við byggjum ekki norður við ísháf og gætum því haft vetrarkosningar. Setjum svo, að kosningar gætu þegar farið fram og að Framsóknarflokkurinn fengi næstum því hreinan meiri hluta við kosningar, vantaði 1–2 þingsæti til þess. Eða að Sjálfstæðisflokkurinn fengi slíka aðstöðu. Hugsum okkur, að annar hvor þessara flokka bæri svo fram á Alþingi tillögur um ákveðna lausn í dýrtíðarmálinu og hinir flokkarnir sameinuðust gegn henni og felldu hana. Slíkt mundi ekki leiða til neins nema nýrra kosninga, sem mundu leiða til þess, að þingið yrði skipað á svipaðan eða sama hátt og áður o. s. frv. Þetta er það sama og kom fyrir í Frakklandi, Þýzkalandi og á Ítalíu, – þingmeirihlutinn í þessum löndum sameinaðist gegn lausn ákveðinna mála, sem ríkisstjórnirnar vildu framkvæma. En vinnubrögð þessara þingmeirihluta voru ábyrgðarlaus og neikvæð. Þessi afstaða leiddi til endurtekinna kosninga og síðast til dauða þingræðisins í þessum löndum. — Hér á Alþingi Íslendinga kemur nú hið sama í ljós. Þingmeirihluti fellir ákveðna lausn máls, en vill ekki með nokkru móti taka ábyrga afstöðu til þess að leysa málið sjálfur og stjórna samkvæmt því. Það er í mínum augum tvímælalaust óhjákvæmilegt, þegar stjórnarskrá Íslands verður endurskoðuð, að þetta fyrirbrigði sé fyrirbyggt með viðeigandi ákvæðum.

Eftir að útilokuð var sú eðlilega lausn, að flokkarnir, sem felldu dýrtíðarfrumvarpið, mynduðu stjórn, voru samkvæmt atkvæðamagni því, sem flakkarnir hafa á Alþingi, eftirfarandi hugsanlegir möguleikar fyrir hendi: Að Framsfl. og Sjálfstfl. mynduðu saman stjórn. En það var útilokað, þegar af þeirri ástæðu, að Sjálfstfl. hafði fellt frumvarp Framsfl. um lausn í dýrtíðarmálinu. En Framsfl. hafði, eins og áður hefur verið frá skýrt, ætlað sér að mynda stjórn með sjálfstæðismönnum, ef þeir hefðu fylgt frumvarpinu, svo sem gengið var út frá, er þing var kallað saman, og þar sem augljóst var, að Alþfl. mundi skerast úr leik. Þá gat komið til athugunar, að Framsóknar- og Alþýðuflokkurinn mynduðu stjórn. En Alþfl. hafði einnig fellt frv. framsóknarmanna, var að vísu sá munur á, að sá flokkur taldi sig fúsan til að framkvæma suma aðra þætti málsins, en þó voru á þessu erfiðleikar.

En að frágengnum þessum möguleikum var ekki annað fyrir hendi en vetrarkosningar, sem framsóknarmenn hafa einatt barizt gegn, og beittu sér gegn nú, — eða þá að reynt yrði, þrátt fyrir málefnaágreininginn, að mynda samstjórn til þess að vinna að öðrum málum til næsta þings.

Það, sem ég vil sérstaklega taka fram í sambandi við myndun þessarar stjórnar, er það, að með lausnarbeiðni minni höfum við ráðherrar Framsfl. lýst yfir því í eitt skipti fyrir öll, að við tökum ekki ábyrgð á þeirri stefnu, sem meiri hluti Alþingis hefur tekið í dýr tíðarmálinu, enda munum við og flokkur okkar, utan ríkisstj, og innan hennar, vinna að því til hins ýtrasta að afla stefnu okkar fylgis meðal þjóðarinnar.

Ég hef sýnt fram á, að við gátum ekki annað en beðizt lausnar. Við gátum ekki, eins og á stóð, bæði setið í ríkisstjórn og þó neitað að bera ábyrgð á stefnu stjórnarinnar, því að það var brot á reglum þingræðisins. Nú hefur Alþingi sjálft, þrátt fyrir það, að því er kunnugt um fullkomna andstöðu okkar við skoðun meiri hluta þingsins í dýrtíðarmálunum, og það, að við neitum að bera ábyrgð á þeirri stefnu, sem þingið hefur kosið að fylgja, óskað eftir því að víkja frá þessari þingræðislegu venju. Alþingi sjálft getur vissulega leyft sér slíkt, en þingið eitt getur það. Hitt kemur vitanlega ekki til mála, að umboðsmenn Alþingis í ríkisstjórn geri sig að dómurum í því, hvenær slíkt ástand sé fyrir hendi, að réttlætanlegt sé að bregða út af þingræðisreglum. Framsfl. tekur þátt í þessari stjórnarmyndun, þótt sameiginleg lausn á dýrtíðarmálunum sé ekki fyrir hendi, vegna þess, að kosningar geta ekki skorið úr ágreiningsmálunum að svo stöddu.

Við ráðherrar Framsfl. töldum af ýmsum ástæðum eðlilegt, að aðrir menn hefðu nú tekið sæti í ríkisstjórn af hálfu Framsfl. Þess vegna höfum við borið fram þá ósk við þingflokk okkar og miðstjórn flokksins, að við yrðum leystir frá því að takast þetta á hendur. En fyrir eindregnar áskoranir þessara aðila beggja höfum við þó fallizt á að taka þátt í stjórn að nýju. Þessar áskoranir munu stafa af því, að flokkurinn vill, með því að óska þess að við verðum í stjórn áfram, undirstrika, að hann heldur fast við stefnu sína í dýrtíðarmálinu, og vill með því fyrirbyggja með öllu, að nokkur misskilningur geti átt sér stað í því efni, enda þótt hann taki þátt í stjórnarmyndun eins og sakir standa.

Ég hef því ekki viljað skorast undan þessum vanda. Vel er það farið, ef samstarfsflokkar okkar sveigja til í málunum til samkomulags, en ég hef þá jafnframt það tækifæri, sem mér er e. t. v., eins og á stendur eftir kosningafrestunina, skyldast að hafa, það er valdið til að leggja umboð mitt í hendur þjóðarinnar, þegar hún hefur, vegna árstíðar, bezta aðstöðu til þess að láta vilja sinn í ljós.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að ég hef tekið að mér að mynda stjórn á ný. Vil ég, að það komi greinilega fram, bæði í þingtíðindunum og annars staðar, og að þær verði kunnar alþjóð.

Um starf þessarar ríkisstjórnar er þetta samið:

(1) Stjórnin er mynduð af sömu flokkum og áður.

(2) Tala ráðherra, sem hver flokkur hefur í ríkisstjórn, haldist óbreytt.

(3) Verkaskipting milli ráðherranna sé óbreytt.

(4) Alþingi afgreiði ekki ágreiningsmálin nú, og gert er ráð fyrir, að aukaþingið hætti störfum næstu daga.

(5) Stjórnin reyni að ná samkomulagi um ágreiningsmálin fyrir næsta þing, sem verður sett eigi síðar en 15. febrúar n. k.

(6) Framsóknarflokkurinn leggur til, að dýrtíðinni sé til næsta þings haldið niðri í október-vísitölu, með því að nota heimild gildandi laga. Hinir flokkarnir tjá sig í meginatriðum samþykka þessu og að þeir vilji gera það, sem unnt er, í þessu skyni.

Samkvæmt þessu hafa flokkarnir tilnefnt í stjórn sömu menn og áður.

Um síðasta liðinn er það að segja, að þar er aðeins um það að ræða, hvað meirihlutavald þingsins er fáanlegt til að gera í dýrtíðarmálinu, og Framsfl. telur betra að gert sé en ekki neitt. En því fer fjarri, að flokkurinn telji þessar aðgerðir fullnægjandi lausn.

Um kosningafrestunina, sem ágreiningur hefur risið um, hversu framkvæma skuli, um skattamálin, sem liggja fyrir þessu þingi og virðast valda ágreiningi, og önnur mál hefur ekkert verið samið, svo sem yfirlýsing þessi ber með sér.

Meðal höfuðverkefna ríkisstjórnarinnar verður: 1) að fást við og fá lokið þeim samningum, sem enn standa yfir og hafa staðið lengur en æskilegt hefði verið um verzlunarmál okkar og fleira við Bandaríkin og Bretland, 2) að vinna að því, að líf þjóðarinnar geti orðið sem sæmilegast í sambúðinni við hið erlenda herlið, og 3) að atvinnulíf landsmanna gangi ekki saman vegna vöntunar á vinnuafli, auk hinna daglegu vandamála, sem bera hlýtur að höndum þeirrar ríkisstjórnar, er með völd fer á þessum tímum.

Seta Alþingis að þessu sinni mun sennilega vekja litla ánægju landsmanna — og er það að nokkru leyti að vonum.

Gæta skyldu þó landsmenn þess, að hjá því varð ekki komizt að kalla þingið saman til funda. Ríkisstjórnin hafði orðið ósammála um framkvæmd dýrtíðarlaganna, sem síðasta Alþingi afgreiddi og fól stjórninni að framkvæma. Það var því skylt og alveg óhjákvæmilegt að kalla Alþingi saman og gera því grein fyrir þessu. Úrslitin í málinu hafa hins vegar orðið önnur en menn hefðu vænzt.

Ríkisstjórnin hefur á þessu þingi gefið alþingismönnum mjög ýtarlega skýrslu um utanríkismálin — þau, sem afgreidd eru, og um þá mjög mikilsverðu samninga, sem nú standa yfir og miklu skiptir, hvernig ljúkast — og verði lokið sem fyrst. Þótt þetta væri nauðsyn, er ekki líklegt, að Alþingi hefði verið kvatt til funda til að ræða utanríkismálin eins og enn standa sakir, ef dýrtíðarmálin hefðu ekki komið til.