20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

8. mál, lántaka fyrir síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Út af aths., sem hv. þm. V.- Húnv. gerði við verksmiðjureikningana 1939, hvort það lægju fyrir lagaheimildir til þess að stofna eftirlaunasjóð, vil ég segja það, að ég skal ekkert um það dæma, enda var ég ekki viðstaddur, þegar þessar aths. voru gerðar. En ég vil benda hv. þm. V.-Húnv. á það, að það var ákaflega lítið af síldinni 1939 lagt til vinnslu, heldur selt verksmiðjunum föstu verði. Ef þessi eftirlaunasjóður hefur verið tekinn af rekstri verksmiðjanna, þá mundi það því vera óheimilt gagnvart þeim, sem létu síldina til vinnslu. Ef hins vegar þetta fé hefur verið tekið af ágóða af þeirri síld, sem seld var föstu verði, þá verður ekki séð, að það komi að neinu leyti í bága við verksmiðjulögin. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er alveg ákveðið í l., hvað það er, sem á að draga frá áður en síldin er lögð upp til vinnslu, en hvort það eru réttlátar ráðstafanir gagnvart þeim, sem hafa lagt upp síld, fer eftir því, hvort þetta fé hefur verið tekið af þeim eða ekki. Nú get ég ekki sagt um þetta með vissu, þar sem ég hef ekki séð reikningana, og vil ég taka undir það með hv. þm. V.- Húnv., að þeir verði birtir í stjórnartíðindunum og landsreikningnum, eins og verið hefur.

Í sambandi við reikningana fyrir árið 1940 get ég upplýst það, að fram á árið 1941 var mjög mikið óselt af lýsi verksmiðjanna, en var þá selt skv. sérstökum samningi við Breta í gegnum viðskiptan., en þeir reikningar hafa ekki fengizt gerðir upp enn þá. Svo að það er beinlínis vegna þess, hve seint gengur að fá gert upp það, sem selt hefur verið frá verksmiðjunum, að ekki hefur verið hægt að loka reikningunum fyrir árið 1940. Viðskiptan. sú, sem hefur þessi mál með höndum, hefur af einhverjum ástæðum ekki getað fengið þetta í lag, og af þeim ástæðum eru reikningarnir fyrir árið 1940 ekki gerðir upp enn þá. Þetta er ákaflega leiðinlegur dráttur, og mér er kunnugt um það, að frá verksmiðjanna hálfu hafa reikningarnir verið gerðir upp að svo miklu leyti sem hægt hefur verið að gera þá upp.

Fskj. hafa verið borin fram og endurskoðuð, en aðeins er eftir að loka reikningunum, af því að ekki hafa enn þá fengizt fullnaðarskil fyrir seldar vörur árið 1940.