18.11.1941
Sameinað þing: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar og stjórnarmyndun af nýju

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef ekki átt kost að kynna mér ræðu hæstv. forsrh. fyrr en hann flutti hana nú hér á Alþingi. Hún er því ekki flutt fyrir hönd ríkisstj. né á hennar ábyrgð.

Ég tel rétt að lýsa yfir því, að ég er um sumt það, er hæstv. forsrh. sagði, honum ósammála. Hins vegar tel ég ekki viðeigandi að gagnrýna ræðu hans í einstökum atriðum.

Að öðru leyti vil ég fyrir hönd Sjálfstfl. taka þetta fram:

Þegar Sjálfstfl. gekk til samvinnu við Alþfl. og Framsfl. um myndun ríkisstj., var það sakir þess, að hann taldi þjóðarnauðsyn að sameina kraftana til átaka um lausn vandamálanna.

Sjálfstfl. telur þessa nauðsyn enn ríkari eins og nú er málum komið. Hefði flokkurinn helzt kosið, að eigi hefði komið til samvinnuslita, og telur, að hægt hefði verið að komast hjá þeim.

Frá því stjórnin baðst lausnar, hefur Sjálfstfl. þá ekki heldur haft jákvæða afstöðu til myndunar annarrar stjórnar en samsteypustjórnar þessara sömu þriggja þingflokka.