27.10.1941
Neðri deild: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (332)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hér hafa nú talað fulltrúar flestra flokka, og tel ég rétt að taka til athugunar nokkur atriði úr ræðum þessara hv. frsm. Vil ég fyrst víkja nokkrum orðum að síðasta hv. ræðumanni. Verður það stutt, því að ræða hans var þannig, að það mætti æra óstöðugan að eltast við allt, sem þar var athugavert. Hann gagnrýndi frv. aðallega fyrir það, að þar væri eingöngu ráðizt á afleiðingar dýrtíðarinnar, en ekki orsakir hennar. Til orsakanna vill hann telja hina miklu kaupgetu, en segir, að hér sé ekki gerð tilraun að lækna hana, heldur aðeins að festa verðlagið og kaupgjaldið. Það er misskilningur hjá honum, að ég hafi ekki alltaf haft opin augun fyrir því, að það þarf að fara eftir tveim leiðum: annars vegar binda stríðsgróðann og draga úr kaupgetunni og hins vegar hindra, að sköpuð sé ný og óeðlileg kaupgeta, með því að alltaf eltist á kauphækkun og verðhækkun. Það er rangt að halda því fram, að Framsfl. hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir, að stríðsgróðinn flyti hér um borð og bekki. Í skattal. frá síðasta þingi er gert ráð fyrir ráðstöfunum í þessa átt, þar sem er stríðsgróðaskatturinn og skylda gróðafélaga til að hafa í sjóði mikinn hluta af stríðsgróðanum. Það er því ekki rétt hjá hv. þm., að hægt sé að nota þetta fé til að kaupa upp fasteignir. En þessum skattaákvæðum er þannig fyrir komið, að þó að þau væru fullnægjandi fyrir árið 1940, eru þau það ekki fyrir þetta ár, og því viljum við taka upp baráttu fyrir því á næsta þingi, að skattal. verði breytt þannig, að hætt verði að draga frá greidda skatta og útsvör, til þess að koma í veg fyrir, að mikið af stríðsgróðanum geti fallið undan skatti. Stendur þá vonandi ekki á hv. þm. að fylgja því máli. Menn mega ekki ímynda sér, að allt sé gott og blessað, þótt settur sé nógu hár skattur á hæsta gróðann, því að kaupmáttur er líka mikill hjá öllum þorra landsmanna, svo að ekki er að vænta, að honum verði að fullu mætt með innflutningi, þar sem bæði vantar skipsrúm, og eins er ekki hægt að fá allar vörur frá útlöndum, sem annars mundu verða fluttar inn. Það þarf því líka að hækka skatta á öðrum tekjum en þeim hæstu. Því tel ég einnig koma til mála að setja 1. um þvingaðan sparnað, taka féð úr umferð um tíma og skila því aftur. Þetta hefur verið til athugunar, en hinir flokkarnir hafa ekki viljað fallast á það. Þá talaði hv. þm. mikið um ljótan böggul, sem fylgdi skammrifi hjá mér, þegar ég sagðist ekki aðeins vilja lögfesta kaupgjaldið, heldur einnig koma á samræmi að því er snertir framboð og eftirspurn vinnu. Þetta kallaði hana fyrst þrælahald. En síðan fór hann að hrósa sér af því að hafa í fyrra fyrstur manna bent Alþ. á þessa leið, að takmarka mannfjöldann í vinnunni hjá setuliðinu.

Ég ætla að nota hér tækifærið til að benda á, að það ber vitni um mjög óþroskaðan hugsunarhátt að halda, að það geti verið aðalbjargræði íslenzku þjóðarinnar að fá að vinna hjá þessum erlendu herjum. Ég teldi æskilegra, að enginn Íslendingur ynni hjá þeim og að menn í þess stað ynnu í þágu þjóðarinnar sjálfrar að nauðsynlegum framkvæmdum, og ég tel, að við höfum nú nóg fjárráð til þess að koma þessu þannig fyrir. Það er t. d. hörmulegt, hvernig nú er ástatt um jarðræktarframkvæmdir hér á landi. Væri ekki heppilegra, ef fólkið væri við slík störf, að ég nú ekki tali um, að það skuli geta kornið fyrir, að menn fái ekki fólk til að mjólka kýr sínar og verði því að slátra þeim af þeim ástæðum? Það er ekki lítil þrælahaldsstefna, að menn skuli leyfa sér að benda á, að þessu þurfi að breyta og að semja þurfi við setuliðið um. að það hafi aðeins hæfilega marga landsmenn í sinni þjónustu. Hvað sem menn álíta um dýrtíðarmálin, ættu allir að vera sammála um, að æskilegt væri, að samningar næðust við setuliðið um, að það hefði sem fæsta Íslendinga í þjónustu sinni, svo að fólkið gæti unnið að nauðsynlegum verkefnum.

Hæstv. félmrh. talaði hér fyrir hönd Alþfl. og minntist á yfirlýsingu mína 1939 um það, að Framsfl. vildi komast hjá að lögfesta kaupið og óskaði þess, að samningar gætu tekizt milli verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er enn ósk Framsfl. En þó álítur hann ekki aðeins rétt, heldur og skylt að setja 1. um þetta, ef hann er sannfærður um, að það fyrirkomulag, er þessir aðilar hafi komið sér saman um, sé til tjóns fyrir þjóðarheildina. Einungis af þeirri ástæðu ber nú flokkurinn fram till. um lögfestingu kaupgjaldsins. Við gerðum það ekki að kappsmáli að hafa kaupgjaldið lögbundið haustið 1940, er ákvörðun skyldi tekin um það, hvort frjálsir samningar gætu tekið við. Flokkurinn gerði það ekki að ófrávíkjanlegu skilyrði, að lögfesting héldi áfram, því að hann vildi sjá, hvernig frjálsir samningar tækjust. Nú fyrst krefst hann lögfestingar, er reynslan sýnir, að hitt fyrirkomulagið er hættulegt heilbrigðu fjármálalífi eins og sakir standa. Hæstv. ráðh. sagði um hið háa verðlag, að það stafaði ekkí af kauphækkunum, heldur verðhækkun á innlendum afurðum. Þetta er misskilningur, því að verðhækkunin á innlendum afurðum stafar að miklu leyti af hækkun á kaupgjaldi. Svo má vitanlega spyrja, hve mikið af kauphækkuninni stafar af verðhækkun á innlendum afurðum. Það er vitanlegt, að hvort um sig hefur orðið til að hækka hitt, og mætti rífast um þetta til eilífðar, áður en úr því væri skorið með nákvæmni, hve mikill er þáttur hvors um sig í dýrtíðinni.

Ef þetta hefur átt að þýða það hjá hæstv. félmrh., að hann teldi nægilegt að binda afurðaverðið, en kaupgjaldið mætti breytast, þá er það hinn hraparlegasti misskilningur. Það er ekki nóg að binda afurðaverðið, því að ef kaupgjaldið er óbundið, er ekki hægt að komast hjá því, að hækkun afurðaverðsins verði að eiga sér stað sem afleiðing af kauphækkun, og slík hækkun hlýtur að verða framkvæmd, þótt afurðaverðið yrði bundið í bili.

Hæstv. félmrh. talaði hér um leiðir Alþfl. í þessu máli, og ég kannast að vísu við, að ég hef heyrt þessar leiðir Alþfl. nefndar á nafn af honum og blaði flokksins. En ég hef hins vegar aldrei séð neinar till. frá Alþfl. á Alþ. né í ríkisstj. um dýrtíðarmálið, a. m. k. hefur þá ekki verið ríkt gengið eftir að fá til framkvæmda þær hugmyndir, sem Alþfl. hefur haft í þessu efni.

Hæstv. félmrh, sagði, að það væri allt öðru til að dreifa nú en árið 1939, þegar kaupgjaldið hefði verið bundið í sambandi við gengislækkunina. Það er að vísu rétt, að það eru aðrar ástæður nú fyrir hendi en þá voru. En það, sem hann sérstaklega dró fram, var þetta: Þá hefðu atvinnuvegirnir átt mjög erfitt uppdráttar, en nú hefðu þeir mjög rúmar hendur fjárhagslega. Ef þetta á að vera röksemd fyrir því, að nú sé rangt að binda kaupið, þá hefur hæstv. ráðh. það í hyggju, að kaupgjaldið eigi að hækka, því að annars snertir þessi röksemd ekki málið. Þó hef ég margoft heyrt það, bæði frá honum og öðrum, fyrr og síðar, að það rétta væri, að grunnkaup ætti ekki að hækka. Og einmitt þessi frjálsa leið, sem talsvert hefur verið talað um, bæði hér á þingi og ekki sízt utan þings, er einmitt byggð á því, að grunnkaup eigi ekki að hækka. Er þá ekki jafnóréttmætt að fara þá leiðina, ef hún leiðir að sama marki og lögbindingarleiðin? Missa menn þá nokkuð minna, þó að festing kaupgjaldsins sé gerð með frjálsum samningum í stað lögbindingar.

Það kom fram hjá hæstv. félmrh., að hér væri verið að taka út úr launastéttirnar, þ. e. a. s. þá yfirleitt, sem taka kaup, og þrengja kosti þeirra. Þetta er mikill misskilningur. Hér er ekki verið að taka neina stétt eða neinn út úr, heldur er hér gert ráð fyrir að festa alla þá liði í framfærslukostnaðinum, sem við getum ráðið við, kaupgjaldið, afurðaverðið, flutningsgjöldin og húsaleiguna. Hér er enginn tekinn út úr. Hverja er hægt að taka fleiri? Og til þess að verðið á innfluttu vörunni hækki ekki til neytenda, hugsum við okkur, að þjóðin leggi í sameiginlegan sjóð, sem sé notaður til þess að koma í veg fyrir, að dýrtíð aukist vegna hækkandi verðs á aðfluttum vörum. Hæstv. félmrh. sagði, að það væri skottulækning að lögbinda kaupið. En hér í þessu frv. er fyrst og fremst ekki aðeins um það að ræða að festa kaupið, heldur er einnig gert ráð fyrir því að festa alla þá liði í framfærslukostnaðinum, sem við getum ráðið við með löggjöf. Ég vil þá spyrja hæstv. félmrh.: Ef þetta er skottulækning, að samþ. lögfestingu á kaupgjaldi og festa um leið verðlagið í landinu, — hvað má þá segja um það úrræði að festa verð á innlendum vörum, en láta allt óbundið um kaupgjaldið í landinu eða treysta í því efni á samninga við yfir 100 verklýðsfélög víðsvegar um landið? Ég sé nú ekki ástæðu til að minnast á fleiri atriði í ræðu hæstv. félmrh., en vil minnast á nokkur atriði í ræðu hæstv. atvmrh. Hann kvaðst vera ákaflega ánægður með þau rök, sem ég hefði fært fyrir nauðsyn þess að stöðva dýrtíðina, og stöðva hana einmitt með því móti að festa þá liði í framfærslukostnaðinum, sem frv. fjallar um. Það er auðvitað ágætt að fá slíka yfirlýsingu frá hæstv. atvmrh. En ég vil minna á það, að það hefur verið talað í þeim tjón frá því að stríðið hófst, að það væri höfuðnauðsyn að stöðva dýrtíðina. Þó hefur það einhvern veginn orðið þannig, að hverri einustu till., sem um það hefur komið fram í ríkisstj., hefur verið komið fyrir kattarnef. (Atvmrh.: Hver er sá köttur?) Já, hver er sá köttur? — Hafi till. ekki verið komið fyrir í ríkisstj., þá hefur þeim verið komið fyrir kattarnef á Alþ. (EOl: Það er alveg rétt.) Það er eitthvað meira en lítið bogið við þetta. Það er einhver veila í þessu, eitthvað meira en litið ósamræmi milli orða og athafna. Það er bezt, einmitt í sambandi við meðferð þessa máls á Alþ. að fá það sem gleggst fram, í hverju þessi veila liggur, enn einu sinni úr því skorið, hverjir tala fagurt, en skerast úr leik, þegar eitthvað á að gera. Menn segjast hafa ákaflega mikinn vilja á því að framkvæma eitthvað í þessu máli, en samt er ekkert gert; og þannig hefur ,það gengið í 2 ár.

Hæstv. atvmrh. minntist á, að 1., sem samþ. voru hér á síðasta vori, hefðu verið mjög athuguð í ríkisstj. á s. 1. sumri, og það er vissulega rétt. Svo bætti hæstv. ráðh. því við, að eftir því, sem ríkisstj. — skildist mér hann segja —hefði athugað þessi l. betur, eftir því hefði ríkisstj. sannfærzt betur um, að þau væru ófullnægjandi og óframkvæmanleg. Það er rétt, að sumir hæstv. ráðh. komust að þessari niðurstöðu. En aðrir ráðh. álitu, að l. væru góð, það sem þau næðu, að þau næðu ekki nógu langt, en samt væri hægt með þeim að halda verulega í hemilinn á dýrtíðinni, a. m. k. ef strax hefði verið byrjað á að framkvæma þau. Hæstv. atvmrh. áleit þessa löggjöf ófullnægjandi og óframkvæmanlega í sumar. Það var hans skoðun á málinu þá. En þó kom fram hjá honum í ræðu hans hér nú, að hann leggur mikla áherzlu á að fara inn á svo kallaða „frjálsa leið“ í þessu dýrtíðarmáli og vísa frá þessu frv. Væntanlega hefur hæstv. atvmrh. gert sér grein fyrir því, að ef þetta frv. verður afgr. á þann hátt, sem hann leggur mjög mikla áherzlu á, þá er ekkert vil þess að styðjast við í framkvæmd ráðstafana í dýrtíðarmálunum, nema einmitt þessi sömu 1., sem hann hafði komizt að þeirri niðurstöðu um, að væru ófullnægjandi og óframkvæmanleg. Hefur hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir þessu? Þegar verið var að ræða um framkvæmd dýrtíðarl., þá voru þau af þessum hæstv. ráðh. talin óframkvæmanleg, og megingalli þeirra sá, að þó að fjármagni væri varið til þess að halda niðri dýrtíðinni, þá væri ekki trygging fyrir því, að ekki héldi áfram samt sem áður kapphlaupið á milli verðlags og kaupgjalds í landinu, og héldi dýrtíðin því áfram að vaxa. Nú er þessum hæstv. ráðh. boðið upp á að mæta þessari gagnrýni á dýrtíðarl. frá s. 1. vori með að koma. í veg fyrir að kaupgjald og afurðaverð haldi áfram að hækka. — En þá bregður svo undarlega við, að ráðh. vill engar breyt. á dýrtíðarl. og vill treysta á lögin, sem hann segir sjálfur, að séu ófullnægjandi og óframkvæmanleg. Hvernig á að botna í þessu? Ef hægt er með frjálsum samningum við verklýðsfélögin í landinu og þá, sem ráða afurðaverðinu, að halda föstu kaupi og afurðaverði, og jafnframt hægt að koma í veg fyrir, að verðvísitalan hækki, með því að gera ráðstafanir til þess að halda niðri verði á aðfluttum vörum, — hvers vegna var þá ekki bent á þessa leið í sumar eða haust í ríkisstj. og gömlu dýrtíðarlögin framkvæmd á þessum grundvelli? Hvers vegna var af hálfu þeirra, sem þykjast trúa á þessa leið nú, ekkert annað gert en að koma í veg fyrir alla framkvæmd dýrtíðarlaganna, á þeim grundvelli, að þau væru óframkvæmanleg? Dýrtíðin fékk þá óhindrað að halda áfram að vaxa. Hæstv. atvmrh. gerði þetta upp þannig í ræðu sinni, að í raun og veru þyrfti ekki að setja neitt frekar í l. annað en Það, sem væri í l. um þessi mál, því að atvmrh. gæti lofað því að halda flutningsgjöldum í skefjum, viðskmrh. gæti gegnum verðlagsnefnd ráðið álagningu í erlenda vöru, landbrh. gæti komið í veg fyrir, að verð hækkaði á innlendum afurðum og félmrh. gæti haldið niðri húsaleigunni; verklýðsfélögin gætu svo lofað því, að kaupið skyldi ekki hækka, og fjmrh. gæti veitt fé úr ríkissjóði til þess að koma í veg fyrir hækkandi verð á nauðsynjavörum. M. ö. o., að með þeirri löggjöf um dýrtíðarmálin, sem nú er í gildi, sem þessi sami hæstv. ráðh. telur ófullnægjandi og óframkvæmanlega í öðru orðinu, sé hægt að ráða við dýrtíðina. En gallarnir á þessum bollaleggingum hæstv. atvmrh. eru m. a. þeir, að landbrh. ræður ekki yfir verðinu á innlendum afurðum, félmrh. ræður ekki yfir húsaleigunni, því að eftir núgildandi l. má húsaleigan hækka eftir vissum reglum, og þó sérstaklega, að einhver hluti þeirra yfir 100 verklýðsfélaga, sem ráða kaupgjaldinu, eða þau öll, geta fundið upp á því að vilja halda kaupgjaldinu óbreyttu.

Hæstv. atvmrh. minntist á það í ræðu sinni, að samráðherrar okkar Framsfl.-manna í ríkisstj., hæstv. forsrh. og mín, hafi haft ástæðu til að ætla, að við mundum a. m. k. fallast á það til samkomulags að fara hina svo kölluðu „frjálsu leið“, að binda kaupgjaldið og afurðaverðið ekki með lögum, en reyna samninga í þess stað. Í niðurlagi ræðu sinnar komst hann þannig að orði um þetta, eftir því sem ræða hans er tilgreind í Morgunblaðinu: „Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að eins og það er rétt, sem hér hefur komið fram, að Framsfl.

hafi haft ástæðu til að ætla, að Sjálfstfl. væri viðmælandi um hinar bundnu leiðir og að nokkru leyti Alþfl. líka, þá fullyrði ég hiklaust hitt, að bæði við sjálfstæðismenn og einnig alþfl.-menn skildum framsóknarmenn þannig, að þeir væru reiðbúnir að sætta sig við að leysa málið eftir frjálsum leiðum, og láta það a. m. k. ekki valda samvinnuslitum, hvor leiðin yrði valin. Ég vil láta þetta koma skýrt fram, þannig að ekki verði lögð sök á okkur fyrir, að við höfum vitandi vits stofnað til samvinnuslita.“

Þegar byrjað var að ræða í ríkisstj. — í sept. hygg ég, að það hafi verið, — nauðsyn þess, að gera frekari ráðstafanir í dýrtíðarmálunum en heimilaðar væru í dýrtíðarl., þá kom strax fram hjá hæstv. félmrh. mjög mikil gagnrýni á því að lögbinda kaupgjaldið. Ég mundi vilja orða það svo, að hæstv. félmrh, hefði frá upphafi tekið því illa að festa kaupið. Hann benti þá á, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi við verklýðsfélög landsins um að halda grunnkaupinu föstu, a. m. k. að mestu eða öllu leyti. Þessi leið var þá ekki mikið rædd af þeirri ástæðu, og það kom greinilega fram, að menn höfðu enga trú á því, að þetta væri framkvæmanlegt. Svo leið og beið, og menn ræddu í ríkisstj. og í flokkunum um þá leið að binda kaupgjaldið og afurðaverðið með lögum og þær leiðir að öðru leyti, sem í dýrtíðarfrv. felast. Að lokum vildi Sjálfstfl. ekki fylgja lögbindingarleiðinni. Ég hygg, að það hafi verið tveimur eða þremur dögum áður en stjórnin baðst lausnar, að Sjálfstfl. gerði þetta kunnugt og benti á þá leið, að í staðinn fyrir að lögbinda kaupið yrði leitazt við að ná samningum við verklýðsfélögin og afurðasölunefndirnar um hina „frjálsu leið“. þegar þetta kom fram á 11. stundu, þá var okkur hinum í ríkisstj. orðið ljóst, að ráðherrar Sjálfstfl. vildu ekki sitja í ríkisstj., ef lögbindingarleiðin væri farin. Þegar hér var komið, var vitanlega skylt öllum aðilum að athuga gaumgæfilega allar uppástungur sem fram kæmu í málinu. Ég sagði þá um þessa uppástungu, að ef hægt væri að tryggja það með stuttum fyrirvara, t. d. á viku eða hálfum mánuði, að allt kaupgjald í landinu stæði í stað, Þá gæti það að sjálfsögðu komið í staðinn fyrir þau ákvæði frv., sem gera ráð fyrir lögbindingunni. Það var síðan tekinn nokkur frestur til þess að athuga möguleikana á þessu. Menn athuguðu þetta þá hver fyrir sig. Við í Framsfl. ræddum okkar á milli nánar, hvort þessi leið mundi vera framkvæmanleg. Eftir að hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að samningaleiðin væri alls ekki framkvæmanleg, tilkynntum við samstarfsmönnum okkar, að við gætum ekki fallizt á hana og mundum því fylgja fram okkar till. um lausn í málinu með fullri einurð. Nú er ekki ljóst, hvort hæstv. ráðh. Sjálfstfl. misskildu okkur í þessu um stundarsakir, enda skiptir það ekki verulegu máli. Hitt skiptir máli, hvort allt lá ljóst fyrir um afstöðu flokkanna, þegar tekin var ákvörðunin um það, hvort frv. mitt, sem hér liggur fyrir, skyldi verða flutt sem stjfrv. eða ekki, eða m. ö. o. þegar ákvörðunin var tekin um það, hvort stjórnin gæti staðið saman um þetta stórmál. Það er rétt að upplýsa það, út af ummælum hæstv. atvmrh., og það mun enginn leyfa sér að draga í efa, að rétt sé frá því skýrt, að það var alveg greinilega tekið fram, áður en endanleg afstaða var tekin í ríkisstj. um frv., að það yrði þjóðstjórninni að falli, ef hún gæti ekki orðið sammála um lausn dýrtíðarmálsins. Jafnframt var þá, áður en til atkvæða var gengið, boðið fram af Framsfl., til þess að mæta þeim, sem vildu fara frjálsu leiðina, að sett yrði sérstakt ákvæði í frv. um það, að ákvæðin um lögbindingu kaupgjalds og vöruverðs féllu niður, ef samningar hefðu náðst fyrir 1. janúar 1942 um að halda hvoru tveggja óbreyttu. Þessu tilboði gátu fulltrúar hinna flokkanna í ríkisstj. ekki gengið að; og var þá fyrst gengið til úrslitaatkvæðagreiðslu um frv. Það er því alveg víst, að enginn misskilningur hefur átt sér stað um þetta, heldur var öllum hæstv. ráðh. ljóst, hvernig málinu var komið, þegar ákvörðunin var tekin, og hér hefur ekkert farið á milli mála. Ég tek þetta svo greinilega fram vegna þess, að skilja hefði mátt hæstv. atvmrh. svo sem þeir ráðh. Sjálfstfl. hefðu ekki vitað, hvað við lá, Þegar afstaða var tekin til málsins.

Hæstv. atvmrh. minntist á það í ræðu sinni, að nokkur vafi gæti leikið á því, að sú tilraun, sem gerð yrði til þess að stöðva dýrtíðina, ef frv. yrði samþ., heppnaðist, og kvaðst hann ekki vilja taka undir þau ákveðnu ummæli, sem ég hefði haft um það efni. Ég var ekki ákveðnari í ummælum mínum um þetta efni en svo, að ég sagðist trúa því, að þessi tilraun gæti tekizt, og að sömu trú hefðu margir aðrir. Ég hef sterka trú á, að þessi tilraun geti tekizt, ef framkvæmd málsins fer rösklega úr hendi. En það eru vissar framkvæmdir, sem verður að gera til þess að skapa grundvöll fyrir framkvæmd þessara 1. Það verður að skapa meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar vinnuaflsins heldur en nú er í landinu. Það verður einnig að afla svo mikilla tekna, að hægt sé að halda niðri verðinu á erlendum vörum. Þetta hvort tveggja þyrfti að gera til þess að 1. geti náð tilgangi sínum. Fleiri ráðstafanir þyrfti að gera, sem ég ræði ekki um að sinni.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri ekki öruggt, að heppnast mundi að halda dýrtíðinni í skefjum, þó að þessi l. væru sett, og notaði hann efasemdir sínar um þetta sem röksemdir fyrir því, að reyna bæri fremur „frjálsu leiðina“. Ég lít svo á, að það muni sízt veita af því að byrja með þeim samstilltu ráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., ef menn eiga að vænta mikils árangurs. Ég er viss um, að verði þetta frv. ekki samþ. og ekki byrjað með því að lögbinda þá liði framfærslukostnaðarins, sem frv. gerir ráð fyrir, þá fari verðhækkunarskriðan af stað fyrir alvöru á nýjan leik, þannig að menn geta þá ekki við neitt ráðið og að ekkert samkomulag fæst um að nema staðar. Allar verðhækkanir og kauphækkanir í landinu hafa áhrif á almenna verðlagið í landinu, annaðhvort vegna beinna áhrifa þessara hækkana á verðvísitöluna eða af því, að menn fara að bera sig saman við það, sem aðrir hafa fyrir sína vinnu eða vöru. Og þó að mönnum finnist, fljótt á litið, byrjunarhækkanir ekki stórkostlegar, þá munu þær verka út frá sér óðar en varir og dýrtíðin aukast í landinu framvegis, fyrr en menn grunar. Við höfum reynslu um þetta frá síðasta sumri; því þegar við reyndum fyrirfram að áætla, hvað vísitalan mundi hækka, þá varð hækkunin ætíð meiri en við bjuggumst við, — liðir hækkunarinnar komu úr öllum áttum, og sannaðist þá sem áður, að margt smátt gerir eitt stórt.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar að sinni. Ég vil að lokum aðeins lýsa undrun minni yfir því, að þeir, sem leggja jafnmikla áherzlu á nauðsyn þess að stöðva dýrtíðina og allir þykjast gera, skuli ekki geta fylgt því frv., sem hér liggur fyrir. Og það því fremur, sem báðir þeir hæstv. ráðh., sem tekið hafa til máls, hafa lýst yfir því, að þeir væru í raun og veru fylgjandi því, að hægt væri að halda föstum þeim liðum, sem frv. fjallar um. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni: Getur það nokkru sinni verið rangt að setja það í lög, sem menn eru vissir um, að er fyrir beztu? Er ekki rangt að hika við að setja slíkt í 1. og eiga það alveg óvíst, hvort því marki verður náð, sem allir eru sammála um, að nauðsynlegt sé að ná?