28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (337)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Mér þykir það hálfóviðkunnanlegt af hálfu þessa kollega míns í ríkisstj., hæstv. atvmrh., að hann skuli halda því fram, — þótt hann trúi því ekki einu sinni sjálfur —, að ég hafi nokkurn tíma gefið nokkra vísbending um, að ég væri með því, að kaup væri lögboðið. Nú liggur fyrir skrifleg og skjalfest yfirlýsing frá forsætisráðh, og birt í blaði hans um þetta efni og staðfestir það, sem ég hef um það sagt. Ég hef aldrei látið falla eitt orð um, að ég mundi geta fallizt á lögbindingarleiðina, og a. m. k. í Alþfl. er eindregin andstaða mín gegn henni mörgum mönnum kunnug, frá því að ég skýrði þar frá gangi málsins, unz það komst á núverandi stig.

Ég hygg, að þegar farið var að ræða lögbindingarleiðina innan ríkisstj., hafi atvmrh. komið fram með það fyrstur manna í ríkisstj., að það þyrfti að takmarka lögbindinguna, svo að kaup gæti hækkað eitthvað, ef dýrtíðarvísitala færi yfir visst mark. Þessari uppástungu hans var fyrr og síðar mjög haldið að mér í ríkisstj., ef ég kynni þá að reynast tilleiðanlegri og þar sem slíkur „hemill“ virtist í sjálfu sér ekki hafa neitt illt í för með sér, þótt honum væri blandað í málið, tók ég þátt í umr. um hann, eins og mér bar skylda til að ræða þetta vandamál ríkisstj. í heild, meðan ekki var slitnað upp úr og samkomulagsleiðir lokaðar. Hæstv. atvmrh. vill snúa þessu á þann veg, að ég hafi stefnt að sömu lausn og hann. Ráðh. mun sérstaklega hafa í huga skriflegt plagg, sem ég lagði fram með rökum gegn lögfestingunni, en ef hann slítur þar ekki einstakar setningar úr samhengi, mun honum og hverjum lesanda verða það ljóst af plagginu, hve ég og Alþfl. var órafjarri því að ganga inn á braut hans.

Föstud. 17. okt. var fundur um málið í ríkisstj., og voru þar ásamt mér úr Alþfl. Haraldur Guðmundsson, þm. Seyðf., Finnur Jónsson, þm. Ísaf., og Ingimar Jónsson skólastjóri. Í fylgd með atvmrh. var þar úr Sjálfstfl. Árni Jónsson, 9. landsk., og með ráðherrum Framsfl. Bernharð Stefánsson, 1. þm. Eyf. Þá tók ég skýrt fram, eftir að hæstv. forsrh. hafði reifað málið, að afstaða Alþfl. væri eindregin og ákveðin gegn lögfestingu kaups, og færði rök fyrir því, að það væru ekki fyrst og fremst launastéttirnar. sem yllu verðhækkuninni og þar með vísitöluhækkuninni, enda vissi ég ekki, að nokkur hreyfing væri í þá átt í verklýðsfélögunum að segja upp samningum og knýja fram hækkun grunnkaups hjá sér. Ég gat enga yfirlýsing gefið f. h. Alþýðusambands Íslands, því að ég er ekki í stjórn þess, og ekki einu sinni meðlimur þess, en þá vitneskju fékk ég frá stjórn þess, að engin slík hreyfing mundi uppi vera, og skýrði frá því á fundinum, um leið og ég mótmælti lög- festingunni. Hæstv. fjmrh. hafði venjulega þann fyrirvara með því, sem hann lagði til þessara mála, að allt væri undir því komið, að samkomulag næðist um þau milli allra stjórnarflokka. Hins minnist ég ekki, að hæstv. atvmrh. léti nokkurn tíma þau orð falla, og efast um, að það hafi verið honum hugfólgið. Það er ekki viðkunnanlegt að segja meira um það atriði, en hér er ég að bera af mér sakir hæstv. atvmrh. Ég vænti þess, að slíkt, sem hann vildi bera á mig, verði ekki borið á mig eftirleiðis.