28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (338)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég mundi hafa geymt mér að svara hv. þm. A.-Húnv. og fleiri þm., ef hæstv. atvmrh. hefði ekki gefið tilefni til andsvara, sem ég vil ekki láta bíða. Áður en ég tek til meðferðar frásagnir hans um það, sem farið hafi milli okkar í ríkisstj. um þetta mál frá upphafi, vil ég víkja að málefninu sjálfu.

Hæstv. atvmrh. hlaut að viðurkenna, að tilgangur sinn væri í rauninni að vísa málinu frá þinginu og treysta algerlega á þá löggjöf, sem nú er í gildi. Hann færði það sem rök fyrir hinni gerbreyttu afstöðu sinni, að núna ætti að vera hægt að fara að gera talsvert gagn með þeirri löggjöf, sem ekkert var hægt að gera með fyrir mánuði síðan. Þetta er hins vegar léleg afsökun. Það var hægt að gera mikið í sumar og koma í veg fyrir meginhluta þeirrar vísitöluhækkunar, sem orðið hefur síðan í sumar. En það var ekki gert, af því að það strandaði á afstöðu ráðh. Sjálfstfl. Það var ekki hægt, sögðu þeir, meðan ekki var búið að stöðva kapphlaupið milli kaups og afurðaverðs. Blöð þeirra linntu ekki látum að hrópa um, að dýrtíðarl. væru óframkvæmanleg. Það er ekki langt síðan hæstv. atvmrh. hélt ræðu í félagi einu í flokki sínum og lagði út af þessu sama, að ekkert væri hægt að gera með l., að ég nú ekki tali um, hvað till. mínar um framkvæmd þeirra voru ómögulegar í augum hans. Ég skal játa, að gagnrýni Sjálfstfl. á l. var að því leyti réttmæt, að tryggingu skorti fyrir því, að kapphlaup kaups og afurðaverðs stöðvaðist, en það afsakar ekki aðgerðaleysið. Og þegar við Framsfl.-menn gerðum tillögur, sem miðuðu að því að tryggja þetta, tók hæstv. atvmrh. vel undir þær, — já, svo vel, að hann sagði, að þótt ég hefði stílfært þær, væri vafi á, hver ætti í þeim stærstan hlutann, — hann virtist jafnvel fúsastur að líta á þær sem sínar tillögur .

Þetta breyttist ekki, fyrr en þing var komið saman og sjáanlega var, eins og hæstv. atvmrh. hefur sjálfur tekið fram, ekkert lát á mótstöðu Alþfl. gegn till. Þá þora sjálfstæðismenn allt í einu ekki lengur að fylgja þessum ágætu till., sem ráðh. þeirra hafði viljað eiga sem mest í. Í þess stað grípa þeir nú fegnir 1., sem við vildum reyna að framkvæma og fengum ekki, en þeir töluðu hraklegast um. Hvað er slíkt nema blekking ein og sama neikvæða afstaðan og í sumar?

Jú, það er ofurlítið meira, — ótti við, að aðrir, og þá helzt Alþfl., sem þeir tala þó um af mestri lítilsvirðingu, geti orðið enn þá neikvæðari og grætt á því pólítískt fylgi. Þess vegna er hlaupizt frá „áhugamálunum“.

Við framsóknarmenn, sem áttum á síðasta þingi og stöðugt síðan allar þær till. í dýrtíðarmálinu, sem til einhvers duga og reynt hefur verið að hrinda fram, viljum nú ganga úr skugga um það, hvort ekki er hægt að fá fylgi meiri hluta Alþ. við þá lausn, sem hér er til umr., —að öðrum kosti leggst ábyrgðin á þann meiri hl. þm., sem í rauninni er þess sinnis að gera ekki neitt.

Ég vil segja það við hv. þm. A.-Húnv., að ég kann því illa, að frá sjálfstæðismönnum komi svigurmæli í garð framsóknarmanna um, að þeir séu vargar í véum í þessu máli. Ég skal ekki metast um það, hver hefur slitið samstarf flokkanna, en það er óviðkunnanlegt, þegar einstakir þm. telja sig hafa rétt til þess að kasta slíku fram.

Þá kem ég að því, sem hæstv. atvmrh. sagði um aðdraganda málsins, þó að í raun og veru sé þýðingarlítið fyrir málið að vera að ræða það fram og aftur og ekki sem smekklegast, að við séum að herma hver upp á annan, hvað gerzt hefur á ráðherrafundum, jafnvel einkaviðtölum. Það, sem máli skiptir, er sú niðurstaða, sem við höfum komizt að hver um sig. En fyrst byrjað er á þessu, tel ég rétt að leggja orð í belg. Ég hef alltaf litið svo á, að fulltrúi Alþfl. hafi tekið illa í að lögbinda kaupið. Ég man ekki, hver fyrstur vildi setja takmark um það, hversu mikið dýrtíðin mætti hækka án þess að dýrtíðaruppbót yrði hækkuð.

Um síðasta þátt málsins, sem snertir ráðh. Framsfl., vil ég segja örfá orð.

Hæstv. atvmrh. gat þess, að fyrra laugardag hefðu ráðh. Sjálfstfl. minnzt á það við ráðh.. Framsfl. og síðar alla ráðh., hvort ekki mætti fara inn á „frjálsu leiðina“ eins og hún er nú kölluð, þ. e. a. s. halda öllu kaupi föstu og halda verði föstu, hvort tveggja með samningum við verkamenn og afurðasölunefndir, en að ríkisvaldið reyndi svo að halda vísitölunni niðri.

Þegar hér var komið sögu, vissum við, að Sjálfstfl. hafði snúizt í lögbindingarmálinu. Við töldum okkur skylt að íhuga aðrar uppástungur, og ég tók það fram, að ef slíkir samningar gætu legið á borðinu með stuttum fyrirvara á meðan Alþ. sæti, teldi ég það lausn á málinu. Var síðan tekinn frestur til þess að athuga, hvort nokkrar líkur væru fyrir því, að þetta yrði framkvæmanlegt. Á mánudag var talað um þetta á nýjan leik, og höfðum við hæstv. forsrh. þá aflað okkur upplýsinga m. a. frá hæstv. félmrh., sem sannfærðu okkur um, að þessi leið væri ekki framkvæmanleg, og lýstum við því yfir, að við mundum leggja okkar till. fram, og yrði að fara sem fara vildi. Síðan var fundi slitið til þess að menn gætu íhugað enn einu sinni þær pólitísku afleiðingar, sem þetta mundi hafa. Á þriðjudag var frv. síðan lagt fram formlega, og um leið var það tekið fram, að ef ráðherrarnir gætu ekki fallizt á það, yrði forsrh. að beiðast lausnar fyrir þjóðstj., en við vildum til samkomulags setja í frv. ákvæði um, að lögbinding kaups og afurðaverðs kæmi ekki til framkvæmda frá l. jan. n. k., ef samningar kynnu að nást um að halda því óbreyttu. En miðlunartill. höfðu engin áhrif. Hafi einhver misskilningur átt sér stað daginn áður, þannig að mönnum hafi komið á óvart, að stjórnin yrði að segja af sér, ef frv. yrði ekki flutt sem stjfrv., þá áttu þeir, sem kom þetta á óvart, að biðja um frest, ef þetta kynni að geta breytt afstöðu þeirra. En slíkt kom alls ekki fram.

Ég hefði ekki farið að minnast á þetta, ef ekki hefði legið beint við að skilja þannig ræðu hæstv. atvmrh., sem kom í Morgunbl. og hann flutti hér í gær, að þegar frv. var borið fram, hefði ekki verið ljóst, hvað við lá. Þetta er misskilningur, því að það gat ekki farið á milli mála, hvernig afstaðan var, þegar endanleg ákvörðun var tekin.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði í samlandi við hina svo kölluðu frjálsu leið. Þegar farið var að rannsaka kaupgjaldsmálið, sást, að engin von var til þess, að sú niðurstaða gæti náðst, sem farið var fram með í frv. því, sem fyrir liggur. Það er því ekki á góðu von, ef frv. þetta verður fellt. Þó má segja, að ef það, sem nú hefur gerzt, verður til þess, að farið verður að framkvæma af fullu kappi lagaheimildir í dýrtíðarmálum, sem fyrir liggja, er þó eitthvað unnið, þótt það sé í raun og veru orðið of seint og með því einu verði aldrei náð í höfn, eins og nú er komið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara hv. þm. A.-Húnv. mörgu. Hann virðist vera á móti frv. og öllu, sem það hefur inni að halda. Að því leyti, sem hægt var að finna botn í því, sem hann sagði, var ástæðan sú, að nú væri komið svo langt á dýrtíðarbrautinni, að sjálfsagt væri að láta boltann velta áfram. Þessi afstaða er eitthvað svipuð því, ef þm. kæmi að manni, sem hefði fallið ofan í dý og væri þegar sokkinn í mitti, og hann teldi ekki ómaksins vert að hjálpa honum, af því að hann væri þegar sokkinn svo djúpt. Mundi það ekki vera fyrsta stigið í björgunarstarfinu að koma því til leiðar, að maðurinn hætti að sökkva?

Hv. þm. , hélt sér við gamla heygarðshornið og tók að sér þann hluta af lýðskruminu, sem ætlaður er bændum. Verðlagið á landbúnaðarafurðum, sem ætti að lögfesta, væri allt of lágt.

o. s. frv. o. s. frv. Hv. þm. gerði fyrirspurn um það, hvort framsóknarmenn væru svona lítilþægir, og nefndi í því sambandi ýmsa af þm. flokksins, sem hafa með höndum trúnaðarstörf fyrir landbúnaðinn. Það er rétt að segja honum enn einu sinni, að allur Framsfl. stendur að þessu frv., og er honum óhætt að byrja bakmælgi sína um framsóknarmenn þegar í stað á þeim grundvelli.

Hv. þm. minntist á þá gr. frv., sem fjallar um uppbætur á úfluttum landbúnaðarafurðum, og sagði, að óþarfi væri að samþ. þá gr. Um leið tók hann fram, að það væri þó réttmætt, sem lagt er til. Ég veit ekki, hvað hann veit, en ég veit, að hæstv. forsrh. hefur skrifað kjötverðlagsn. bréf og. heitið því að leggja til við Alþ., að verðlagið á útfluttu kjöti verði bætt upp, og þetta bréf skrifaði hæstv. forsrh. einn, af því að það fékkst ekki samkomulag um það í ríkisstj. að lofa uppbót á kjötið. Það er því fullkomin ástæða fyrir Alþ. að taka það mál upp sérstaklega. Að öðru leyti verður hv. þm. A.-Húnv. sjálfur að hafa fyrir því að kynna sér þetta um kjötið. Hann getur spurt ráðherrana úr sínum flokki nánar um það.