28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (339)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það eru aðeins örfáar aths. Það er svo, að það sannast, að margt kemur í ljós, þegar hjúin deila. Þessar umr. eru mér ógeðfelldar, þó að ég hins vegar eins og samstarfsmenn mínir vilji færast undan því, að höfuðsökin lendi á okkur. Það er ekki mér að kenna, að þessi leikur er hafinn, en ég vil ekki láta ómótmælt því, sem fram hefur komið í umr. um afstöðu Sjálfstfl. annars vegar og Framsfl. og Alþfl. hins vegar til sögulegra atburða í þessu máli. Mig undrar það, ef ég heyri rétt, að hæstv. félmrh. segir, að ég hafi fyrstur stungið upp á þessu í ríkisstj. Ég held, að hann eigi heiðurinn af því. Ég man, að ég sagði: „Ég viðurkenni, að hagstofustjóri hefur vikið því að mér, hvort ekki væri nauðsynlegt, að einmitt slíkur hemill væri settur á: Það er meira minnisleysið í ríkisstj. Ég veit ekki, hvort óhætt er að fela henni vandasöm mál, þegar minnisleysið er svona gífurlegt. Eftir því, sem málefnabilið víkkar á milli okkar, fer minnisleysið vaxandi. Ég harma það mjög.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það hefði verið leikur einn í sumar að girða fyrir aukningu á dýrtíðinni með fé úr ríkissjóði. (Viðskmrh.: Að miklu eða öllu leyti.) Að miklu eða öllu leyti, segir hæstv. ráðh. Við skulum hafa það svo. En ég mæli á móti því, að þetta sé rökrétt. Ef við hefðum samkv. þeim heimildum, sem til voru, átt að ná þessu marki, urðum við að sætta okkur við, að verðlagsnefndir ákvæðu verðið á kjöti og mjólk, og aðrar n. álagningu á aðrar vörur, skattar yrðu lagðir á sjávarafurðirnar til að greiða bændum, en samt þurftum við að tryggja neytendum lægra verð. Þessi leið mátti því heita ófær. Bændur eiga vissan rétt á að segja: Við viljum sjálfir ákveða verð á okkar vörum, — en neytendur hafa sama rétt til að segja: Við ákveðum, hvort við borgum það verð. Það þýðir ekki að fara lengra í hækkuninni en svo, að kaupandinn dragi sig ekki í hlé. Ég hélt, að þetta væri sameiginlegt álit okkar allra, og ég vil, að það komi skýrt fram, að þegar menn eru að tala um, að það hefði verið hægt að ráða við dýrtíðina, þá kallaði það á 10% útflutningsgjald. Voru þm. Sjálfstfl. tilbúnir til að samþ. slíkt? Menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki nóg að segja, að þetta eða hitt sé hægt að gera með fjárframlögum. Það verður líka að afla fjárins. Ég veit ekki, hvað mörgum stigum hækkun á innlendum afurðum hefur valdið án vísitölunni. En til þess að sporna við t. d. 30 stiga hækkun, hefðum við víst þurft 15–20 millj. úr ríkissjóði.

Eftir allt þetta var það, að ríkisstj. sem heild fór að ræða um þessar nýju leiðir. Ég þarf ekki að endurtaka, að aðstaðan er önnur til að glíma við þetta nú en á miðju sumri eða t. d. um síðustu áramót.

En hvað sem öðru líður, þá er þó rétt, að hæstv. viðskmrh. var viðmælandi síðustu daga baráttunnar, til þess að leysa málin eftir frjálsu leiðinni, þó hann nú síðar vilji fara aðrar leiðir. Ég segi þetta ekki honum til lasts, heldur til lofs, því hann vildi rannsaka allar leiðir til að ná árangri í baráttunni við dýrtíðina. Ég mun þess vegna ekki ámæla honum, þó trú hans á frjálsu leiðina hafi rénað.

Ég vil svo að lokum segja það, að á mánudaginn, þegar rætt var um frjálsu leiðina, þá töldum við ráðherrar Sjálfstfl., að ráðherrar Framsfl. vildu fara þessa leið. En það, sem síðar hefur gerzt í þessu, hefur leitt til þeirra atburða, er öllum eru kunnir.

Með tilvísun til hinnar fyrri ræðu minnar um þetta mál læt ég þetta nægja að sinni.