28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (341)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Einar Olgeirsson:

Það hafa verið annars mjög skemmtilegir fundir hér í hv. Nd., eins og t. d. seinni partinn í dag, sérstaklega það hlutverk, sem hæstv. ráðh. hafa leikið þar. Ég sé ekki betur en að það hafi verið eins konar kvikmynd — criminal-filma —, því að þeir eru búnir að þrátta um það í 2–3 klst., hvernig það hafi eiginlega verið, þegar þjóðstjórnin gaf upp andann. Svo herma þeir hver upp á annan, að þeir hafi misskilið hver annan. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh., hvaða mál þeir hafi talað, þegar þeir töluðu saman á þessum fundum. Væri ekki réttara fyrir þá að tala íslenzku heldur en þetta mál, sem þeir hafa talað? Alltaf eru þeir að tala um það, sem gerzt hafi á þessum fundum, og á meðan hefur misskilningurinn sprottið á þessum fundum hjá þeim. Væri ekki reynandi að fara að eins og sagt er, að leynilögreglumenn geri, þegar þeir þurfa að upplýsa, hver hafi framið t. d. morð? Þeir kvað láta stilla öllu fólkinu upp, sem var á morðstaðnum, þegar morðið var framið, og kvikmynda það. Ég held, að það væri betra, að hæstv. ráðh. lékju svo sem þrjá síðustu fundina í ríkisstj. áður en þjóðstjórnin sagði af sér, svo að við gætum séð og heyrt það, sem fram fór, og fengið gleggri hugmynd um það heldur en af frásögn einni saman. Og þá sérstaklega með tilliti til sagnaritara framtíðarinnar, og alveg sérstaklega með tilliti til sagnaritara þjóðstjórnarinnar, held ég að væri betra, að eitthvað áreiðanlegra lægi fyrir en þessar misskilnings yfirlýsingar hér.

En svo að ég taki nú það, sem hæstv. ráðh. komu að málinu, sem virðist vera að kafna í þessum umr., ætla ég að koma að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um mína ræðu. Hann virtist vilja gera sem minnst úr því, að stríðsgróði yfirstéttanna ætti meginþátt í dýrtíðinni og því, hvernig kaupmáttur krónunnar hefur minnkað. Þó boðar hann það, hæstv. ráðh., að hann hafi séð þarna nokkra hættu, og þess vegna ætli hann að leggja fram allmikið skattafrv. hér á þingi bráðum, sem mér virtist eiga að beinast að stórgróðamönnunum og auðmönnunum í landinu. Ég vil nú spyrja : Hvernig stendur á því, að Framsfl. vill sprengja þjóðstjórnina á lögfestingu kaupgjalds verkamannanna í landinu frekar en á skattamálunum? Hvernig stendur á því, að Framsfl., sem hefur þótzt fremur vera flokkur bændastéttarinnar en embættismannanna í Reykjavík, skuli velja lögfestingu kaupgjaldsins og afurðaverðsins til þess að kljúfa stjórnarsamvinnuna, fremur en skattana á milljónamæringana? Hefði ekki verið vænlegra, bæði hér á Alþ. og fyrir heill og hag vinnandi stéttanna í landinu, að leggja skattafrv. fram fyrst og láta stranda samvinnuna á þeim? hað er ákaflega einkennileg stefna sem Framsfl. hefur farið inn á á síðustu árum, og í samræmi við þá stefnu er einkennilegt, að hann skuli nú ekki heldur gera það að fráfararatriði, að þingið skuli ekki vilja leggja skatt í milljónamennina hér í Reykjavík, fremur en hitt, að þingið vilji ekki vega tvisvar í sama knérunn til þess að verkalýðurinn í landinu fái ekki rétt til þess að semja um sitt kaup og bæta sín kjör.

Hæstv. viðskmrh. fór svo nokkuð inn á það, sem ég fór inn á viðvíkjandi verðlagsvísitölunni og hækkun þeirri, sem þar hefur orðið. Hann reyndi í raun og veru ekkert að hrekja af því, sem ég þar fór fram á; það vantaði alveg rökin hjá honum í sambandi við það. Ekki reyndi hann heldur að hrekja það, sem ég sagði um þá miklu kaupgetu, sem safnazt hefur fyrir hjá auðmönnunum í landinu. Þó hefði ég búizt við, að þessi hæstv. ráðh. hefði lagt eitthvert orð í belg viðvíkjandi þeim tölum, sem ég kom með, því að hann er svo talnafróður, að ef meiningin hefði verið fyrir honum að upplýsa þingið eitthvað um það efni, hefði maður getað búizt við, að þær upplýsingar hefðu komið frá honum. Það er því ekkert komið fram, sem gæti skapað grundvöll undir hagfræðilega rannsókn og hagfræðilegar umr. um þetta mál.

Þessi sami hæstv. ráðh. sagði líka, að eftir frv. ætti verkalýðurinn engu að fórna. Það þykir mér þó hart, ef hann á engu að fórna með því að kaupið væri lögfest, jafnvel þó að dýrtíð yxi, sem yrði til þess, með óbreyttum taxta kaupsins, að lækka kaupið raunverulega.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að ég hefði haldið fram, að með lögfestingu kaupsins og niðurskipting vinnunnar væri verið að innleiða þrælahald í landinu. En þó varaði ég við því á Alþ. á síðasta vetri, hve mikið af vinnuafli fer í Bretavinnu. Við þm. Sósíalistafl. vorum að vara við því þá, vegna þess, hve mikil vinnuafl fór frá framleiðslunni, og héldum því fram, að það yrði að vinna að framleiðslunni. Till. Sósíalistafl. fóru fram á það, að bændum landsins væri veittur sérstakur hár styrkur til þess að þeir í kaupgreiðslum gætu keppt við Bretavinnuna með því að borga jafnhátt kaup og verkamenn fá í Bretavinnu. Og það er ekki það há upphæð, sem þar kæmi til greina, eftir því vinnuafli, sem landbúnaður hefur haft á undanförnum árum, að það yrði ókleift, — kannske svo sem 2 millj. kr. á ári. Þetta átti að gera á frjálsum grundvelli, án þess að ganga á hag verkalýðsins og án þess að ganga á rétt bændanna. Og það er hægur vandi að gera þetta á tíma, þegar gróði milljónamæringanna nam tugum millj. króna, og því hægt að taka svo og svo mikið af því með sköttum. Það var þess vegna afar langt frá því, að það, sem þar kom til greina, væri nokkurt þrælahald. En þá var bent á hættu, sem í þessu efni væri yfirvofandi, og jafnframt leið til þess, að bændur og verkamenn í sameiningu gætu ráðið bót á því ástandi, sem þarna var að skapast.

Nú skal ég skjóta því inn i, fyrst talað er um Bretavinnuna, að það er rétt athugað, að meðan við lifum í þjóðfélagi, þar sem eins er skipað málum og í okkar þjóðfélagi, verður verkalýðsstéttin, á meðan hún á undir högg að sækja um sín atvinnukjör, að halda þannig á málum, að hún gefi ekki úr höndum sér þau völd, sem hún hefur í hendur fengið. Baráttan er um það, hver hafi völdin á hendi. Verkalýðnum dettur ekki í hug að afsala sér þeirri aðstöðu, þegar gengið er eftir honum um það að fá að nýta hans vinnu. Þess vegna er eðlilegt og skiljanlegt., að verkalýðurinn setji sig á móti því, að farið sé að úthluta og skipta á milli annarra vinnu hans í landinu.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri síður en svo, að Bretavinnan væri neitt bjargráð fyrir þjóðina. Hann minntist á, að í raun og veru gæti allt okkar fólk verið önnum kafið við framleiðsluna og að hér þyrfti ekkert atvinnuleysi að vera. Glæsileg mynd! En einmitt þetta þjóðfélag, þar sem allar hendur eru starfandi, þar sem allir eru önnum kafnir, hefur haft möguleika til að skapast síðustu árin. Hvað hefur staðið í vegi fyrir því, að allir menn gætu haft vinnu 7 hin síðustu ár? Hæstv. ráðh. var að segja, að það væri hart, að menn fengjust ekki til að mjólka kýrnar og að það þyrfti að skera þær vegna þess. Hefur það staðið í veginum árin 1934–1939, þannig að það hafi þurft að skera kýrnar fyrir þá sök, að ekki hafi verið hægt að fá menn til að mjólka þær? Það var hægt að útrýma atvinnuleysinu árin 1934–1939, hefði vilji verið á því að nota það vinnuafl, sem til var í landinu. Nú er eins og verið sé að uppgötva það, hve mikils virði vinnuaflið sé.

Hæstv. viðskmrh. var einnig að tala um seðlaútgáfu og einhverjar innstæður í Englandi. Þar eigum við mikið fé í innstæðum og náum inn nokkru af vörum þaðan. En 1934–1939 höfðum við vinnuaflið, þegar menn gengu atvinnulausir. Þá höfðum við mikið vinnuafl til að rækta land og byggja hús. En þá litu valdhafarnir á það vinnuafl eins og einhvern trafala. Verkalýðurinn var svo heimtufrekur og alltaf að heimta vinnu. Þá gat þetta fólk allt verið önnum kafið, ef þeir, sem valdið höfðu og töldu sig fylgja sósíalístiskri stefnu í stjórnmálum, hefðu viljað nota vinnuaflið. Vinnuaflið var til, og verkalýðurinn beið eftir, að það yrði notað. En nú fyrst virðast valdamennirnir í landinu vera að læra að meta þetta afl. Hverju var hæstv. iðnmrh. svo að lýsa? Hann sagði, að eftir þetta stríð mundi að öllum líkindum koma atvinnuleysi aftur. Af hverju væri ekki hægt að afstýra atvinnuleysi á Íslandi þá, með öllum sínum hörmungum, og láta það aldrei koma upp aftur hér á Íslandi? Ég held, að það hafi verið alveg rétt, sem skauzt upp úr hæstv. viðskmrh. síðast í hans ræðu, þegar hann sagði, að það „væri eitthvað bogið við þetta allt saman“. Það er alveg rétt, að það er eitthvað meira en lítið bogið við það. Hæstv. ráðh. var að tala um, að það hefði gengið svona í tvö ár, sem hann var að minnast á. En þetta hefur gengið lengur.

Þá vil ég minnast nokkuð á það, sem hæstv. félmrh. sagði. Hann minntist á, að ég hefði verið að skjóta hinum eitruðustu örvum að Alþfl. Ég man nú ekki eftir því. Ég held, að ég hafi verið afar meinlaus við hann, og hann hafi ekki átt annað skilið. Þessi hæstv. ráðh. segir, að verkalýðurinn muni ekki hugsa til þess nú að hækka kaupið. Og hann orðaði það svo, að „það væri engin yfirvofandi hætta“ á því, að verkalýðurinn mundi vilja hækka kaupið. Mér þykir nú nokkuð undarlegt að heyra af vörum þessa formanns verkalýðsins, að hann taki svo til orða að tala um „hættu“ í þessu sambandi. Við hefðum frekar getað búizt við, að hann hefði sagt, að því miður væri engin von til þess. Frá hvaða sjónarmiði talar hann, þegar hann talar svona, að það sé engin „hætta“ á, að verkalýðurinn vilji láta hækka grunnkaupið? En ég held, að ég verði næstum að leiðrétta hæstv. félmrh. í þessu. Ég held, að það sé áreiðanlega tilhneiging hjá verkamönnum til að hækka grunnkaupið í þeim tilfellum, sem þeim finnst það of lágt. En sérstaklega held ég þó, að tilhneiging sé til þess meðal þeirra að stytta vinnutímann, og í því atriði hafa Íslendingar verið langt á eftir mönnum í lýðræðislöndum að koma á 8 stunda vinnudegi. Og í þeim félögum, sem ekki hafa komið á hjá sér 8 stunda vinnudegi, er nú tilhneiging til þess. Stærsta verkamannafélag landsins, Dagsbrún, hefur ekki komið á hjá sér 8 stunda vinnudegi, og hæstv. atvmrh. sagði, að það mundi ekki segja upp samningum. Það kann nú að takast fyrir hæstv. atvmrh. og þeim, sem með honum standa, að hindra það, að Dagsbrúnarfundur komi saman til þess að samþ. að stytta vinnutímann og ekki sízt til þess að hækka grunnkaupið. Og þó að þetta takist, þá verður kaup verkamannanna hækkað engu að síður, og það hefur skeð nú þegar. Það er rétt, þegar rætt er um kaup og miðað er eingöngu við taxtann, að minnast á það, að kolavinnukaup hefur hækkað upp fyrir Dagsbrúnartaxta, vegna þess að verkamenn við þá vinnu hafa tekið sig saman og sagt : Við vinnum ekki þessa vinnu, sem er verri en önnur vinna, fyrir sama kaup og aðra vinnu. Og þeir hafa fengið hækkun á sínu kaupi. Grunnkaupið hefur verið hækkað í þessu tilfelli og mun hækka hjá verklýðsfélögum. Enn fremur er rétt að vekja athygli á því, að boðið er kaup langt fyrir ofan taxtakaup, t. d. trésmiðum. Verkamönnum, sem eru laghentir og geta gengið að trésmíðastarfi, er greitt hærra en taxtakaup, vegna þess að þeir menn knýja það fram af því, hve mikil eftirspurn er eftir vinnuaflinu.

Svo kem ég að hæstv. atvmrh. Það virðist eitthvað orðið umsnúið frá því, sem verið hefur fyrr hér í hæstv. Alþ., þegar hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, kemur með yfirlýsingu um það, að Dagsbrún ætli ekki að segja upp kaupsamningum. Hins vegar heyrist ekki, að hv. 3. þm. Reykv., sem nú er formaður Dagsbrúnar og á sæti hér í hv. þd., segi eitt einasta orð um það, hvað Dagsbrún ætli að gera í þessu sambandi, né heldur hefur hann eitt einasta orð að mæla, þegar rætt er um það að lækka dagkaupið. Öðruvísi mér áður brá. Og undarlegt er það, þegar Ólafur Thors gefur yfirlýsingar hér á Alþ. um þessi efni. Það er nú af, sem áður var, ef Ólafur Thors skipar fyrir verkum og hinn (HV) hlýðir. Það er skemmtilegt að fá þá yfirlýsingu, sem hæstv. atvmrh. gaf. Hann sagði, að sér hefði verið falið að tala við stjórnir tveggja verklýðsfélaga, Dagsbrúnar og Hlífar. um þann árangur, sem á að hafa orðið af því að tala við Dagsbrúnarstjórnina, höfum við nú heyrt. En Hlífarfundur var haldinn á sunnudagskvöld. Þar kom maður og bar það upp við formann félagsins, Hermann Guðmundsson, að Ólafur Thors hefði sagt, að sér hefði verið falið að tala við stjórn félagsins og sagt eftir það samtal, sem Ó. Th. sagðist hafa átt við formanninn, að sér hefði verið tjáð, að félagið hugsaði ekki til þess að hækka grunnkaup. Formaður félagsins, Hermann Guðmundsson, sór fyrir það þá og sárt við lagði, að atvmrh. hefði komið nokkuð nálægt því. Það væri nú kannske heppilegra, að forsprakkar Sjálfstfl. og fulltrúar verklýðsfélaganna kæmu sér betur saman um það á fundum sínum, hvað þeir ætla að tala, annar á fundum sínum, en hinn í hv. Nd.

Þá ætla ég að minnast örfáum orðum á það, sem hv. þm. Seyðf. kom inn á viðvíkjandi verklýðssamtökunum í sinni ræðu, ekki til þess að deila þar á hann, því að hann gaf ekki tilefni til þess. En hann spurði hina samstarfsmenn sína í ríkisstj., hvernig á því stæði, að það ætti að ráðast á verkalýðsstéttina og lögfesta hjá henni kaupið, þegar hún hefði sýnt mesta þegnskap um að hækka ekki sitt kaup, þegar aðrar stéttir í þjóðfélaginu hefðu skarað eld að sinni köku. Hann virtist vera mjög hissa á þessum aðförum. Ég er undrandi, ef þetta er annað en leikaraskapur hjá þessum hv. þm., ef hann er ekki farinn að læra meira á samstarfinu heldur en þetta. Af hverju er ráðizt á verkalýðinn, en ekki byrjað á því að vilja fyrst taka svo eða svo mikið af gróða auðkýfinganna í Reykjavík? Af því að þeir, sem með völdin fara, vilja ráðast þar á garðinn, sem hann er lægstur. Af því að verkalýðurinn hefur verið auðmjúkur eins og lamb. Ef verkalýðurinn hefði hagað sér eins og ljón, ef hann hefði verið harðvítugur og miskunnarlaus og neytt aðstöðu sinnar óvægilega til þess að skara eld að sinni köku, — hvernig hefðu þá valdhafarnir hugsað um hann? Þeir hefðu borið virðingu fyrir honum og ekki þorað að bera fram till. um lögfestingu kaupgjaldsins. Þeir hefðu sagt, að ekki væri til neins að reyna að lögfesta kaupið, því að verkalýðssamtökin væru svo öflug. Þetta er sannleikurinn um þann „moral“, sem menn verða að gera sér ljósan út frá þeirri stéttabaráttu, sem háð er í þjóðfélaginu. Og það kemur glöggt í ljós, að Framsfl. og forráðamenn hans hafa lært af þessari staðreynd. Þeir hafa lært að ráðast á verkalýðinn, vegna þess að hann hefur verið nógu lítillátur, sýnt nógu mikinn þegnskap, en milljónamæringunum hefur verið hlíft, að því að þeir hafa verið nógu harðvítugir og sýnt klærnar. Ég vil þess vegna gefa hv. þm. Seyðf. það ráð að reyna að vera með því, að verkalýðurinn sé nógu vægðarlaus, sýni klærnar, hamist eins og ljón, og sjá svo, hvort meira að segja Framsfl. mundi ekki læra að bera ekki fram frv. eins og þetta, sem hérna er til umr.

Ég býst við, að umr. um þetta dýrtíðarmál verði ekki sérstaklega langar úr þessu hér á Alþ. Það er auðséð nú þegar á umr í dag, að annað mál yfirskyggir nú þegar þetta frv., og það er, hvernig þjóðstjórnarfl. geti með alls konar yfirlýsingum hér á þingi búið í haginn fyrir sig við kosningarnar og skellt skuldinni hverjir á aðra fyrir samstarfsslitin og ýmislegt, sem aflaga hefur farið í landsstjórninni að undanförnu.

Ég vil segja það að síðustu, að mér finnst alvöruleysið, sem hefur hvílt yfir því, sem ráðh. hafa sagt hér hver við annan í áheyrn þingmanna, bera þess ljósan vott, að þjóðstjórnin hafi þjáðst af uppdráttarsýki, áður en hún loksins klofnaði. En hitt er rétt að taka fram nú, að íslenzku þjóðinni hefur vafalaust aldrei verið meiri þörf á því, að eining væri um þá stefnu, sem framkvæma þarf, — og ég býst við, að íslenzku þjóðinni hafi aldrei verið meiri þörf á því að hafa sterka stjórn en einmitt nú. En það er ekki sterk stjórn, sem reynir að bræða saman mótsetningarnar og mynda stefnu sína á þann hátt. Slík stj. veit aldrei, í hvorn fótinn hún á að stíga. Hitt er sterk stj., sem fylgir fram ákveðinni stefnu, sem hún hefur markað sér og liggur í ákveðna átt. Til þess að unnt sé að framfylgja slíkri stjórnarstefnu, þarf að treysta á þær stéttir þjóðfélagsins, sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Til þess að skapa sterka stj. er ekki til neins að ætla sér að bræða saman hagsmuni verkamannanna og hagsmuni milljónamæringanna í Rvík. Það verður að taka afstöðu með öðrum hvorum. Við sjáum þetta bezt á hinni tvístígandi afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli og yfirlýsingum, sem koma frá atvmrh. Sést ljóslega af þessu, hve lítið hægt er að gera, þegar fylgt er þeirri stefnu að vega salt á milli þessara tveggja andstæðu hagsmuna. Ef það á að vera stefna stj. í þessu landi að hindra vaxandi dýrtíð, þá verður að tryggja um leið, að ekki sé gengið á rétt og hagsmuni vinnandi fólksins í landinu. Stj. verður að þora að taka stefnu gegn hinum nýríku mönnum, sem hafa grætt fé sitt tvö s. l. ár. Þetta er skilyrðið til þess, að unnt sé að skapa sterka stjórnarstefnu. Hitt er tilraun til bræðings, og meðan þannig er hugsað, er sífellt látið síga lengra á ógæfuhlið. — Það er sérstaklega ljótt ástand, sem nú ríkir, þegar við getum búizt við því, að alvara stríðsins geti færzt miklu nær okkur en verið hefur, en ekkert er gert til þess af stjórnarvaldanna hálfu að búa þjóðina undir afleiðingar þess. Það hefur oft verið í sambandi við þetta mál minnzt á fórnir. Ég býst ekki við, að verkamannastéttin í landinu þótt hún sé fátækust og verst sett allra stétta — mundi telja það eftir sér að færa fórnir, ef á því væri þörf. Hún hefur fórnað miklu, þegar nauðsyn hefur krafið. Hún hefur verið vön því að vera sífellt að fórna. En hinu neitar verkamannastéttin, að meðan auðmennirnir eru ríkari og voldugri en nokkru sinni fyrr, meðan þeir sölsa undir sig meiri hlutann af eignum allra landsmanna og gera þá, sem lítið áttu áður, enn þá fátækari, og þar að auki eru smátt og smátt að eyðileggja kaupmátt krónunnar, — sé hún ein látin fórna. Við höfum séð það í smáu sem stóru, að fórnarinnar er einungis krafizt af verkamannastéttinni. Það sést bezt á frv. um húsnæðið, sem er hér næst á eftir þessu máli á dagskránni. Þess vegna liggur ekkert annað fyrir hjá verkalýðssamtökunum en að mótmæla þessu frv. og beita kröftum sínum gegn samþykkt þess, kveða það niður hér í þinginu, og svo framarlega sem það verður samþykkt hér, þá að gera það að engu í framkvæmd. Verkalýðurinn hefur aldrei staðið eins vel að vígi og nú, vegna þess hve mikil þörf er fyrir vinnukraftinn. Mótmæli þau, sem þegar hafa borizt frá verkamönnum gegn þessu frv., sýna, að þeir standa einhuga gegn því, og þó eiga tugir verkamanna- og verkakvennafélaga eftir að senda mótmæli sín gegn þessu máli.

Að síðustu vildi ég skjóta því til flm. þessa frv., hæstv. viðskmrh., að koma fram með frv. um að nota auðinn, sem skapazt hefur tvö síðustu árin í landinu, til þess að hefta dýrtíðina og tryggja hag almennings. Þá skyldi hann sjá, hvaða undirtektir hann fengi. Það vantar ekki grundvöllinn fyrir sterka stj. í landinu og sterka stefnu, það vantar vilja flokkanna til þess að starfa á slíkum grundvelli.