28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (345)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Steingrímur Steinþórsson:

Ég skal vera fáorður, en ég verð að segja það við hv. þm. A.- Húnv., að ég tók það skýrt fram í minni ræðu, að hlutur bænda hlyti að versna með auknu verðfalli, en hv. þm sneiddi hjá að tala um það. Hvernig fer, ef vísitalan hækkar? Þetta er svo mikið atriði, að ekki er hægt að ganga fram hjá því. En hv. þm. er svo léttúðugur, að hann flýtur sofandi hvað þetta snertir, þó að afkoma bænda velti svo mjög á því.

Hv. þm. endaði ræðu sína með því að segja, að það yrðu aðrir að verða til þess að fella þetta frv., til þess að bjarga bændum. Hverjir eru þessir nýju vinir bændanna og sveitanna? Ég vil ekki tala neitt illa um þá. Það eru sósíalistar og kommúnistar. Þeir þurfa að tala máli sinna umbjóðenda, en það hefur ekki hingað til heyrzt, að þeirra áhugamál væri að vinna fyrir sveitirnar. Ég óska hv. þm. til hamingju með þessa nýju vini, jafnvel þó að ég hafi aldrei heyrt neinn snoppunga sjálfan sig eins áþreifanlega og hann nú.