28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (347)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Einar Olgeirsson:

Ég skil ekkert í því, hvað hv. 1. þm. Rang. er allt í einu orðinn viðkvæmur. Ég veit ekki betur en að það hafi oft og tíðum verið talið sjálfsagt að veita alls konar styrki til bænda og að það hafi aldrei þótt annað en heiðarlegt að styrkja bændur til að halda uppi landbúnaðinum. Ég veit ekki til þess, að nokkrum manni hafi dottið í hug að niðra bændum fyrir þetta, heldur hafi allir þvert á móti skoðað það svo, að þjóðinni bæri að gera þetta. Og það, sem við lögðum til í okkar þáltill., var einmitt, að bændur væru styrktir til að geta keppt um vinnuaflið.

Annars var það aðallega út af einu atriði, sem mig langaði til að segja nokkur orð. Það var út af umr., sem fram hafa farið milli bændafulltrúanna. Þeir hafa verið að tala um það sín á milli, ýmist hvað það væri óréttlátt og ópraktiskt að lögfesta afurðaverðið. Þeir hafa verið meira og minna að kýta um það, hvert hlutfallið væri milli tekna bænda og verkamanna. En mig langar til að vekja eftirtekt á einu einasta atriði í þessu sambandi. Samkv. útreikningi hv. 2. þm. Skagf. mætti ætla, að tekjur bændastéttarinnar væru eitthvað milli 55 og 60 millj. kr. í ár. Við skulum nú segja, að bændur með sínu búaliði, sem ég hygg, að muni vera um 30 þús., muni hafa 60 þús. kr. tekjur, og við skulum segja, að verkamenn, með sínu skylduliði, sem mun vera um helmingur þjóðarinnar, við skulum gizka á, að það séu um 60 þús. manns, — það er auðvitað ekki gott að gizka á það, en við skulum segja, að þeir hafi 100 millj. kr. í tekjur, en ég geng út frá, að það séu allt. að því þrefaldar tekjur miðað við það, sem er í normalári. Ef svo þessar tvær stéttir, sem telja um 90 þús. manns, hafa 160 millj. kr. í árstekjur, hvað er það þá mikill hluti af þjóðartekjum Íslendinga? Ég gizka á, að þjóðartekjurnar muni vera um 360 millj. króna. Hvert fara þá hinar 200 millj. kr.? Það fara í mesta lagi 30 millj. til millistéttanna í kaupstöðunum. En það, sem eftir er, hvert fer það? Það eru þarna hátt á annað hundrað millj. kr., sem fer til á annað hundrað manna á landinu. Mig furðar á því, að það skuli vera verið að ræða um vandamál þjóðarinnar og ekki skuli vera minnzt einu orði á þetta. Ég held, að það væri nær fyrir fulltrúa bændastéttarinnar, í staðinn fyrir að vera alltaf að vitna í það, að verkamannastéttin hafi eitt einasta ár komizt upp í meðaltekjur fyrir vinnandi menn, að snúa sér að stórgróðamönnunum. Það er lausnin, ekki einasta á afkomu þjóðarinnar yfirleitt, heldur líka dýrtíðarmálunum sérstaklega. En hvernig stendur á því, að það er alltaf sneitt fram hjá þessu í öllum umr., sem hér fara fram um þetta mál? Ég held, að það væri gott að fara að athuga þá hlið málsins ofurlítið betur. Ég reyndi að vekja máls á þessu í upphafi umr., og ég vildi reyna að minna hv. þm. enn á að athuga þetta betur.