28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (350)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Ég ætla að segja hér örfá orð út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði. Hann

sagði, að þess væri enginn kostur að fá verðuppbót á landbúnaðarafurðir. Ég lét í ljós álit mitt á þessu í dag og mun ekki endurtaka það, en þegar þessi hv. þm. segir, að ráðh. Sjálfstfl. hafi neitað að gera samþykkt um, að verðuppbót kæmi á kjöt, þá get ég upplýst hv. þm. um það, að það er rangt, og samkv. upplýsingum frá Sjálfstfl., þá eru engin vandkvæði á að fá samþ. verðuppbót á kjöt. Ég mun svo ekki svara þessu meira.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði um, að ég sé kominn í nýjan félagsskap, þar sem séu Alþfl.-menn og kommúnistar, og ég dreg ekkert undan, að ég sé í samvinnu við þá, þegar þeir eru sammála mér um eitthvað, hvort sem þeir eru Alþfl.-menn eða kommúnistar, og finnst engin minnkun að því. Það er eins og dálítil afbrýðisemi komi fram í orðum þessa hv. þm., rétt eins og það væri verið að taka af honum gamla kærustu, og er það ekki nema von, því þeir hafa unnið saman í tvo áratugi, og vitað er, að margir framsóknarþm, hafa oftar en einu sinni flotið inn á atkvæðum kommúnista.

Ég mun ekki svara neinu þeim hv. 1. þm. Rang. né heldur hv. þm. Seyðf., enda þótt ég sé þeim ósammála um margt, því þar sem ég er í þeirri n. með þeim, sem fær þetta frv. til meðferðar, þá gefst alltaf tækifæri til að ræða þetta þar. En viðvíkjandi ræðu hv. þm. V.-Húnv. vil ég segja það, að mér finnst undarlegt, að hann skuli leyfa sér að segja það, að ráðh. Framsfl. hafi ekki rofið stjórnarsamvinnuna, því allir vita, að þeir hafa gert það, því þeir gera þetta frv. að kappsmáli, og um það risu deilurnar. En það virðist svo sem hv. þm. Framsfl. hagi orðum sínum eins og þeir séu að hefja kosningabaráttu.