28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (351)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. V.-Húnv. sagðist ekki skilja, hvers vegna ég væri að lesa kafla úr ræðu frá 1939, nema ef ég gerði það til að skemmta hv. þm. Því er til að svara, að ég gerði það til að lofa mönnum að heyra falleg loforð, sem ekki hefðu verið efnd. Enn fremur sagði hann, að til væru skýrslur yfir framleiðslu landbúnaðarins, en ég hef nú hvergi orðið þeirra var enn þá.

Svo vék hv. þm. að því, að bændur vinni svo mikla yfirvinnu alltaf, og fannst ekki ástæða til að hafa orð á því, þótt verkamenn ynnu nú stundum yfirvinnu og hreyfðu hönd til einhvers á sunnudögum. Ég veit vel, að bændur leggja mikið á sig við vinnu, en hv. þm. veit, að annað er að vinna hjá sjálfum sér heldur en öðrum. Vinnan verður léttari og öðruvísi háttað. Þegar hann segir, að bændur vinni allt of mikið, 14-15 klst. í sólarhring árið út, þá nær það engri átt, því enginn maður mundi halda slíkt út. Enn fremur er það mjög misjafnt með bændur, hvað þeir vinna mikið, því það fer auðvitað eftir efnum og ástæðum. Mér finnst ekkert athugavert, þó verkamenn vinni stundum fram yfir, en ef þeir ofbjóða sér með vinnu, þá er hætta fólgin í því, ekki aðeins fyrir verkamennina sjálfa, heldur þjóðfélagið í heild.

Svo ég víki lítilsháttar að landbúnaðinum, þá eru afurðir hans alltaf að hækka, svo óeðlilega

mikið, að ekki er við unandi. Hækkunin nemur nú meira en því, sem kaupgjald er í landinu. Ég segi þetta ekki til þess að koma á metingi milli verkamanna og bænda, um hvor stéttin hafi við betri kjör að búa, en mér finnst ekki rétt, þegar talsmenn bænda og hækkunar landhúnaðarafurða gerast einnig flm. að því að lögbinda kaup verkalýðsins, þegar hann hefur ekki hækkað kaup sitt nema það, sem eðlilegt er.