03.11.1941
Neðri deild: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (358)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Haraldur Guðmundsson:

Ég held, að ekki sé ástæða til að fara mörgum orðum um þetta frv. nú. Ég ræddi allýtarlega um það við 1. umr. og hef ekki miklu við það að bæta.

Hv. þm. V.-Húnv. lét í ljós, að litlar horfur væru á, að það yrði samþ., og allir hv. þdm. vita, að hæstv. viðskmrh. var vonlaus um, að það gengi fram, og því er nú orðið sem er á kærleiksheimilinu.

Það er samt rétt að segja örfá orð við þessa umr., en þó vil ég láta mér nægja að vísa að mestu leyti til þess, sem ég sagði við 1. umr.

Ég legg til á þskj. 19, ásamt hv. þm. A.-Húnv., að frv. verði fellt. Og ástæðurnar til þess eru Þær, að ég álít hvort tveggja: Að frv. sé byggt á misskilningi á orsökum dýrtíðarinnar, og þar af leiðandi ekki líklegt til að ná tilgangi sínum, þótt að 1. yrði, og í öðru lagi, að þó frv. yrði samþ., væri það beint ranglæti í garð ákveðinnar stéttar fullkomlega að tilefnislausu.

Ég skal með örfáum orðum rökstyðja þessi 2 atriði. Er þá fyrst það, að frv. virðist vera byggt á því, að vísitölufyrirkomulagið sé orsök dýrtíðarinnar. Ég fyrir mitt leyti er viss um, að þetta er alveg rangt. Hækkun kaupgjalds er bein afleiðing af dýrtíðinni. Orsakir dýrtíðarinnar eru aðrar, eins og fram hefur komið hér í umr. og ég fæ nægileg tækifæri til að gera grein fyrir. Í öðru lagi er það sýnilegt, verði frv. samþ., að meginhluti þess kostnaðar og áhættan, sem þessum ráðstöfunum fylgir, fer á verkamenn og launastéttirnar. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir í þessu frv., að aðrar stéttir og aðrar tekjur þjóðarinnar mæti þessu, og er það þó miklu eðlilegra, því að tekjuskiptingin er ein af aðalástæðunum til dýrtíðarinnar.

Ég skal þá fyrst drepa örfáum orðum á brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 20. Um fyrstu brtt. vil ég segja það, að ég er algerlega andvígur henni. Hún fer fram á það, að heimilað verði að hækka kaup í sveitum, ef nauðsynlegt er til þess að halda við framleiðslunni, og í öðru lagi, að ríkisstj. skuli heimilað að banna verkföll, verkbönn eða önnur samtök, sem miða að því að stöðva eða leggja niður vinnu. Um fyrri liðinn vil ég segja það, að ég sé ekki, að það hafi neina þýðingu að setja það ákvæði inn eins og sakir standa nú. Um síðari liðinn vil ég segja það að með því ákvæði er verklýðsfélögum í rauninni bannað að ná nokkurri hækkun á kaupi. Hins vegar er ekki ástæða til þess að búast við verkbönnum eins og nú er.

Þá er 2. brtt. á sama þskj., b-liður, um það, að engar slíkar árstíðarverðbreyt. séu látnar hafa áhrif til breyt. á verðlagsvísitölunni. Þetta á að gilda, að mér skilst, jafnvel þó að um jafnstórfelldar verðlagsbreyt. yrði að ræða og kartöfluhækkunina á s. 1. sumri. Það sér hver heilvita maður, hversu mikil fjarstæða og ranglæti slíkt væri, ef það kæmi til framkvæmda. Hv. þm. V.-Húnv. var að ásaka kauplagsn. fyrir það, að hún hefði látið kartöflurnar hafa áhrif á verðlagsvísitöluna. Um þetta atriði vil ég segja það, að það liggur í augum uppi hverjum manni, sem vill kynna sér það, hvernig vísitalan er reiknuð út, að það væri hrein fölsun, ef þetta væri ekki gert. Ég veit ekki, hvernig ætti að reikna út vísitölu, ef það ætti að loka augunum fyrir jafnþýðingarmikilli nauðsynjavörutegund og kartöflurnar eru. Ef þannig væri farið að, mundi vísitalan ekki gefa neina rétta hugmynd um framfærslukostnaðinn.

Um 3. brtt. (a-lið) vil ég segja það, að það atriði skiptir í rauninni engu máli.

Þá leggur hv. þm. til, að ákvæðin um hækkun kaupsins nái ekki til fólks, sem ræður sig hjá bændum. En margt bendir til þess, að afleiðing þess gæti orðið sú, að bændur fengju alls ekki fólk til þess að vinna nauðsynlegustu störf, og þá væri verr farið en heima setið.

Ég benti á það við 1. umr. málsins, að þetta frv. væri ekki líklegt til þess að rétta hlut bænda, og er ég í verulegum atriðum sammála hv. 3. landsk. um það efni. Ég mun þó ekki greiða atkv. með þessum brtt., því að ég er á móti frv. Ég geri ráð fyrir því, að ekki verði frekar hægt að banna hækkun á kaupgjaldi í sveitum heldur en annars staðar, en úr því að hv. þm. sér svo vel, hvað þetta getur komið sér illa hjá einni stétt, bændum, þá finnst mér, að hann mætti einnig renna huganum til þess, að svipuð áhrif gæti þetta einnig haft annars staðar. Ég hygg, að blátt bann við öllum breyt. á kaupi til hækkunar gæti orðið til þess víðar en í sveitunum að þrengja kost ákveðinna atvinnustétta. Ég tók eftir því, að hv. þm. V.Húnv. drap á það í ræðu sinni, að hið eina félag, sem hefði sagt upp samningum, væri Iðja, og hygg ég, að það sé rétt hjá hv. þm. En ég veit ekki betur en að svo sé komið hjá atvinnurekendum, að þeir verði að borga fólkinu, sem vinnur í Iðju, hærra kaup en samningar s. l. árs standa til, vegna þess að fólkið, sem er ráðið upp á mánaðarkaup, hefur getað fengið meiri tekjur annars staðar. Ef þessum félögum yrði bannað að hækka kaup við sitt starfsfólk, þá er líklegt, að það yrði til þess, að mikill hluti þess (þ. e. starfsfólksins) mundi leita eftir annarri atvinnu. Ég segi því hið sama og hv. 3. landsk., að ég óttast, að svo gæti farið, að öll lagaboð um takmörkun á kaupgreiðslum kæmu að engu haldi, þar sem menn mundu bjóða aukavinnu og alls konar fríðindi til þess að fá fólkið.

Að lokum leggur þessi hv. þm. til, að til viðbótar við hækkunina á landbúnaðarafurðum verði greidd uppbót úr ríkissjóði. Ætlun hans er sú, að þessi hækkun nemi því, að hlutfallið milli kaups og afurðaverðs verði hið sama eins og árið 1914, og fylgja nokkrar tölur, sem sýna breyt. á hlutfalli afurðaverðs og kaups frá þeim tíma. Mér er ekki vel ljóst, hvað fyrir hv. þm. vakir með því að slá því fram, að verðlagið frá 1914 sé það eina rétta. Ég fyrir mitt leyti verð að vefengja, að svo sé. Síðan árið 1914 hefur verið varið stórfé af sameiginlegum tekjum þjóðarinnar til þess að bæta aðstöðu bænda. Það hefur verið lagt fram stórfé til jarðræktar, til vélakaupa, til bygginga í sveitum og yfirleitt. til að skapa hentugri aðstöðu til þess að reka landbúnaðarstarfsemina. Í stað þess að slá með orfi og ljá, reiða heyið heim á klökkum er nú víða unnið á ræktuðum túnum og vélar notaðar við heyvinnu; einnig er heyið flutt heim með öðrum hætti, og yfirleitt annað snið en var á öllum starfsaðferðum. Enda sýnir það sig, að á þessu tímabili hefur landbúnaðarframleiðslan stóraukizt þrátt fyrir það, að fólki hefur heldur fækkað. Það er enginn vafi á því, að landbúnaðar framleiðslan er stórum mun ódýrari nú en þá, annars hefði verið ómögulegt fyrir bændur að reka búskap með þeim árangri, sem verið hefur undanfarin ár. Þess vegna er það fullkomið óvit að slá því föstu, að hægt sé að miða við það verðlag, sem var 1914. Mig undrar það, að maður eins og hv. 3. landsk. skuli fara með slíkar fullyrðingar sem þessar, án þess að færa fyrir þeim nokkurn rökstuðning.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. V.-Húnv., frsm. 1. minni hl. Hann taldi nauðsyn til bera að gera breyt. á skipun kauplagsn. Hv. þm. fann grundvelli n. það til foráttu, að kartöfluhækkunin s. l. sumar skyldi verka á vísitöluna. Ég get ekki ráðlagt þessum hv. þm. annað betra en að kynna sér grundvöll þann, sem útreikningar n. byggjast á, því að ég er ekki í neinum vafa um það, að ef hann kynnir sér hann, þá muni hv. þm. sannfærast um, að það er ekki hægt að komast öllu nær því rétta í þessu efni heldur en þar er gert. Ég mun að sjálfsögðu ekkert hafa á móti því, þó að manni verði aukið í n., en ég mótmæli því, að nokkuð hafi fram komið, sem gæti gefið tilefni til þess að breyta grundvelli nefndarinnar.

Hv. þm. kvaðst hafa búizt við því, að Alþfl. færi úr stj. út af þessu frv., en hins vegar var á honum að heyra, að hann hefði búizt við því, að Sjálfstfl. mundi samþ. frv. með Framsfl. Ég get ekki annað en samhryggzt hv. þm, að hafa orðið fyrir þessum vonbrigðum, en ég ráðlegg honum samt að bera harm sinn í hljóði. Það má vel fara svo, að einhver hluti af draumum hv. þm. kynni að rætast, þó að nokkuð blási á móti í þessum umr.

Hv. þm. sagði það bersýnilegt, að kaupið héldi áfram að hækka, og benti í því sambandi á samninga Iðju og annarra félaga. Ég vil harðlega mótmæla því, að nokkuð gefi tilefni til að ætla slíkt. En ástæðuna til þess, að búast mætti við þessu, kvað hann vera hækkun vísitölunnar. Ég hef áður sýnt fram á það, að verklýðsfélögin hafa, sýnt fullan þegnskap í þessum málum og hafa ekki notað sér þá aðstöðu, sem þau höfðu til þess að fá hækkun á kaupi meðlima sinna.

Eftir að hv. þm. hafði lýst vonbrigðum sínum yfir því, að ekki skyldi nást samkomulag við Sjálfstfl. um afgreiðslu málsins, var hann fljótur að afgr. þessa flokka, sem eru á móti frv., með því að segja, að þeir væru í rauninni kommúnistar. Hv. þm, taldi það mjög óeðlilegt, að verklýðsfélögin úti um land skyldu vera að senda mótmæli gegn þessu frv. Ég vil nú spyrja hv, þm., hvað honum finnst óeðlilegt við það, að félög utan af landi láti hv. Alþ. vita um vilja sinn í þessu máli. Því að það getur enginn neitað því, að málið snertir ákaflega mikið hag og afkomu meðlima þessara félaga. Enda held ég, að hv. þm. ætti að líta til sinna manna í þessu efni. Ég man ekki betur en að fyrir fáum dögum birtist auglýsing um það í útvarpinu, að framsóknarfélögin á Akureyri boðuðu til fundar um þessi mál. Mér finnst einmitt, að þessar áskoranir, sem hv. Alþ. eru að berast, sýni það. sem ég hef verið að halda fram um þetta mál, að það sé líklegt til þess að vekja megna andúð hjá þeim fjölmennu stéttum þjóðarinnar, sem eru beinlínis ranglæti beittar með frv., ef að 1. yrði. Ég er hins vegar sammála hv. þm. um það, að stöðva beri dýrtíðina, það er hagsmunamál, sem alla þjóðina varðar. En það verður að sjálfsögðu að gera það á þann hátt, að þeir beri þyngstu byrðarnar, sem breiðust hafa bökin.

Þá sagði hv. þm., að Alþfl. hefði verið mjög einsýnn í sínum kröfum um þetta mál. Ég vil nú segja við þennan hv. þm.: Það má vera, að öðrum farist, en alls ekki þér! — Hann sjálfur og hans flokkur hafa nú stöðugt síðan í ársbyrjun 1939 flutt hér á Alþ. sífelldan söng um bölvun dýrtíðarinnar og nauðsyn þess að rísa gegn henni, og látið svo sem ekki skyldi á þeim standa að bera sinn hlut af fórnunum. En samtímis öllu þessu skrafi hafa þeir stig af stigi með opinberum ráðstöfunum hækkað verðlag á landbúnaðarafurðum svo, að hækkun á þeim hefur orðið tvisvar sinnum meiri en hækkun kaupsins. Svo gersamlega starblindir hafa þeir verið á allt annað en hagsmuni sinna umbjóðenda í þessu efni. — Ég verð að harma það mjög, að ekki skuli vera til neinar skýrslur, sem sýna það svart á hvítu, hvað framleiðslukostnaður bænda hefur verið mikill undangengin ár. — Það gengur fram af mér, þegar umbjóðendur þeirra manna, sem hafa hækkað tekjur sínar um 124%, flytja till. um það að banna með l. alla hækkun á kaupi hjá öðrum stéttum í landinu. Ég verð að segja, að mér þykir illt, að menn skuli gefa sig til slíks málflutnings sem þessi hv. þm. hefur gert.

Ég hef drepið á það hér áður, að ég tel það eðlilegt, að bændastéttin fái aukningu á sínum tekjum í fullkomnu samræmi við það, sem tekjur þjóðarinnar í heild sinni hafa aukizt. Þess vegna er það undarlegt, að þeir menn, sem telja sig fulltrúa þeirrar stéttar, skuli ekki bera það við að sýna fram á, hver þörf þeim sé nú til tekjuaukningar samanborið við það, sem var í upphafi dýrtíðarinnar.

Ég hef ekki getað komizt hjá því að benda á að misræmi, sem fram hefur komið hjá flm. og forsvarsmönnum þessa frv. Ef það er rétt að tala um einsýni í sambandi við þetta mál hér á hv. Alþ., þá verður aldrei hjá því komizt, að það eru flm. þessa frv., sem hafa gersamlega gengið framhjá því að líta á hag annarra stétta þjóðfélagsins en þeirra, sem þeir eru umboðsmenn fyrir.

Hv. þm. talaði mikið um seðlaveituna sem nokkurs konar vofu. Ég hef hingað til haldið, að hér væri ekki um neina vofu að ræða. Seðlaaukningin er vel lifandi enn þá, og það lítur ekki út fyrir, að henni verði nokkuð að fjörtjóni, a. m. k. ekkí þetta frv., og ekki virðast framsóknarmenn eða hv. þm. V.-Húnv. skoða þá seðla sem drauga, sem þeir vilja, að renni til bændanna. Þessi hv. þm. býður okkur upp á að vera fylgdarmaður í þessu gerningaveðri í dýrtíðarmálunum og að leiða okkur til byggða. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir boðið, en óttast, að hann hafi ekki áttavitann í lagi. Ég veit að vísu um marga Íslendinga, sem hafa villzt og ratað út úr ógöngunum án nokkurs áttavita. (SvbH: Hv. þm. Seyðf. er líklega ekki einn af þeim!). Nei, ég get ekki talizt það, en svo ég víki aftur að efninu, þá vildi ég heldur hafa áttavita heldur en hv. þm. V.-Húnv. og hans brjóstvit.