04.11.1941
Neðri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (361)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér þykir nú orðið heldur þokkalegt ástandið í þjóðstjórnarflokkunum hér á Alþ. Þeir byrjuðu með því, þegar þeir mynduðu sína þjóðstjórn, að strengja þess heit og lofa því að bjarga þjóðinni frá kommúnismanum, og nú þykir mér nokkuð ljótar upplýsingar koma upp um það allt saman. Hv. þm. V.-Húnv. var að lýsa því, hvernig kommúnistarnir stjórnuðu Alþfl. og Alþfl. svo stjórnaði Sjálfstfl.; og er þá engu líkara en að Alþfl, sé eins konar miðill fyrir Sósíalistafl. til að stjórna Sjálfstfl. í gegnum. Og í blaði hv. þm. V.-Húnv. er látið í veðri vaka, að Alþfl. og Sjálfstfl. séu báðir á bandi kommúnista. Eitthvað svipað mun vera sagt í Sjálfstfl. um Framsfl. Mér sýnist ekki betur en að því sé haldið fram, að eftir tveggja og hálfs árs starf, þá hafi uppeldið ekki tekizt betur í þjóðstjórnarflokkunum en svo, að nú stjórni kommúnistar Alþfl. og Sjálfstfl. með annarri hendinni, en Framsfl. með hinni. (Viðskmrh.: En hvað finnst hv. þm. sjálfum?) Ég kem að því síðar, hvað aflleysið er orðið mikið í þessum flokkum. En þegar fer að nálgast kosningar, þá þykir þessum flokkum betra að vera nokkuð róttækir. Verkamenn og bændur eru um fjórir fimmtu hlutar þjóðarinnar, og þegar fer að nálgast kosningar, þykir þjóðstjórnarflokkunum betra að fara að sýna á sér rauðu hliðina. Í blaði Framsfl. kom fram, út af grein Bjarna Benediktssonar, þar sem hann sýndi fram á, að Framsfl. væri flokkur þeirra ríku, að Tíminn heldur því fram, að ekki reyndi mikið á þá ríku með lögfestingarfrv., heldur með skattafrv. Það var eins og Framsfl. hefði það á samvizkunni, að með lögfestingarfrv. væri hann að níðast á þeim fátæku. Það virðist vera svo, að þegar þessir flokkar búast við kosningum, þá þyki þeim betra að vera með verkamanna- og bændastéttinni.

Hv. þm. V.-Húnv. var að furða sig á því og taldi það einkennilegt, að það skyldi drífa að mótmæli frá verklýðsfélögum úti á landi gegn þessu frv. (SkG: Ég sagði ekki, að það væri einkennilegt, heldur, að það hefði verið pantað að fá þessi mótmæli.) Það hefur ekki þurft að panta þessi mótmæli frá þessum félögum, þegar hagsmunir þeirra hafa verið í veði. Eða hvað heldur þessi hv. þm., að kaupfélögin hér á landi, sem vinna að því að hafa sem lægst verð á vörum til sinna viðskiptamanna, hefðu gert, ef hér á hæstv. Alþ. lægi fyrir frv. um að banna þessum félögum að lækka verð á sínum vörum?

Því að það að lækka vöruverð hefur sömu útkomu eins og að hækka kaup. Heldur þessi hv. þm., að það hefði þurft að „panta“ mótmæli frá kaupfélögunum gegn slíku? Ég held, að kaupfélögin hefðu mótmælt því án þess að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefði þurft að panta slík mótmæli. Við slíku hefðu komið mótmæli frá kaupfélögunum; þau hefðu sagt: Nei takk! Við erum að bæta kjör okkar með því að lækka vöruverðið og með því rétta hlut þeirra manna, sem í kaupfélögunum eru. Og alveg eins eru verklýðsfélögin að rétta hlut þeirra manna, sem í þeim eru, með því að hækka kaupið.

Það hefur nú í sambandi við þetta mál verið rætt mikið um þá lögfestingu kaupgjalds, sem gerð var 1939, til samanburðar við það, sem nú er lagt til um slíkt. Árið 1939 var verið að lögfesta kaupið til þess að skuldakóngarnir gætu orðið ríkir, en það var kallað að „koma atvinnuvegunum á réttan kjöl“. Nú, árið 1941, á að lögfesta kaupið til þess að milljónamæringarnir geti haldið áfram að græða; það er auðsjáanlega tilgangurinn með því, sem hér kemur fram.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væru engar fórnir lagðar á herðar verkamanna með þessu frv., en það er verið að hindra þá í því að bæta sinn hlut,— að geta fengið meiri arð af vinnu sinni en þeir hafa notið fram að þessu. Hins vegar eru engar kvaðir lagðar á hina nýju milljónamæringa, sem hafa grætt fé sitt á síðustu tveimur árum.

Árið 1939 var hægt að koma við þeirri lögfestingu kaupgjaldsins, sem þá var gerð, vegna þess, að verkamannastéttin var beygð og brotin vegna langvarandi atvinnuleysis og hungurs og treysti sér því ekki til þess að rísa gegn lögfestingunni. Núna er það raunverulega staðfest hér í þinginu, að ekki sé hægt að framkvæma þetta frv., þótt það yrði að 1., nema jafnframt sé fullnægt öðru skilyrði, þ. e. að samkomulag náist við setuliðið, sem dvelur í landinu, um að það taki ekki íslenzka verkamenn í vinnu nema að litlu leyti, til þess að íslenzkir atvinnurekendur geti haldið kaupinu niðri. Núna eru verkamenn ekki beygðir af atvinnuleysi, og þess vegna er ekki hægt að þvinga þá undir sömu kjör og árið 1939. Árið 1939 gátu þeir, sem beittu sér fyrir kaupbindingunni, treyst á það, að atvinnuveitendur mundu nota aðstöðu sína til þess að hindra, að verkamenn fengju hærra kaup en 1. ákváðu. Þetta var hægt vegna þess að vinna var takmörkuð og verkamenn urðu öllu fegnir. Nú er þetta á annan veg. Nú er ekki lengur hægt að treysta því, að atvinnurekendurnir fari að vilja Alþ. og bjóði ekki hærra kaup en lögákveðið er. Þess vegna vill viðskmrh. hafa samvinnu við herina, sem hér eru, til þess að hægt sé að framfylgja þessum 1., og ráðh. hefur beinlínis lýst yfir því, að 1. séu óframkvæmanleg án samvinnu við setuliðið. Þetta frv., sem við erum að ræða hér, ætti því í raun og veru alls ekki að liggja hér fyrir, Þar sem því er lýst yfir af flm. þess og fleirum, að ómögulegt sé að framkvæma l. Þau yrðu því þýðingarlaust pappírsblað, sem ekkert gildi hefði. Það er undarlegt að flytja hér mál, sem menn jafnframt lýsa yfir, að hafi enga þýðingu að samþykkja. Til þess að 1. yrðu framkvæmd, þyrfti að ná samkomulagi við hið erlenda setulið um að taka ekki fleiri menn í vinnu en svo, að atvinnurekendurnir íslenzku gætu ráðið við hinn hlutann og skapað honum það knöpp kjör, að kaupgjaldið hækkaði ekki upp úr öllu valdi. Mér finnst eðlilegra, að hæstv. viðskmrh. flytti hér till. um, að Alþ. heimilaði honum að gera einhvers konar samkomulag við erlenda setuliðið í landinu, ef hann ætlar endilega að þrælbinda verkamenn með þess aðstoð, heldur en að flytja þetta frv.

Ekkert liggur fyrir um það, að þeir erlendu herir, sem í landinu dvelja, muni ganga að þess háttar samningum, sem ráðh. hefur minnzt á, og það er ekki heldur farið að leita samþykkis eða álits alþm. um það, hvort þeir óski eftir slíkum aðförum gagnvart verkalýð landsins. Það er vafalaust margt, sem kemur til greina í þessu sambandi. Við skulum gera okkur alveg ljóst, að 1 vetur verður að vinna að hernaðaraðgerðum hér á landi, — eftir því sem maður heyrir útundan sér, t. d. um horfurnar á því, að orrustan um Atlantshafið muni verða miklu alvarlegri næsta sumar en nú, og meiri líkur þá en nokkru sinni fyrir innrás af hendi hvors stríðsaðila um sig í land hins. Það er því líklegt, að Ísland færist enn nær hernaðarvettvanginum en áður. Þess vegna er ekki sennilegt, að setuliðsmenn verði fúsir til þess að fella niður svo og svo mikið af vinnu sinni hér, þótt íslenzka ríkisstj. óski eftir því, að þeir hafi ekki nema takmarkaða tölu Íslendinga í vinnu, — nema þá að gripið verði til þess að flytja inn erlenda verkamenn, og má þó telja vafasamt, að því verði við komið. Við sjáum, að Ameríkumönnum gengur mjög seint að flytja hingað sitt lið. Eru þá líkur fyrir því, að betur gangi að koma hingað verkamönnum, sem ekki hafa einu sinni þak yfir höfuðið, þegar hingað kemur?

En ég kem þá að öðru atriði í þessu máli, sem er afstaða verkamannastéttarinnar til þess, að ríkisstj. hérna á Íslandi fari að semja við erlenda heri um það, hvar verkamenn megi ráða sig til vinnu, til þess að geta fengið aðstöðu til að knýja niður kaupgjald þeirra. Verkamannastéttin er um helmingur þjóðarinnar, og ef lýðræðið á að ríkja, er ekki nema eðlilegt, að þessi helmingur þjóðarinnar krefjist þess, að fullt tillit sé tekið til hagsmuna hans, og meira tillit en til hagsmuna 200 manna hérna í Reykjavík, sem grætt hafa milljónir á tveimur síðustu árum. Það er ekki hægt að framkvæma þetta frv., þótt það verði samþ. hér, nema með aðstoð erlends hers, m. ö. o. ekki nema með því að koma á þrælahaldi verkalýðsins á Íslandi. Það á ekki einungis að svipta þá réttinum til þess að ráða kaupgjaldinu, heldur einnig réttinum til þess að ráða sig í vinnu.

Það væri freistandi að athuga ýmsar fullyrðingar, sem fram hafa komið hér í sambandi við þetta mál. Því hefur ver ið haldið fram, að verkamenn hafi bætt svo kjör sín, að raunverulega geti þeir vel við unað og látið við svo búið standa. Ég vil leyfa mér að upplýsa hér um eitt atriði í sambandi við grunnkaup verkalýðsins í Reykjavík, og það er kaup verkakvenna. —

Ég hef áður upplýst um kjör t. d. kennara og fleiri stétta, og hafa ekki komið fram nein mótmæli gegn því, að raunverulega bæri fremur að hækka grunnkaup þessara manna en lækka. — Ef ég man rétt, er kaupgjald margra verkakvenna innan við 200 kr. á mánuði, að meðtalinni verðlagsuppbót. Þetta ástand hefur skapazt vegna þess, að á atvinnuleysis- og erfiðleikatímunum unnu stúlkur og verkamenn reyndar líka fyrir kaupgjald, sem naumast var hægt að draga fram lífið af. Það, sem menn vilja nú með þessu frv., er að festa kaupgjaldið í þessum skorðum, sem það komst í vegna langvarandi erfiðleikaástands. Þegar verkamenn og verkakonur hafa nú loksins tækifæri til þess að gera kjör sín lífvænleg, þá á að meina þeim það með lögum. Allan þann tíma, sem atvinnuleysi þjáir verkalýðinn, situr Alþ. aðgerðalaust, en loksins þegar atvinnuleysið er úr sögunni, þá hefst það handa og vill láta að óskum milljónamæringanna um það, að verkalýðurinn fái engar kjarabætur. Það á að banna alla kauphækkun til vinnandi fólksins, og ekki láta það nægja, heldur leita í því skyni til erlendra herja, sem dvelja í landinu, til þess að unnt verði að framfylgja þessu ákvæði.

Það er eftirtektarvert í þessu sambandi, að mjög er kýtt hér um verðlag á landbúnaðarafurðum, og Framsfl. leggur megináherzlu á að sýna fram á, að í raun og veru sé verkamannakaupið allt of hátt, En það er eins og alveg sé gengið fram hjá því að athuga, hvort hagur verkamannastéttarinnar og hagur bændastéttarinnar hefur batnað í hlutfalli við batnandi hag þjóðarinnar sem heildar. Þetta er þó aðalatriðið. En þrátt fyrir það er eins og menn geti ómögulega áttað sig á þessu grundvallaratriði í málinu. Er aðstaða verkamannastéttarinnar orðin svo góð innan þjóðfélagsins, að hún megi ekki batna? Er aðstaða bænda orðin það góð, að hún megi ekki batna? Það hafa ekki verið bornar brigður á þær tölur, sem ég hef sett hér fram um heildartekjur þjóðarinnar, en þær tölur sýna, að verkamannastéttin, sem er um helmingur þjóðarinnar, og bændastéttin, sem er um 1/3 til 1/4 hluti þjóðarinnar, bera báðar skarðan hlut frá borði. Þessar stéttir eiga heimtingu á því að fá hlut sinn réttan, — ekki á kostnað hvorrar annarrar, heldur á kostnað stríðsgróðamannanna, — þessara 200–300 manna í Reykjavík, sem hafa rakað saman um 100 milljónum króna á tveimur s. l. árum. En á þetta má ekki minnast. Það má ekki minnast á það, að verkamannastéttin eigi að hækka sitt kaupgjald eins og hún hefur kraftana til, til þess að hafa í fullu tré við dýrtíðinni, og að bændastéttin eigi að gera slíkt hið sama. Það er bezt að segja það hérna, að úr því verður ekkert nema glundroðavitleysa, ef þær stéttir í þjóðfélaginu, verkamenn og bændur, sem eru meginstoðir þess, færu að slást. Verkamenn, bændur og millistéttin í bæjunum, þessir menn verða að vinna saman. — Við skulum taka eitt sjónarmið. — Það er viðurkennt hér í þinginu, að ekki sé unnt að framkvæma leigfestingu kaupgjaldsins nema gripið sé til alveg sérstakra þvingunarráðstafana í samráði við erlenda setuliðið. En það má líka benda á það, að ekkert þýðir að setja lágmarksverð á landbúnaðarafurðir. Eftirspurnin eftir mjólkurafurðum og fleiru slíku er það mikil, að ef ætti að fara að þvinga verðið niður, þá leiddi það til þess, að vörurnar fengjust ekki. Menn yrðu að bjóða meira en hið lögskipaða verð til þess að ná í vörurnar. En það er önnur leið í málinu. Hún er sú, að verkamenn semji við bændur um að tryggja matvælaframleiðsluna á Íslandi, semji við bændastéttina um að hún taki þetta að sér, og gefi henni svo góð kjör, að hún uni við þau, og sjái um, að hún fái þann vinnukraft, sem til þarf. Það er ekki verkamanna og millistéttanna í bæjunum að ákveða eitthvert hámarksverð á þessum vörum, sem svo hefur það e. t. v. í för með sér, að þessar vörur fást bara ekki á eftir. Það er ekki hægt nema með samvinnu þessara stétta að komast út úr ógöngunum í þessu máli.

Grundvöllurinn að samvinnu þessara stétta hlýtur að verða sá, að nota þann stríðsgróða, sem safnazt hefur í landinu, til þess að bæta aðstöðu vinnandi stéttanna sjálfra. Þetta frv. fer fram á að rýra aðstöðu þessara stétta. Það fer fram á, að í fyrsta skipti í sögu Íslands, sem verkamenn hafa haft aðstöðu til að bæta kjör sín verulega, skuli þeir sviptir möguleikanum til þess. Það, sem verkamenn, millistéttir bæjanna og bændur geta gert til þess að vinna gegn dýrtíðinni, er í fyrsta lagi að hagnýta stríðsgróðann fyrir sjálfa sig og þar með þjóðina í heild, en taka hann af stríðsgróðamönnunum. Það er stríðsgróðinn, sem skapar allt öngþveitið í landinu. Hér er veitt inn nýrri kaupgetu einhvers staðar á milli 100–150 millj. kr. á tveimur árum, sem ekkert verðmæti er um leið skapað fyrir, þannig að þetta fé fer í brask. Gamlar eignir eru keyptar uppsprengdu verði, og þar af leiðandi vaxa kröfurnar um arð af þeim o. s. frv.

Stríðsgróðann á að nota til þess að vinna gegn dýrtíðinni, móti verðhækkun og því, að peningarnir falli í verði. Stríðsgróðann má nota til þess að bæta hag ríkissjóðs og þó lækka tolla á nauðsynjavörum. Allt þetta er hægt að gera á kostnað milljónamæringanna í landinu. Það er þetta, sem raunverulega skiptir máli, að gert verði. Ég held, að hin fámenna auðmannastétt hér í Reykjavík hafi fengið meira í sinn hlut af þjóðarauðinum þessi síðustu tvö ár heldur en verkamanna- og bændastéttin. Og ef enginn treystir sér til þess að mótmæla þessari staðhæfingu, þá finnst mér næsta fáránlegt að sitja hér og deila um það, hvort verkamenn og bændur hafi of mikið eða lítið í sinn hlut. Það er hægt að deila um hækkun á landbúnaðarafurðum og hækkun verkalauna, en það er bezt að gera það með það fyrir augum, að þessar stéttir vinni saman og snúi sínum geiri þangað, sem þær eiga að gera gegn milljónamæringunum hér í Reykjavík, en láti ekki æsa sig upp hvora gegn annarri.

Ég vil því minnast á það, sem ég hef sagt hérna áður, að það er undarlegt, þegar koma fram till. frá viðskmrh., sem eiga að sporna við dýrtíðinni, og lýst er yfir, að ekki verði gert á annan hátt en þann að lögfesta kaupgjaldið og hafa samvinnu við erlent setulið til að halda kaupgjaldinu niðri, Það er undarlegt, að engum skuli hafa dottið í hug, að unnt væri að fara aðrar leiðir. Hvers vegna samninga við erlenda setuliðið? Hvers vegna ekki samninga við verkamenn um að tryggja framleiðsluna? Hvers konar hugsunarháttur er það hjá þessum ráðh., sem málið flytur, að honum skuli fyrst af öllu detta í hug að hafa samvinnu við erlendan her í landinu til þess að beygja verkamenn? Hitt ætti þó ekki að vera útilokað, að hafa samvinnu við verkamennina sjálfa um að tryggja framleiðslu nauðsynlegra hluta. Ég held, að það sé engin ástæða til að efast um, að verkamenn mundu tilleiðanlegir til slíkrar samvinnu. Ég veit ekki betur en að frá okkar flokki, sem talinn er allra flokka ábyrgðarlausastur, hafi komið fram till., áður en nokkur hinna flokkanna rumskaði, um að fara þessa leið. Það hafa komið frá okkar hendi till. um að tryggja matvælaframleiðsluna. og það mundi ekki standa á verkamönnum í því sambandi. En verkalýðssamtökin láta ekki kúga sig til þess að láta vera að bæta aðstöðu sína, á sama tíma sem verið er að henda tugum milljóna í fáeina menn hér í Reykjavík,— og það er þetta, sem menn verða að skilja. — Það er ekki rétt að draga úr þeirri hættu, sem er framundan. Mér finnst fremur of lítið en of mikið úr henni gert. Það er verið að taka vinnuaflið frá framleiðslustörfunum til hergagnasmíði. Í Ameríku er það nú framundan, að mestur hluti vinnuaflsins verði í þjónustu hergagnaframleiðslunnar. Það er nú þegar hungur á meginlandi Evrópu og yfirvofandi hungur á Englandi. Getum við verið viss um að fá nægan mat, þegar fram líða stundir? Vofir ekki hungrið yfir flestum löndum hnattarins? Það er rétt fyrir okkur að gera ráðstafanir til þess strax, að við getum framleitt nógan mat. Það er sjálfsagt að horfast í augu. við þetta. Ég býst við, að bæði verkamenn og bændur sjái þessa alvöru framundan, þótt þeir neiti því að láta nota sig til þess að gera milljónamæringana í Reykjavík enn ríkari en þeir eru þegar orðnir.

Það er í sjálfu sér þýðingarlítið að koma hér með hugleiðingar um það, hvað frv. eins og þetta táknar í sjálfu sér. Það skipulag, sem við búum við, lætur reka framleiðsluna með það eitt fyrir augum, að af henni sé gróði. Þessi gróði fæst ekki til atvinnurekendanna undir öðrum kringumstæðum en þeim, að þeir geti tekið af verkamönnunum svo og svo mikið af andvirði vinnuafls þeirra. Það er aðeins eftir tveimur leiðum hægt að halda þessu áfram fyrir atvinnurekendurna : Annaðhvort eftir hinum frjálsu samningaleiðum, sem svo eru nefndar, — sem nota bene byggjast á því, að alltaf sé það mikið atvinnuleysi í þjóðfélaginu, að verkamenn séu nauðbeygðir til þess að semja þannig, að atvinnurekendurnir græði á því að kaupa vinnuaflið, — eða þá, — eins og yfirlýsing hæstv. ráðh. sannar, — að það verður að svipta verkamennina réttinum til þess að ráða sjálfir nokkru um kaup sitt og kjör, — gera þá að þrælum. Og eftir ummælum ráðh. er það ekki einu sinni hægt nema með aðstoð erlends hervalds. Það er sama skipulagið og Hitler kom á í Þýzkalandi, — sama skipulagið og auðmannastéttin verður að koma á hjá sér hvarvetna, ef hún hefur ekki atvinnuleysið til að styðjast við. Ef hún hefur ekki atvinnuleysissvipuna til þess að pína verkamenn, þá þarf að koma á reglulegum þrældómi. — Samvinna bænda, verkamanna og millistétta bæjanna yrði aftur á móti á kostnað auðmannanna. Leiðirnar út úr öngþveitinu eru aðeins tvær: Þrælalög, sem leiða til fasisma, og svo hið raunverulega lýðræði vinnandi stéttanna gegn auðvaldi þjóðfélaganna.

Það hefur verið talað hér mikið um alls konar þokur, villugötur, villuráfandi menn o. s. frv. í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr. Menn hafa látið eins og þetta væri einhver náttúrleg þoka, sem menn væru að villast í, eins og þoka uppi á heiðum. Mín skoðun er nú sú, að þetta sé nokkurs konar gerningaþoka, sem menn hér eru að villast í, gerð af milljónamæringunum í Reykjavík, þeim mönnum, sem hefur tekizt að galdra til sín allverulegan hluta þjóðarteknanna, og þeim tekst merkilega vel að seiða hv. þm. til sín, þegar á því þarf að halda. Ég veit að vísu ekki, hvort alþm. hafa verið að villast viljandi eða óviljandi í þessari þoku en ég vil samt ráðleggja þeim að reyna að hætta þessu ráfi og komast út úr þokunni. Þeir viðurkenna alveg, að frv. sé ekki til neins, heldur sé það allt annað skilyrði, sem þurfi að koma hér fram: Samvinna við hina erlendu heri.

Svo vil ég segja að lokum viðvíkjandi afgreiðslu þessa máls, að ég álít, að afstaðan til dýrtíðarmálanna komi fram hér á hæstv. Alþ. aðeins að litlu leyti í sambandi við þetta mál, sem hér er um að ræða. En það er komið fram frv. um breyt. á skattal., og ég álít, að það frv., með hugsanlegum breyt. á því að því er snertir dýrtíðarmálin o. fl., sé að sínu takmarkaða leyti þó miklu meiri lausn á dýrtíðarmálinu heldur en frv., sem hér liggur fyrir til umr. Hins vegar er það ekki fullnægjandi. Það er margt, sem þyrfti að tengja þarna saman. En það er til lítils að ræða þau mál; þau liggja ljóst fyrir. Spursmálið er bara það, hvort á að framkvæma lausn dýrtíðarmálsins. Það er spursmál pólitískra hagsmuna. Það er spursmál stéttabaráttu.

Brtt. á þskj. 20 eru frá hv. 3. landsk. Það er í raun og veru gaman að því, þegar einhver kemur með eitthvað krasst fram. Þar stendur m. a.: „Ríkisstj. er heimilt að banna verkföll, verkbönn eða önnur samtök, sem miða að því að stöðva eða leggja niður vinnu.“ Það er ekkert smáræði, sem hér er farið fram á, að gefa ríkisstj. heimild til að brjóta stjórnarskrána eins og henni þóknast. Það lítur út fyrir, að þessum hv. þm. hafi verið svo mikið niðri fyrir, að honum hafi verið af þeim sökum varnað að geta hugsað rétta hugsun, því að hér stendur í hans till.: „að banna verkföll, verkbönn eða önnur samtök“. Verkföll og verkbönn eru ekki samtök, heldur afleiðingar samtakanna.

Ég minntist á það í sambandi við 1. umr. þessa máls, að það, sem fyrst og fremst hefði átt að liggja fyrir hv. þm., þegar rætt er svona mál, væru fullkomnar skýrslur um þjóðartekjurnar. Ekkert af þessum skýrslum liggur fyrir enn. Enn þá verða þm. að gizka á, hvað miklar séu tekjur hinna einstöku stétta þjóðfélagsins, t. d. hvað verkamenn eða bændur hafa í tekjur. Enginn hv. þm. hefur minnzt á skoðun sína um það. hvernig tekjurnar skiptist milli stétta. Ég vil skora á hv. þm., og sérstaklega á hæstv. ríkisstj., sem ég veit, að hefur þessar tölur handbærar, að koma fram með þær, ef á að ræða þetta mál eins og eitthvert mál, sem á að leita lausnar á; annars er sýnt, að hér er aðeins eitt mál á ferð, að svipta verkamenn réttinum til þess að bæta sín kjör, á sama tíma sem hinir ríku í þjóðfélaginu hafa orðið svo margfalt ríkari, að slíkt hefur aldrei þekkzt hér á landi.