05.11.1941
Neðri deild: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (367)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það, sem sagt er um þetta dýrtíðarmál, er orðið mikið endurtekningar, enda voru fluttar við 1. umr. að mörgu leyti tæmandi ræður um hin mismunandi sjónarmið í þessu máli. En það hefur komið fram ljá hv. þm. Borgf. sjónarmið, sem hann hefur sett fram eins og það væri eitthvað alveg nýtt í þessu máli, og það er viðkomandi fólkshaldi Breta hér á landi og annarra þeirra erlendu herja, sem hér eru.

Það hefur vitanlega aldrei komið nokkrum manni til hugar, að þetta dýrtíðarmál væri aðeins bundið við þennan eina þátt, sem er órjúfanlega snúinn saman við aðra þætti, sem bornir eru fram í því frv., sem ræðir um verðfestingu kaupgjalds, afurðaverðs og ýmissa annarra útgjaldaliða fyrir almenning. Annar þáttur í þessu máli eru skattal. og sjóðsöfnun til þess að standast erfiðleikana eftir styrjöldina. Það var ákaflega ánægjulegt að heyra í ræðu hv. þm. Borgf., að hann lýsti því yfir, að hann teldi nauðsynlega sjóðsöfnun, sem væri hægt að grípa til til framkvæmda eftir þessa styrjöld, og þar með fylgja breyt. á skattal., sem vitanlega væri nauðsynleg, til þess að slík sjóðsöfnun gæti átt sér stað.

Þessir tveir hættir, skattal. og sjóðsöfnun og dýrtíðarfrv., sem fyrst eru bornir fram hér á þingi, eru ein órjúfanleg heild, og vitanlega dettur engum í hug, að ekki hafi jafnframt verið hugsað fyrir því, að takmarhað verði það fólkshald, sem Bretar hafa hér á landi. Það er hægt að upplýsa það hér, að þær skoðanir, sem hv. þm. setti fram um þetta atriði, eru byggðar í aðalatriðunum á misskilningi, að því er það snertir, að ekki verði hægt að koma á samningum um þetta mál. Mér þykir leitt, að hæstv. atvmrh. er hér ekki viðstaddur, því að þetta er málaflokkur, sem heyrir undir hans stjórnardeild, þó að stj. beri vitanlega allri að fylgjast með þessum málum og gera þær ráðstafanir, sem gera þarf. Það var að skilja á þessum hv. þm., að vegna þess að ekki hafi enn verið gerðar ráðstafanir til, að Bretar takmarki fólkshald sitt hér á landi, þá væri þýðingarlaust að gera þær ráðstafanir, sem gerðar verða, ef þetta frv. verður að 1. En vitanlega kemst maður aldrei neitt með nokkurt mál, sem ofið er úr mörgum þáttum, ef alltaf er hugsað sem svo, þegar byrja á í einhverjum hluta málsins, að ekki megi gera þetta, af því að ekki sé búið að gera fyrst eitthvað annað. Sama hefði mátt segja, ef átt hefði að byrja á að semja við Breta um að takmarka við sig vinnuafl hérlendra manna, að það væri þýðingarlaust, af því að ekki væri búið að gera ráðstafanir til þess, að húsaleigan hækkaði ekki eða landbúnaðarafurðirnar o. s. frv. En til þess að eyða þessum misskilningi, sem hér hefur komið fram frá upphafi um það, að Bretar takmörkuðu fólkshald hér á landi, þá vil ég geta þess, að áður en hv. alþm, komu til þessa bæjar nú, átti ég tal um það við brezka sendiherrann ásamt þeim mönnum, sem aðallega hafa séð um ráðningar manna, og virtust þeir fúsir til, að teknir yrðu upp samningar um málið innan skamms. Ég gerði það, þó að málið heyrði í raun og veru ekki undir mína stjórnardeild. Fyrir hálfum mánuði síðan átti ég samtal við sendiherra Breta ásamt utanrmrh. um annað mál, og eins og hæstv. utanrmrh. er kunnugt, sem er nú staddur hér í d., þá endurtók ég þá á ný, að ekki mætti lengur dragast að taka upp samninga á því, að þeir takmörkuðu tölu á því fólki, sem þeir tækju í vinnu vegna ýmissa framkvæmda. Við áttum þá að vísu stutt samtal um þetta mál, en þó nægilega mikið til þess, að báðir skildu, að sendiherrann tjáði sig fúsan til þess að taka upp samninga um þessi atriði.

En það má vitanlega segja með nokkrum rétti, að ríkisstj. hefði undanfarna daga átt að hefja samninga um þetta. Því er til að svara, að það hefur stöðugt verið spurning um daginn í dag eða daginn á morgun, hvenær ríkisstj. færi frá völdum, og í mörgu að snúast í sambandi við þá stjórnarkreppu, sem nú er, og þess vegna orðið minna úr aðgerðum í málinu en hefði átt að vera.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. er það kunnugt, að snemma s.l. sumar, rétt eftir að Alþ. var slitið, gerði ríkisstj. samning við brezku herstjórnina og brezka sendiherrann um að takmarka tölu þeirra verkamanna, sem ynnu á vegum setuliðsins um sumartímann. Ráðgert hafði verið, að þeir yrðu hátt á 4. þús., en sú tala var með samningum lækkuð um 17–18 hundruð manns. Ég hef orð þeirra manna, sem um þessi mál fjalla, þ. á m. Jens Hólmgeirssonar, fyrir því, að þetta samningsatriði hafi verið haldið svo að segja út í æsar. Þegar við ræddum þessi mál við sendiherra Breta í vor og við herstjórnina, kom það skýrt fram, að þeir skildu fyllilega okkar afstöðu og lýstu yfir því, að tilgangur sinn væri engan veginn að binda hjá sér meira vinnuafl en atvinnuvegir landsins mættu missa. í viðtölum við sendiherrann í haust hefur það komið skýrt fram, að hann er reiðubúinn hvenær sem er að taka upp samninga um málið. Þessum fulltrúum Breta er það engu síður ljóst en okkur, að dragist framleiðsla landsins saman, eykst það vörumagn, sem þeir verða samkv. samningi að ljá skiprúm til að flytja hingað til lands. Þeir vilja líka gjarnan fá héðan fisk, en það er auðsætt, að með því að draga fólk frá útveginum eru þeir stöðugt að rýra framleiðslugetu hans og það vörumagn, sem þeir fá þaðan. Ef ekkí gefur á sjó nokkra daga, hafa menn á bátum krafizt þess sums staðar að fá 25–30 kr. biðpeninga á dag, ella færu þeir í Bretavinnu. Áframhald þeirrar þróunar verður eyðilegging til lands og sjávar, og það hygg ég hinir erlendu fulltrúar kæri sig ekki um að horfa upp á. Það mætti vel fresta þessum umr. um málið nokkra daga, meðan leitað væri samninga við þá um þetta mikilsverða atriði, ef hv. þm. er alvara, að málið horfði að því búnu miklu betur við til framkvæmda. Sama gildir Bandaríkjamenn. Í sambandi við samninga, sem verið er að gera í Bandaríkjunum, spurðu þeir nýlega, hvort þeir mættu fá í sex mánuði í vetur 400 manns. Þeir virðast skilja afstöðuna þannig, að þeir megi ekki taka íslenzkan vinnukraft án leyfis.

Þótt samið væri um takmörkun í sumar, var hún engan veginn svo mikil, að hún snerti þá hagsmuni, ég vil segja ímynduðu hagsmuni, sem verklýðsfélög víðs vegar um landið telja sig eiga að gæta í þessu máli. En það hefur ekki farið fram hjá okkur, að verklýðsflokkarnir, a. m. k. Sósíalistafl., telja ekki fært að gera neitt verulegt til að takmarka fjölda þeirra, er vinna í þjónustu erlendra herja í landinu. Þá dylst mér ekki, að raddir muni heyrast um það nú, að ekki megi ganga ýkjalangt í takmörkuninni, því að hugsanlegt sé, að það gæti þrengt atvinnumöguleika verkamanna þeim til tjóns. Það er því ekki ósennilegt, að ráðstöfun í þessu efni yrði látin stranda á sama skeri og lögfesting kaupgjalds (PO: Við skulum bara reyna það). Já, við skulum víst reyna það. Ég ætla að taka mér bessaleyfi til að skýra frá því, að Framsfl. skipaði snemma á þinginu nefnd manna til að rannsaka þetta mál, til þess að hægt yrði að flytja um það þáltill. og freista að fá staðfestan hinn eindregna vilja Alþ., sem ég veit, að er að vakna í þessu máli. Mun ekki langt að bíða þess, að nefndin leiti samstarfs við þm. í öðrum flokkum um að koma slíkri þáltill. á framfæri. Ég vil vonast eftir því, að henni verði vel tekið.

Eins og ljóst er af því, sem ég hef sagt frá samtölum mínum við sendiherra Breta og frá undirbúningi Framsfl. í málinu, hefur flokknum og okkur fulltrúum hans í ríkisstj. verið annt um að finna lausn þess, og tel ég takmörkun á vinnuafli til setuliðsins vera eitt af fjórum höfuðatriðum dýrtíðarmálanna og sannarlega ekki það, sem láta mætti eftir liggja. — Ég vona, að orð hv. þm. Borgf. megi taka sem vott þess, að hans flokkur muni fús til að standa að þessum þætti málsins, þótt hinir þættirnir hafi strandað á því skeri, sem okkur er kunnugt.

Ég tók fram í upphafi, að ég ætlaði aðeins að ræða um þessa sérstöku þætti málsins. En viðvíkjandi þeirri útvarpsauglýsing, sem mér var skýrt frá og miðaði að því að hæna fólk utan af landi til vinnu í þágu hinna erlendu herja við Reykjavík, get ég tekið það fram, að daglegur útvarpsrekstur fellur ekki beint undir valdssvið ríkisstj., heldur 5 manna nefndar, útvarpsráðs. Það var Morgunblaðið, sem spurði, hverju það sætti, að ríkisútvarpið væri notað til þessa. Spyr sá, sem ekki veit. Höfuðritstjóri þess blaðs er fulltrúi flokks síns í útvarpsráðinu, og lá næst að spyrja hann sjálfan. Eftir að farið var að finna að þessu í blaði hans, lét hann, útvarpsráðsmaðurinn, það enn við gangast, að fluttar voru í útvarpi fleiri slíkar auglýsingar. Þó að þess konar atvinnumál tilheyri ekki fyrst og fremst minni stjórnardeild, þótti mér ekki mega láta það afskiptalaust lengur og skrifaði útvarpsstjóra bréf og bannaði framhald á slíkum auglýsingum. Þó að ég geri ekki ráð fyrir að gegna ráðherrastarfi lengi úr þessu, vil ég sjá til þess, að á næstunni birtist í útvarpi yfirlýsing, þar sem fólk sé varað við því að koma hingað til Reykjavíkur í atvinnuleit, — samhliða því, sem samningar munu verða teknir upp um takmörkun á fjölda þeirra, er vinna Bretavinnu.

Ég vona, að þeim flokkum, sem skilja, að þarna er um að ræða einn mikilvægasta þátt dýrtíðarmálanna, gefist brátt tækifæri til að sýna, hve fast þeir vilja standa í ístaðinu. Sé það gert, vonast ég eftir skilningi á málinu hjá Bretum og ekki síður Bandaríkjamönnum, svo að samningar hljóti að takast.