07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (407)

12. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Flm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Þetta frv., sem er á þskj. 15, er flutt af mér ásamt fjórum öðrum þm. úr Framsfl. og hefur verið nefnt frv. til l. um framkvæmdasjóð ríkisins. Frv. fylgir ýtarleg grg., og get ég af þeim ástæðum verið stuttorður um efni þess. Höfuðtilgangur frv. er sá að nota þá möguleika, sem virðast nú vera á því að leggja til hliðar eitthvað af umframtekjum ríkissjóðs, til þess að geyma það, þangað til meiri þörf verður á því að nota þá til verklegra framkvæmda í landinu. Ég geri ráð fyrir því, að það sé ekki neinn meiningamunur um það meðal þm., að nauðsynlegt sé að geyma nokkuð af fé til þess að nota til verklegra framkvæmda, þegar atvinnulíf þjóðarinnar aftur dregst saman. Við höfum svo oft rekið okkur á það, hvað erfitt það hefur verið fyrir ríkið að halda uppi nauðsynlegum verklegum framkvæmdum, og við höfum þurft að fá til þess erlent lánsfé í miklu stærri stíl en hollt var, auk þess sem lánskjörin hafa oft verið mjög óhagstæð. Nú er það vitað, að það er miklu meiri peningavelta í landinu en nokkurn tíma hefur þekkzt áður, og því betri aðstæður en nokkru sinni fyrr til þess að leggja einhverja fjárupphæð til hliðar. Þó að tekjustofnar ríkisins kunni að einhverju leyti að bregðast á þessu ári, er það samt von manna, að hægt verði að leggja fram nægilegt fé í þennan sjóð. Við flm. þessa frv. töldum ekki rétt að setja í frv. nákvæmar reglur um það, hvernig þessu fé skyldi varið, umfram það, sem tekið er fram í grg.

Ég skal geta þess, að þetta frv. er sem einn hluti af þeim frv., sem við framsóknarmenn berum fram hér á þinginu. Frv. það, sem áðan var fellt, var sem einn liður af þeim ráðstöfunum, sem við teljum nauðsynlegar.

Það er enginn vafi á því, að það munu koma þeir tímar, að það verði nauðsynlegt að verja miklu fjármagni til þess að halda við atvinnulífi þjóðarinnar, og þau verkefni, sem bíða óleyst, eru mörg og stór, og þau verður að leysa að styrjöldinni lokinni. Sá sjóður, sem hér er lagt til að verði stofnaður, ætti að geta orðið til þess að halda uppi opinberum framkvæmdum að styrjöldinni lokinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um frv. fleiri orðum, og nægir þar að vísa til grg. Ég legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til fjhn.