07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (414)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Ég gat þess um leið og lagt var hér fyrir Alþ. frv. til l. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, að það frv. bæri að skoða og meta í sambandi við önnur frv., er kæmu hér fram af hálfu Framsfl., og get ég í því sambandi nefnt þetta frv. til 1. um breyt. á skattal. og frv. um framkvæmdasjóð ríkisins, sem hefur nú verið vísað til fjhn. þessarar d. Það frv., sem fellt hefur verið hér í dag, átti að vera meginþáttur í þessum dýrtíðarráðstöfunum, en aðrar þessar ráðstafanir, sem till. liggja fyrir um, áttu að vera því til stuðnings. Engum getur blandazt hugur um, að jafnframt því, sem stöðva verður kapphlaupið milli kaupgjalds og afurðaverðs, er nauðsynlegt að draga úr kaupgetu í landinu með því fyrst og fremst að festa stórgróðann og draga verulegan hluta af honum til ríkisins. Nota hann síðan, þegar kreppan kemur, til þess að styðja og efla atvinnuvegina og standa undir nauðsynlegum framkvæmdum. Skattamálin eru mikilvægur þáttur í dýrtíðarmálunum, — annar veigamesti þátturinn. Ég vil taka fram það, sem ég hef þó þegar tekið fram áður, að ekki er einhlítt að gera skattaráðstafanir, eins og hitt er ekki heldur einhlítt, að lögbinda kaupgjald og afurðaverð. Þetta tvennt verður að styðja hvort annað. Það dregur ekki úr okkur kjarkinn að halda fram öðrum þáttum dýrtíðarmálanna, þótt fyrsta þættinum hafi verið vísað frá. Einmitt vegna þess er enn meiri nauðsyn að fá aðra þætti málsins leysta, svo eitthvað verði þó aðhafzt í þessum svo mjög aðkallandi vandamálum.

Á síðasta Alþ. voru skattamálin til meðferðar, og fjölluðu um afgreiðslu þeirra mála aðallega þeir flokkar, sem að þjóðstjórninni stóðu. Það mun ekki vera hægt að segja: Þeir, sem standa að henni, eins og málum er nú komið. Þessir flokkar töldu nauðsynlegt, að þjóðstjórnarsamstarfið héldist, og við það var miðuð lausn skattamálanna. Skattfrelsi útgerðarinnar var numið úr l. og stríðsgróðaskatturinn lagður á. Fulltrúar allra flokkanna lýstu yfir því, að þeir væru óánægðir með þessa lausn, enda þótt þeir mundu sætta sig við hana á því þingi, til þess að samstarfið færi ekki út um þúfur. — Fulltrúar Sjálfstfl. lýstu yfir, að þeir teldu þessa lausn á skattamálunum ekki til frambúðar, af því að ekki væri vikið frá þeirri stefnu, er ríkt hefði áður og þeir teldu ranga. Frsm. Framsfl. lýstu yfir því, að þeir hefðu gert að stefnumáli að gera þá breyt. á skattal., að hætt væri að draga greiddan skatt og útsvar frá tekjunum, áður en skattur er reiknaður, en skattstiganum breytt í samræmi við það. Einnig var tekið fram, að Framsfl. mundi ekki þá að sinni halda fram þessu stefnumáli, þar eð hinir flokkarnir höfðu lýst yfir því, að þeir gætu ekki fallizt á þessa breyt., en jafnframt, að þeir mundu berjast fyrir þessu stefnumáli á næstu þingum, unz því yrði sigurs auðið. Enn fremur var tekið fram af hálfu Framsfl., að honum fyndist of langt gengið í hækkun skatta á miðlungstekjur og þar yfir, því að í löggjöfina var sett ný regla, svokallaður „umreikningur“, þannig að tekjur lækkuðu um að vissu marki miðað við hækkun á framfærslukostnaði frá því fyrir stríð.

Í þessu frv. eru aðallega þrjár breyt. frá núgildandi skattalögum. Ég mun fyrst gera að umtalsefni veigamestu breyt. Það er sú breyt. á grundvelli skattalaganna, að horfið sé frá að draga greiddan skatt og útsvar frá tekjunum. áður en skattur er reiknaður, en í þess stað verði skattur lagður á nettótekjur manna eftir lægri skattstiga. Enda þótt ekki hafi komið fram till. í þessa átt hér á Alþ. á síðari árum, þá gerði ég þó grein fyrir þessum breyt. í sambandi við skattalagaumr. á Alþ. í vor, en þar sem ekki er von til þess, að hv. þm. minnist þeirra raka, er ég kom þá fram með, þá ætla ég að endurtaka þau að nokkru.

Eins og nú er ástatt, getur farið svo, að skattgjald manna verði mjög mismunandi frá ári til árs, þótt tekjur séu jafnar. Það getur og komið fyrir, að einstaklingur, sem hefur góðan hagnað í eitt ár, en lítinn sem engan hagnað önnur ár, greiði mestan hluta tekna sinna eða jafnvel allar tekjur sínar í skatta og útsvar gróðaárið, en njóti frádráttarins aldrei, vegna þess að hann hafi ekki nógu háar tekjur síðar til þess að fá notið frádráttar hlunnindanna. Þetta verður því þannig í framkvæmd, að þeir, sem hafa misjafnar tekjur, og þó einkum þeir, er stundum græða, en stundum tapa, greiða hærri skatta en hinir, sem jafnar hafa tekjur. Í þessu felst hið mesta ranglæti, og er brýn nauðsyn á að kippa þessu í lag, enda er það vel hægt. Það er sérstök ástæða til þess að hafa skattalöggjöfina ekki á þennan hátt hér á landi, vegna þess hve atvinnuvegir landsmanna eru áhættusamir og mikill munur á tekjum manna frá ári til árs. Það mun sennilega vera leitun á öðrum eins sveiflum í afkomu atvinnuveganna með öðrum þjóðum og hér eiga sér stað. Það ætti því að vera augljóst, hversu nauðsynlegt er að fá þessu breytt.

Þá er annað veigamikið atriði, sem ekki verður komizt hjá að minnast á í þessu sambandi. Skattstiginn í núgildandi skattal. gefur ekki hugmynd um skattabyrðina eins og hún raunverulega er. Ef menn athuga skattstigann, komast menn í fljótu bragði að þeirri niðurstöðu, að skattar séu allt að 75% samanlagt (stríðsgróðaskattur — tekjuskattur) af hæstu tekjum. — Við ályktum því þannig, að það þurfi að greiða 75% af gróðanum í skatt. Þessu er þó ekki þannig varið nema gróðinn sé aðeins í eitt ár, því ef gróðinn heldur áfram, þá kemur frádráttur til greina, svo eigi þarf að greiða skatta nema af þeim hluta gróðans, sem er umfram skatt og útsvar ársins á undan. Til þess að fá rétta hugmynd um þetta, þá verða menn að gera sér grein fyrir, hverju skattarnir nema yfir lengra tímabil en eitt ár. — Þessi staðreynd, að skattstiginn gefur ekki hugmynd um sjálfa skattabyrðina á atvinnutekjum manna, hefur orðið til þess að villa mönnum sýn, gera skattana, sem eru lagðir á þjóðina, miklu hærri í augum manna en þeir raunverulega eru, og auka andúðina á beinum sköttum, sem eru þó réttlátastir allra skatta. Menn hafa álitið, að mestallar tekjur manna færu í skatta.

Hið eina rétta er því að leggja skatt á nettótekjur, þannig að mönnum beri að greiða jafnan skatt afjöfnum gróða, og það mundi verða gert, ef þær till. yrðu samþ., er hér liggja fyrir.

Þegar tekjuskattsl. voru sett fyrst 1921, þá var haft það fyrirkomulag, sem við förum hér fram á, að lögfest verði á ný, en þessu var breytt árið 1923 og það sett í staðinn, sem nú gildir. Til frekari skýringar því, sem ég hef hér sagt, þá vísa ég til grg. frv., þar sem sýnt er fram á með dæmum það, sem ég hef hér rakið með almennum orðum. Í fyrsta lagi, hversu skattafyrirkomulagið er ranglátt í garð þeirra, sem hafa misjafnar tekjur frá ári til árs. Í öðru lagi hina röngu hugmynd, sem núgildandi skattstigi gefur mönnum um skattabyrðina. Síðan er og sýnt með dæmum, hvernig verulegur hluti af stríðsgróða félaga og einstaklinga fellur undan skatti með því fyrirkomulagi, sem nú er haft. Þó menn hafi sett 1. um allháan skattstiga, þá verður það þannig í reyndinni, ef gróði heldur áfram, að þessi skattstigi nær ekki til teknanna annað gróðaárið nema að nokkru og í mörgum dæmum litlu leyti.

Önnur meginbreyt., sem frv. fer fram á, snertir þann hluta, sem skattfrjáls verður af varasjóðstillögum félaga. Það var tekið fram í umr. um skattal. í vor af hálfu Framsfl., að það væru of mikil hlunnindi til handa hlutafélögum, að helmingur af árlegu varasjóðstillagi væri skattfrjáls framvegis, með tilliti til þess, hve miklum varasjóði félög kæmu upp af gróða ársins 1940. Einnig með tilliti til þess, að hlunnindi þessi hefðu þau áhrif, að atvinnurekstur landsmanna væri rekinn af hlutafélögum, í stað einstaklinga áður, og mörg þessara hlutafélaga stofnuð beinlínís í þeim tilgangi að njóta þeirra hlunninda, er skattal. bjóða. Flokkurinn gekk inn á, að þessum ákvæðum yrði ekki breytt á síðasta þingi að öðru leyti en því, að skattfrjálst skyldi vera 40% af varasjóðstillagi annarra en útgerðarfélaga í stað 50% áður.

Í þessu frv. er nú lagt til, að í stað helmings, sem nú er skattfrjáls, verði aðeins þriðjungur skattfrjáls af því, sem lagt er í varasjóð, þó þannig, að þegar varasjóður félags, sem ekki hefur sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, er orðinn jafnhár innborguðu hlutafé eða stofnfé, þá sé aðeins fjórðungur þeirrar upphæðar, er félagið leggur í varasjóð af árstekjum sínum, skattfrjáls. Jafnframt er tekið fram í frv., að ef nokkurri fjárhæð úr varasjóði er síðar varið til úthlutunar til hluthafa, ráðstafað til einkaþarfa þeirra á beinan eða óbeinan hátt eða varið til annars en þess að mæta hreinum rekstrarhalla fyrirtækisins, þá skuli telja helming þeirrar upphæðar til skattskyldra tekna á því ári, en áður voru 60% upphæðarinnar skattskyld.

Þá vil ég minnast á þriðju breyt., sem í frv. felst. Ég hef áður tekið það fram, að í skattal. frá síðasta þingi var gert ráð fyrir svokölluðum „umreikningi“ á tekjum manna. Framsfl. var alltaf mjög óánægður með þetta fyrirkomulag, þótt hann yrði á því þingi að beygja sig, þar sem hinir stjórnarflokkarnir voru báðir sammála um að koma henni í framkvæmd. Við vildum heldur fara þá leið að hækka persónufrádráttinn. Það hefur sýnt sig, að „umreikningurinn“ hefur orðið til þess, að skattur þeirra, sem hafa miðlungstekjur og þar yfir, hefur lækkað ákaflega mikið frá því, sem áður var. Við álitum, að nú eigi að innheimta skatt af þeim, sem hafa góðar tekjur, og leggja þá fjármuni fyrir, og að þetta sé nauðsynlegur liður í dýrtíðarráðstöfununum. Við leggjum því til í þessu frv., að ákvæðið í 1. frá í fyrra um „umreikninginn“ verði fellt niður, en í stað þess verði persónufrádrátturinn hækkaður verulega, eða upp í 1000 kr. á hvern mann, og hann hafður jafn fyrir fullorðna og börn. Þetta er algert nýmæli í íslenzkri skattalöggjöf, og till. um þetta byggjast á þeirri skoðun flm. frv., að það hafi aldrei verið gerður nægilegur munur á skattgjöldum fjölskyldumanna og þeirra, sem ekki hafa fyrir neinum að sjá, og því sé réttlátt að hafa frádráttinn fyrir hvern einstakling í fjölskyldu jafnháan og fyrir skattgreiðanda sjálfan og konu hans. Í framkvæmd mundu þessi ákvæði verka þannig, eins og fram kemur í grg. frv., að skatturinn á einhleypum mönnum, sem hafa um 4000 kr. í tekjur og þar yfir, hækkar nokkuð, og mjög verulega þegar dregur upp að 12000 kr. tekjum og þar yfir, en skattur fjölskyldumanna, t. d. að taka meðalfjölskyldu, hjónum með 3 börnum, lækkar nokkuð á tekjum, sem eru undir 11000-12000 kr., en fer lítils háttar hækkandi úr því. Þetta teljum við á allan hátt eðlilegar till., eins og ég hef nú gert nokkra grein fyrir.

Við teljum, að þeir landsmenn, sem hafa mjög góðar ástæður og verulegar tekjur, og þá ekki sízt það fólk, sem ekki hefur fyrir neinum að sjá, geti og eigi nú að leggja talsvert af mörkum til ríkisins, til þess að vinna að framfaramálum þjóðarinnar. Það væri mjög illa farið að okkar dómi, ef ekki væri hægt að koma fram þessari hækkun á sköttum, því að hún hefur einnig þau áhrif að draga úr hættunni áframhaldandi vexti dýrtíðarinnar.

Ég hef kannske ekki farið alls kostar rétt með áðan, þegar ég sagði, að breyt. með frv. væru þrjár, því að í raun og veru eru þær fjórar. En ein þeirra stendur mjög í sambandi við fyrstu aðalbreyt., sem ég taldi, og taldi ég hana því ekki sérstaklega áður. Ég á hér við breyt. á sjálfum skattstiganum, sem að mestu leyti er miðuð við, að samræmi skapist vegna þess að hætt verður að draga frá skatta og útsvör, ef frv. verður samþ. En þó er með skattstiga þessum ráðgerð nokkur hækkun á skatti. Skattstiginn er sem sé miðaður við, að skv. honum verði skattabyrðin mjög svipuð og hún var fyrir styrjöldina afjöfnum tekjum frá ári til árs, með þeim breyt. þó, sem leiðir af auknum persónufrádrætti og áður hefur verið sýnt fram á.

Frv. þetta fjallar eingöngu um hinn almenna tekjuskatt ríkisins. Í frv. eru engin ákvæði um stríðsgróðaskatt. Um þann skatt gilda sérstök l. frá síðasta þingi. Það vakir fyrir flm. þessa frv., að við meðferð málsins hér í þinginu, og þá sérstaklega í þeirri n., sem frv. yrði vísað til, færi fram sérstök athugun á 1. um stríðsgróðaskatt og þau borin saman við það frv., sem hér er lagt fram. L. um stríðsgróðaskatt voru á sínum tíma miðuð við þá skattalöggjöf, sem hér var samþ. á síðasta þingi, og það fyrirkomulag, sem þar var ákveðið á skattgreiðslum manna fyrir árið 1940. Þess vegna fer vel á því, að sú löggjöf verði borin saman við frv. þetta við meðferð þess í þinginu og það athugað gaumgæfilega, hvort ástæða er til þess að breyta stríðsgróðaskattalöggjöfinni með tilliti til ákvæða, sem í þessu frv. felast. Við höfum ekki framkvæmt slíka endurskoðun né samanburð svo gaumgæfilega fyrir okkar leyti, að við viljum láta fylgja þessu frv. yfirlýsingu um, hvað við teljum rétt í þessu efni.

Að lokum vil ég svo minnast hér á eitt atriði, sem ekki eru neinar till. um í þessu skattafrv., en óneitanlega er þannig vaxið, að fullkomin ástæða er til þess fyrir þingið að taka sérstaklega til yfirvegunar í sambandi við þetta mál. Við vitum það vel, væntanlega allir, að það á sér stað ákaflega mikið „brask“ nú í landinu. Fasteignir, hlutabréf og annað lausafé gengur mjög kaupum og sölum með uppsprengdu verði. Hitt vita þeir einnig, sem kunnugir eru skattalöggjöfinni, að ekki er gert ráð fyrir, að menn greiði skatta af sölugróða fasteigna né lausafjár, ef þeir hafa átt fasteignina eða lausaféð í meira en 5 ár. Mér finnst fullkomin ástæða til þess að taka það til sérstakrar meðferðar í sambandi við mál það, er hér liggur fyrir, hvort ekki sé réttmætt að breyta þessu ákvæði eða jafnvel leggja sérstakan skatt á gróða af sölu fasteigna eða lausafjár. Þetta vildi ég láta koma hér fram til athugunar fyrir þá n., sem fær málið sérstaklega til meðferðar, og það jafnt fyrir því, þótt ekki séu í þessu frv. neinar sérstakar till. um þetta mikilsverða atriði.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta frv. fleiri orðum. En ég vil, fyrir hönd okkar flm., óska eftir því, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn., að umr. lokinni.