07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (418)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér þykir miður, að hæstv. fjmrh. skuli taka fram nú, að hann líti svo á, að það hafi verið skoðað sem samningur af hálfu Sjálfstfl., að ekki yrði gerð sú grundvallarbreyt. á skattalögum, sem hér er lagt til, að gerð verði. Ég hef ekki enn þá skilið, hvað hæstv. ráðh. hefur fyrir sér í þessu, því að þær ástæður, sem hann færði hér fram, fá ekki staðizt. Ég hef gefið upplýsingar um það, sem fram fór við samningana, og væri gott að heyra, hvort þær væru vefengdar. Hvort það er vefengt t. d., að í þeim samningum tókum við fulltrúar Framsfl. það fram, að við héldum fullum rétti til þess að leggja fram hvenær sem væri þá grundvallarbreyt., sem hér eru nú gerðar till. um. Þetta tókum við sérstaklega fram með tilliti til þess, að alveg væri öruggt, að það kæmi ekki í bága við það, sem þar var gert, þó að þessi breyt. yrði flutt á næsta þingi. Það er því fullkominn misskilningur, ef sjálfstæðismenn hafa staðið í þeirri meiningu, að með þessum samningum féllu framsóknarmenn frá þessa stefnumáli sínu til frambúðar. Það er álíka fjarstætt og það væri, ef v ið héldum fram, að það hefði komið í bága við þennan samning, þó sjálfstæðismenn hefðu breytt skattalögum á þessu eða næsta þingi, ef þeir hefðu bolmagn til. Vitanlega hefur flokkurinn fullan rétt til þess að gera það. Hefðu farið fram kosningar s. l. vor og Sjálfstfl. fengið hreinan meiri hl., gat engum dottið í hug að draga í efa, að flokkurinn mundi gerbreyta skattal., sem sett voru í vor. Það var greinilega tekið fram af Sjálfstfl. eins og okkur, að með því bráðabirgðasamkomulagi væri ekki að neinu leyti fallið frá stefnu flokksins í skattamálum, enda geta menn getið sér þess til, hvort flokkarnir muni hafa farið að gera samning um skattal. til frambúðar rétt fyrir kosningar, sem enginn vissi nema breytt kynnu alveg viðhorfinu á þinginu. Mér þykir það því leiður misskilningur og ástæðulaus, sent hér hefur fram komið, og eins og ég sagði, vil ég, að það komi greinilega hér fram, hvort það, sem ég upplýsi hér, að farið hafi fram um þetta mál í samningan., er vefengt eða ekki. Þær þingræður, sem fluttar voru um málið, eru að því leyti fullkomnari gögn en umræður í samninganefndinni, að þær eru opinber skjöl. Þessar umræður bera það einnig með sér, að það, sem ég hef sagt hér, er rétt og fyrirvarar þar þannig fram settir, að ekki gat valdið misskilningi.

Hæstv. fjmrh. vill benda á í þessu sambandi til stuðnings þeim skilningi, sem hann vildi halda fram, að í fjárl. fyrir 1942 séu skattar svo lágt áætlaðir, að augljóst sé af því, að menn hafi gert ráð fyrir, að því skattafyrirkomulagi yrði fylgt áfram, sem lögfest var í fyrra. Hæstv. fjmrh. veit það jafnvel og ég, að áætlun um tekjur af skattal. eru ætið miðaðar við þau 1., sem gildandi eru, þegar fjárl. eru samin. Engum fjmrh. dettur í hug að miða þar við annað en gildandi skattal. Það var ekki heldur nein ástæða til þess fyrir hæstv. fjmrh. að taka þær yfirlýsingar, sem komu fram frá okkur um baráttu okkar í þessu máli, þannig, að breyta ætti fjárl. þeirra vegna, þar sem ekkert lá fyrir um, að stefna okkar yrði ofan á í þinginu.

Hæstv. ráðh. vildi líka draga fram í þessu sambandi, að fyrir spurn í þinginu um það, hvort stríðsgróðaskatturinn væri frádráttarhæfur skv. frv., sem fyrir lá, hefði verið svarað játandi, Það orkaði ekki tvímælis, að bæði stríðsgróðaskatturinn og tekjuskatturinn voru frádráttarbærir skv. frv., sem fyrir lá í fyrra, og þeim 1., sem samþ. voru þá og enn eru í gildi. Um það hefur aldrei verið neinn vafi, og þetta gildir, þangað til því kann að verða breytt. Hins vegar skiptir þetta engu máli í sambandi við þann misskilning, sem hér hefur komið fram.

Til þess að upplýsa enn frekar þessi mál og til þess að sýna, hvort farið hefur verið á bak við Sjálfstfl. í þessu sambandi, vil ég taka það fram, að hv. þm. V.-Húnv., sem tók þátt í þessum skattasamningum alveg frá byrjun og átti sæti í samningan., lýsti yfir alveg nákvæmlega því sama við framsögu sina í málinu í Nd. eins og ég lýsti yfir í Ed. Það lá því alveg skýlaust fyrir af hálfu Framsfl., að hann væri alls ekki fallinn frá þessu stefnumáli sínu. Enn fremur vil ég benda á grein, sem hv. þm. V.-Húnv. skrifaði í Tímann alveg um sama leyti og málið var til meðferðar í þinginu, og þar sem gefin var alveg sams konar yfirlýsing. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Á samningafundi um skattamálin báru framsóknarmenn fram till. um það, að sú regla yrði upp tekin að hætta að draga útsvör og skatt frá skattskyldum tekjum, en skattstigarnir lækkaðir sem því svaraði. Hinir stjórnarflokkarnir vildu ekki á það fallast, og er því ekki unnt að koma þeirri breyt. á að þessu sinni. En Framsfl. mun halda áfram að vinna að því máli, unz það hlýtur nægilega mikið fylgi.“

Á öllum þessum stöðum eru sams konar yfirlýsingar gefnar. Ég man alveg sérstaklega glöggt, að um leið og sá samningur var gerður f. h. Framsfl., að breyt. yrði ekki flutt á síðasta þingi, þá tók ég fram einu sinni enn, að menn mættu ekki skilja það þannig, að Framsfl. ætlaði að leggja málið á hilluna. Mér hefur aldrei flogið í hug, að Sjálfstfl. félli með þessum bráðabirgðasamningum frá stefnu sinni og gengi inn á okkar, en þá vil ég ætlast til þess drengskapar á móti, að það sama verði viðurkennt um framsfl. og menn snúi sér að öðru en því að reyna að flækja þetta svo fyrir mönnum, að ekki fáist hreinlega úr því skorið, frá hverju var gengið í samningunum. Við vitum það allir, sem tókum þátt í þessum samningum, að það voru aðeins bráðabirgðasamningar, miðaðir við afgreiðslu á því þingi, sem þá stóð yfir, og við skulum ekki vera með nein látalæti um annað. Við vitum allir, að allir flokkar marglýstu yfir, að þeir hefðu óbundnar hendur framvegis, þrátt fyrir það, sem gert var.