07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (420)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. viðskmrh. hélt því fram í tölu sinni af afar miklum krafti, að annaðhvort væri órétt hermt frá samningum flokkanna í fyrra um skattamálin eða byggt á miklum misskilningi, ef nokkur maður héldi því fram, að samkomulagið hefði átt að verða nokkuð varanlegt. Ég get lýst yfir því fyrir mína hönd, og hygg það sama gætu sjálfstæðismenn yfirleitt sagt, að þannig var mér flutt þetta samkomulag, að það ætti að verða til frambúðar. Enginn Sjálfstflm. mun hafa látið sér detta í hug, að það eða aðalatriði þess stæði skemur en þjóðstjórnin, og hiklaust var því treyst, að hún stæði, meðan stríðið héldist. Samningarnir um skattal. stóðu lengst yfir allra samninga milli flokkanna, og missiri eftir að þeir eru útkljáðir og öllu virðist ráðið fastlega til lykta, er samkomulagið brotið með þessu frv.

Hitt er annað mál, að ég hef aldrei gengið svo í barndómi, að mér dytti í hug, að Framsfl. efndi heit sín lengur en honum þætti sér hagur að, — nema helzt er hann heitir illu, — og, bregður nú eigi mær vana sínum, þegar færi virðist til ofsókna á hendur skattgreiðendum atvinnuveganna. Eflaust fer um þetta mál eftir atkvæðamagni fremur en röksemdum, og ætla ég ekki að eyða miklu púðri á það að sinni, en verð að gera nokkrar aths.

Frá mínu sjónarmiði og sjálfsagt margra annarra er það alger rökvilla að ætlast til, að opinber gjöld séu ekki frádráttarbær sem annar rekstrarkostnaður. Það er meining skattal., að frá skattskyldum tekjum geti framleiðendur og aðrir dregið bein útgjöld sín, sem vegna atvinnurekstrarins eru gerð. Opinber gjöld eru lögð á þann atvinnurekstur og því rekstrarkostnaður í eðli sínu. Hvaða rök eru fyrir því að undanskilja þann hluta rekstrarkostnaðar í frádrættinum? — Ástæðan til að undanskilja skattafrádráttinn, banna hann, er ekki svo mjög það, að menn greini á um þetta eðli hans, heldur hin gamla stefna Framsfl. og Alþfl. að koma í veg fyrir efnahagsviðréttingu atvinnufyrirtækjanna.

Áður þegar Alþ. hefur lagt á þunga skatta, hefur það ætíð verið afsakað með því, að kröggur hins opinbera neyddu löggjafarvaldið til að ganga svo hart að skattgreiðendum um stundarsakir, — þetta yrði að gera til að geta haldið í horfinu verklegum framkvæmdum og staðið straum af hinum sívaxandi skyldum þjóðfélagsins. Nú stendur öðruvísi á. Nú þykir sumum mönnum ríkissjóður svo efnum búinn, að það sé hégómamál, eitt að kasta frá sér milljónatekjum með því að hafa áfengisverzlunina lokaða. Nú er auðheyrt, að höfuðtilgangur þessa frv. er ekki óhjákvæmileg fjáröflun ríkissjóðs, heldur að hindra viðreisn atvinnuvega, sem við sjálfstæðismenn hljótum að bera fyrir brjósti og verja fyrir yfirgangi. Því hefur margsinnis verið haldið fram af sjálfstæðismönnum, að heppilegast væri að miða skattgreiðslur manna við meðaltekjur þeirra um nokkurt árabil. Það mundi gera tekjur ríkissjóðs vissari og jafnari, taka af honum áhættu og skakkaföll verri áranna gegn því að takmarkaðri yrði fjárstraumur góðæranna í hirzlu hans. Og það mundi gefa atvinnufyrirtækjum nauðsynlegt öryggi og meiri festu í fjárhagsáætlanir þeirra ár frá ári. Móti þessu hefur Framsfl. barizt alveg sérstaklega, — og tilgangurinn er auðsær. — Til marks um ósamkvæmni þess flokks og stefnuleysi að öðru leyti get ég minnt á, að þegar ég flutti á næstsíðasta reglulegu Alþ. till. um hækkaðan persónufrádrátt vegna verðlagshækkunar, sem orðin var, síðan sá frádráttur hafði verið lögfestur, þá greiddu ég held allir framsóknarmenn atkv. móti þessu. Nú þegar búið er að hækka persónufrádráttinn, koma þeir aftur með till. um að hækka hann meira. Hver er tilgangurinn?

Mál þetta er enn á fyrsta stigi og fer sjálfsagt til athugunar í nefnd. Gefst að því búnu tækifæri til að athuga einstakar gr. frv.