07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (421)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Ég ætlaði ekki að tala um þetta mál nú, því að ég býst við, að það fari til n., sem ég á sæti í. En hæstv. viðskmrh. lýsti eftir mótmælum gegn þeirri fullyrðing sinni, sem mér og flestum þykir furðuleg og átti að vera röksemd í deilu hans við hæstv. fjmrh. áðan, að samningar flokkanna í fyrra um skattamálin hafi ekki náð til þessa árs. Ég undrast, hve langt hann leyfir sér að ganga. Hann veit eins og ég og allir, sem að samningunum stóðu í fyrra vetur, að eitt ágreiningsmálið, sem einna lengst stóð á, var hvort skattur, sem á tekjur ársins 1940 er lagður, mætti dragast frá tekjum ársins 1941. Vikum saman var þrefað um þetta. Niðurstaðan varð, að skatturinn skyldi frádráttarbær frá tekjum ársins 1941. Þetta var svo greinilegt sem orðið getur. En hitt er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það var tekið fram, að þetta þyrfti ekki að gilda um alla framtíð. Þess vegna tel ég það svo greinileg svik sem nokkur svik geta verið að víkja frá samkomulaginu í þessu efni.

Þó blöskraði mér nærri enn meir, þegar það koma fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að hann fór að setja málið í samband við kosningafrestunina og fullyrti, að engum hefði verið farið að koma til hugar að fresta kosningum, þegar samið var um skattamálin.

Ég skil ekkí, hvernig nokkur þm. leyfir sér að bera sér slíkt í munn — um svo kunnugt mál. Skattal. voru afgr. 3. maí, en kosningafrestunin 15. maí, og þá var sannarlega liðið meira en nokkrar vikur frá því að fyrst var tekið að ræða um kosningafrestun á fundum flokkanna og í ýmsum viðræðum. — Þetta vildi ég taka fram, úr því hæstv. ráðh., lýsti eftir mótmælum.