07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (422)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. þm. A.-Húnv. getur ekki gengið fram af mér lengur. Ég er orðinn því svo vanur að heyra furðuleg orð af munni hans, að mér getur aldrei blöskrað neitt, sem kemur úr þeirri átt. Ég vil segja honum það fyrst, að hann tók ekki þátt í þessum samningum fyrr en á nokkrum fundum allra síðast og veit ekkert, hvað fyrr hefur gerzt, ef hann hefur þá tekið eftir á þessum fundum heldur. En annaðhvort hefur hann þá verið úti á þekju eða ýmislegt skapazt í höfði hans síðan. Hann talar um, að það hafi þar verið eitt aðalatriðið, hvort skattur, sem lagður er á tekjur ársins 1940, mætti dragast frá skattskyldum tekjum ársins 1941, þá er að skattlagning þeirra kemur á árinu 1942. En þar var aðeins rætt um, hvort breyta skyldi l. og hlaut sú breyt., er gerð var, að ræða frádrætti frá skatttekjum ársins 1940, en ekkert var frekar bundið um álagning á tekjur ársins 1941. Við fulltrúar Framsfl. tókum fram hvað eftir annað, að við vildum hafa óbundnar hendur að breyta 1. við fyrsta tækifæri. Ráðherrar Sjálfstfl. vissu, að það var engan veginn tryggt, að á sínum tíma yrði leyft. að draga skatta ársins 1940 frá tekjum ársins 1941. Ég veit ekki, hvort Sjálfstfl. hefur treyst því, að Alþfl. yrði móti breyt, á l. í þessu efni. Við framsóknarmenn ætluðum að bera þessa breyt. fram þing eftir þing, þangað til við fengjum henni framgengt. Þar var stefna okkar söm við sig, eins og hv. 5. þm. Reykv. var að tala um. Það er engu líkara en sumir þm. Sjálfstfl. álíti, að samningarnir hafi átt að binda Framsfl. í hverju atriði um alla framtíð, en þeir ættu að hafa frjálsar hendur að gera þær breyt., sem þeir vildu. Því að ég held, að hv. þm. A.-Húnv. vilji ekki halda því fram, að þeir sjálfstæðismenn hafi bundið sig til að gera ekki framar till. til breyt. á skattalögum.

Það segir hann, að sér hafi blöskrað mest, að ég skyldi minnast á kosningafrestun og fullyrða, að samningarnir um skattal. hafi verið gerðir án tillits til þess, sem síðar samdist um hana. Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. veit, kannske veit hann hreint ekki. neitt, en hitt veit ég, að skattasamninginum var lokið áður en til kom að fresta kosningum. Það skiptir engu í þessu sambandi, þótt þingið afgreiddi skattalögin ekki fyrr en 3. maí; — hvert atriði var fastráðið löngu fyrr, löngu áður en kosningafrestun var tekin fyrir á flokksfundum, — nema vera skyldi í flokki þessa hv. þm., eftir sögusögn hans að dæma.

Fullyrðingar þessa hv. þm. og ummæli hæstv. fjmrh. áðan eiga víst að skiljast svo, að samkomulagið um afgreiðslu skattal. í fyrra hafi átt að binda flokkana til frambúðar . En ég bið menn að athuga, að bæði þá og síðan hafa fallið orð hér á þingi, sem sanna hið gagnstæða. Í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarl. á s. 1. vori kom þetta e. t. v. allra ljósast fram. Þá féllust sjálfstæðismenn á að framfylgja hinum nýju skattal. á þann hátt að leggja viðauka á skattinn, og má marka af því, hvort talið var, að frá þessu hefði verið fullgengið til frambúðar, eða hitt þó heldur.

Ég verð að segja, að ég kann engan veginn við þessar umr. Það er af líkum ástæðum og ég kunni alls ekki við þá framkomu manna, sem ég hef starfað með, þegar þeir leyfðu sér í umr. um dýrtíðarmálið undanfarna daga að skýra þannig frá því, sem gerzt hafði í ríkisstj. við undirbúning málsins, að það gaf alranga mynd af veruleikanum. Þó að margt hafi milli borið um stund, ætlast ég til þess drengskapar í samningum, að það verði hreinlega viðurkennt, sem var, að hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn vildu í fyrra binda sig neitt til frambúðar í skattamálum. Hefði til kosninga komið, vildu sjálfstæðismenn hafa leyfi til að lýsa sig andvíga hinum nýju skattal., — og gerðu það strax, töldu grundvallarstefnu þeirra alranga, enda nær hina sömu sem við framsóknarmenn hefðum alltaf haldið, landinu til niðurdreps. Þetta kom þá mjög ákveðið fram hjá m. a. hæstv. fjmrh. og hv. þm. Vestm., er þeir ræddu skattal. í Ed. Hver vill nú halda því fram, að þeir hafi viljað binda sig til frambúðar við slík háskalög óbreytt? Nei, það þýðir ekki að bjóða almenningi rangfærslur um vilja Sjálfstfl, í þessu máli og fyrst þeir voru og vildu vera óbundnir, hlutu aðrir flokkar að vera það líka.

Engu að síður lætur nú einn fulltrúi Sjálfstfl. það heita svo, að með flutningi þessa frv. fari Framsfl. á svig við samningana í fyrra. Það er byrjun áróðursherferðar. Annar tekur undir og kemst svo að orði, að samningar séu brotnir með þessu. Við vitum, að þetta er allt tilhæfulaust. Hinn þriðji tekur samt undir og fullyrðir, að samningarnir séu sviknir, og það mun vera sú „lina“, sem blöðum flokksins er ætlað að fylgja í kosningabaráttu. Verði þeim að góðu, en á Alþ. kann ég ekki við þetta.