07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (423)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Hæstv. viðskmrh. segir, að sér geti ekki blöskrað neitt af því, sem ég hef reynt að gera þingheimi ljóst í ráðherraframkomu hans. Já, honum blöskrar ekki, en mér blöskrar óskammfeilni hans. Það er kunnugt, að samningarnir snerust fyrst og fremst um það, hvernig skattur skyldi lagður á tekjur ársins 1940, og þá að sjálfsögðu um það um leið, að sá skattur yrði frádráttarbær frá næsta árs tekjum á þann hátt, sem í skattal. segir. (Viðskmrh.: Tilhæfulaust hjá þm.), Þetta hélt ég öllum hefði þá verið ljóst. (StgrSt: Eru þessir samningar ekki bókaðir einhvers staðar?). Nei, því miður voru þeir ekki bókaðir, heldur gert ráð fyrir, að við ættum í samningum við heiðarlega menn. Reyndin er ólygnust. Og svo leyfir hæstv. viðskmrh. sér að tala um drengskap: þessu sambandi. Ég held hann ætti ekki að leyfa sér að nefna það orð.

Ég get lýst yfir því, að fyrir löngu var byrjað að ræða um kosningafrestun innan flokkanna og víðar, áður en samningum um skattal. var lokið.

Ég sé enga ástæðu til þess að þræta um þetta við hæstv. ráðh., en það segir sig sjálft, að það gat ekki verið ágreiningur um þetta atriði, hvort skatturinn væri frádráttarbær, sem lagður var á 1940, ef átti að kippa því strax til baka áður en árið er liðið. Hitt er rétt, sem hæstv. ráðh. hélt fram, að framsóknarmenn tóku fram, að þeir vildu koma fram þessari breyt., en þeir bera brtt. fram ári of snemma.