18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (439)

23. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Þessi mál hafa alltaf tilheyrt fjhn. (SK: Algert öryggismál nú.) Vegna þess að sú n. hefur ætíð um gjaldeyrisverzlunina fjallað og hlýtur að hafa á henni mestan kunnugleik, vildi ég spyrja hv. flm., hvort hann gæti ekki fallizt á, að frv. yrði vísað til hennar.

Ég skal ekki frekar en flm. rifja upp fornar væringar um gjaldeyrismál og innflutningshöft. Ég verð aðeins að minnast á starfsemi ríkisstj. í þessum efnum og viðhorf þeirra nú. Sumarið 1938 hafði ég aðstöðu til að kynna mér það á Norðurlöndum, hvernig unnið var að birgðasöfnun með aðsteðjandi styrjöld og siglingateppu í huga. Eftir að ég kom heim, vann ég nokkuð að athugunum á því, hvernig því yrði helzt við komið að birgja landið að ýmsum þeim nauðsynjum, sem helzt vill verða skortur á í styrjöld. Gerðir voru listar yfir ýmsar þær vörur, einkum þær, sem kostuðu ekki mikinn gjaldeyri, og innflytjendur hvattir til að vera vel birgir af þeim. Jafnframt varð bersýnilega vegna skorts á gjaldeyri, sem þá var, að skera niður innflutning ýmissa miður nauðsynlegra vörutegunda, en láta í staðinn koma sem mest almennra nauðsynja. Það er rétt hjá hv. flm., að í stríðsbyrjun voru hér ekki miklar birgðir; — og þó meiri en oft áður. Þá versnuðu gjaldeyrisvandræðin ákaflega, því að verzlunarhús, sem vön voru að selja okkur vörur með 3–6 eða jafnvel 9 mánaða gjaldfresti, tóku nú upp þá reglu, vegna óttans um að fleiri lönd drægjust inn í styrjöldina og útistandandi skuldir yrðu óinnheimtanlegar, að heimta allar vörur greiddar út í hönd eða um leið og þær voru komnar um borð í skip. Samtímis þessu varð að greiða allar þær vörur, sem undanfarið höfðu verið keyptar með gjaldfresti og búið var að nota að miklu leyti. Fyrstu mánuði stríðsins var það því sízt minna áhyggjuefni, hvernig ætti að greiða vöru, en hitt, hvernig unnt væri að ná henni. Þetta fór ekki að lagast fyrr en kom fram á sumar 1940. Vorið 1939 var gefinn út „frílistinn“, þar sem innflutningur á mörgum nauðsynjum var gefinn frjáls, og mjög mörgum vörum var bætt á þann lista sumarið eftir. Var þá beint að því stefnt, að nær allur innflutningur yrði gefinn frjáls innan lítillar stundar.

En þá kom það fram, og þó reyndar fyrr, að Bretar vildu hafa hönd í bagga með innflutningi okkar og að eftirlit væri með innflutningi. Þeir vildu hafa hér innflutningshömlur, og var samin innflutningsáætlun, sem við máttum ekki fara fram úr. Um þetta áttum við töluvert snarpa deilu við fulltrúa Breta hér á staðnum, og lauk svo, að við urðum að afnema „frílistann“. Ég get gefið þær upplýsingar hér, að þótt ég væri þeirrar skoðunar, að innflutningshömlur væru nauðsyn, meðan gjaldeyrisvandræði héldust, gerði ég það, sem ég mögulega gat, til þess að hafa fulltrúa Englendinga ofan af þessari kröfu, og munu samstarfsmenn mínir í ríkisstj. bera mér þar vitni, ef flm. óskar. Síðan þetta gerðist, hafa ekki verið framkvæmd hér nein önnur innflutningshöft en þau, sem við vorum skuldbundnir til með samningum við önnur ríki. Samningurinn við Breta var bæði um hámark vörumagns og samkomulag um gjaldeyri, þar sem þeir skömmtuðu okkur þá dollara, sem við þurftum á að halda að þeirra dómi, í skiptum fyrir pund, og setti það fastar skorður við auknum innflutningi frá Bandaríkjunum. Það hefur verið hlutverk ríkisstj. að gera kröfur um sem ríflegasta vörukvóta, og enn fremur höfum við reynt að hafa áhrif á, að innflytjendur nauðsynjavara ykju birgðir sínar, reynt að útvega þeim leyfi til kaupa í ýmsum löndum og sjá þeim fyrir skipum til flutninga. Með nokkrum undantekningum hefur innflutningur á nauðsynjum okkar orðið nægur. Undantekningarnar þarf ég ekki að ræða að sinni, en hitt er viðurkennt, að þetta ár höfum við haft ýmsar nytsamar vörur í ríkari mæli en fyrir styrjöldina. Þegar innflutningur ársins 1941 verður gerður upp, mun koma í ljós, að hann er mjög mikill, þótt hann hefði þurft að vera meiri af ýmsum vörutegundum.

Nú taldi hv. flm. viðhorfið gerbreytt, þar sem allur útflutningur til Bretlands mundi fást greiddur í dollurum og eftirlit Breta með innflutningi félli niður. Mér er ekki kunnugt, hvaðan hann hefur þetta. Það standa yfir samningar við fulltrúa Bandaríkjanna og Bretlands, og er alls ekki ljóst í öllum atriðum, hvernig samningagerðinni lýkur. Við vitum engan veginn, hvort við getum fengið vörur eftir vild framvegis eða hverjar vörutegundir kunna að verða takmarkaðar. En mér þykir líklegt, eftir því, sem horfir í samningunum, að mjög verulegar breyt. til bóta geti brátt átt sér stað. Ég get sagt hv. flm. það, að ríkisstj. hefur enga löngun til að halda að þarflausu uppi innflutningshömlum, en takmörkun getur verið nauðsynleg afskipaleysi og vöruþurrð í innkaupalöndunum, engu síður en gjaldeyrisskorti. Það er líka nokkurn veginn augljóst mál, að eitthvert eftirlit og vörumiðlun á torfengnum vörum — verður að hafa á tímum sem þessum. L. um gjaldeyrisverzlun eru aðeins heimildarl. og verða ekki framkvæmd nema í þeim atriðum, sem ríkisstj. telur þurfa. Nú er örðugt að sjá allt fyrir, og menn ættu því að geta fallizt á að leggja þetta mál á hilluna í bráð, bíða fullnaðarsamninga við önnur ríki og sjá, hverju fram vindur á næstunni.