18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (440)

23. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Vegna ummæla hæstv. viðskmrh. um afskipti Breta af innflutningi til landsins, vil ég taka fram, að frá mínu sjónarmiði átti að hefjast handa um aukinn innflutning áður en þau komu til.

Í tilefni þessara orða vil ég minna á, að í ágústmánuði 1940 var viðhorfið í gjaldeyrismálunum alveg gerbreytt frá því, sem áður var. Þá voru innieignir bankanna erlendis orðnar 3,4 millj. kr., en á sama tíma árið áður námu skuldir þeirra við erlenda banka 16 millj. kr. Á þeim tíma, þegar skuldirnar erlendis voru hvað mestar, virtist það takmark mjög fjarri, að við næðum því að verða skuldlausir.

Í ágústmán. 1940 var hæstv. viðskmrh. þeirrar skoðunar, að takmarka ætti innflutninginn. Var þess þá krafizt af þeim, er töldu innflutningshöftin háskaleg og óheppileg frá fjárhagslegu sjónarmiði, að þeim yrði af létt. Þá skrifaði hæstv. ráðh. grein í Tímann, ég ætla að það hafi verið 13. ág. það ár, og komst svo að orði. að frá sínu sjónarmiði ætti það ekki rétt á sér að létta af innflutningshöftunum eða lina á þeim frá því, sem verið hefði, þótt nú væru bættar horfur í bili.

Á þessum tíma eru bankarnir þegar farnir að safna miklum innieignum í Englandi, Í sept. sama ár er hinn svokallaði frílisti gefinn út um ýmsar vörur frá Englandi. Var þá mjög fyrir því barizt að fá frjálsan innflutning ýmissa vara frá Englandi, svo sem á klæðnaðarvöru, skófatnaði og búsáhöldum. Var þá enginn skortur á þessum vörum í Englandi, og þær fengust með viðunandi verði. Brátt kom þó að því, að þær urðu nær ófáanlegar og stigu þá mjög í verði.

Síðan koma afskipti Breta af innflutningi til landsins til sögunnar. Þetta er nú allt umliðið, og þýðir lítið um það að deila.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að enginn skortur væri á nauðsynjavörum. Það er alveg rétt, að við höfum haft til næsta máls. En það er ekki það, sem um er að ræða, heldur hitt, að tryggja það, að við höfum birgðir lífsnauðsynja, ef eitthvað óvænt kemur fyrir. Það gæti svo farið, að siglingabann til landsins héldist jafnvel árum saman, og það er þetta öryggisleysi vegna ónógra birgða lífsnauðsynja, sem er háskalegra fyrir okkur en allt annað.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sér væri ekki kunnugt, hvaðan ég hefði þær upplýsingar, að Bandaríkin mundu sjá okkur fyrir dollurum.

Ég hef satt að segja þá vitneskju víða að, bæði úr blöðunum og í þinginu. Í Tímanum 1. nóv. er þetta t. d. gert að umtalsefni. Þar er svo að orði komizt, að ríkisstj. hafi um langa stund, og síðast í samráði við sendinefndina í Washington, reynt að koma því til leiðar, að Bretar borguðu sem mest af íslenzku vöruverði í Ameríku. Þetta hafi verið erfitt verk, því að Bretum hafi ekki verið mjög útfalir sínir dollarar. En nú sé svo komið fyrir milligöngu ríkisstj., að þessi mál hafi lokizt vel, og að þetta fagnaðarefni hefði og stjórnin getað tilkynnt þinginu sama dag og hún lagði fram lausnarbeiðni sína.

Úr þessari grein í Tímanum eru mínar upplýsingar í upphafi. Síðan er um þetta rætt í þinginu og loks drepur Tíminn enn á þetta 4. nóv., þar sem það er gert að umtalsefni, að hæstv. atvmrh. hafi sagt frá þessu í þinginu. — Þannig eru mínar upplýsingar fengnar, og má telja, að þetta sé víst, enda þótt ekki sé gengið fyllilega frá viðskiptasamningnum.

Ég get að sönnu viðurkennt, að hæstv. viðskmrh. hefur tekið öðruvísi í þetta mál nú en oftast áður og telur þess nú skammt að bíða, að mál þessi megi taka til rækilegrar yfirvegunar. Hins vegar virðist mér skorta greinargerð fyrir því, hvers vegna á nú að halda í innflutningshöftin. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Voru innflutningshöftin sett af öðrum ástæðum en gjaldeyrisvandræðum? Eru þessi vandræði ekki nú leyst?

Þegar innflutningshöftin voru sett, voru vandræði þau, sem af þeim leiddi, ekki eins hættuleg og nú á styrjaldartímum. — Nú getur stafað af innflutningshöftunum verulegur háski um öryggi okkar.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að svara því, hvenær frá hans sjónarmiði er hægt að gefa innflutninginn frjálsan, og eins því, hvort ríkisstj. hafi ekki ríkt í huga að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fá innfluttar nauðsynjavörur í ríkum mæli nú þegar.

Vill ríkisstjórnin einbeita kröftum sínum til þess að birgja landið upp af nauðsynjavörum? Almenningur lætur sig þá hlið málsins mestu skipta.