18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (441)

23. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. 5. þm. Reykv. gerði að umtalsefni afstöðu mína til þessara mála árið 1940. Hann sagði, að afskipti Breta af innflutningi til landsins hefðu ekki hafizt fyrr en frílistinn var gefinn út. — Afskipti þeirra hófust miklu fyrr, meira að segja 1939, við samningana í London, gerðu, þeir það að samningsatriði, að viðskiptahömlunum væri haldið.

Nú vildum við gjarnan reyna til hlítar, hvort Bretum væri hér full alvara, og því gáfum við út frílistann. Satt að segja héldum við, að hér væri meira um formsatriði að ræða, En þetta fór á annan veg en við ætluðum.

Það er misskilningur, að ég hafi sagt í ág. 1940, að ég teldi rangt að breyta í nokkru um innflutningsmálin, þótt ég vildi ekki láta afnema innflutningshöftin alveg eins og þá stóð.

Það má deila um það, hvort innflutningur af vissum vörutegundum hefði orðið meiri, ef frílistinn hefði verið gefinn út fyrr. Ég tel vafasamt, að svo hefði verið, t. d. hvað vefnaðarvöru snertir, því að þá voru gefin út mjög aukin innflutningsleyfi, og leyfi fyrir búsáhöldum voru t. d. ekki notuð að fullu. Innflutningur frá Bretlandi hefur verið mikill af þessum vörum, og nú eru meiri birgðir í landinu en verið hefur um margra ára skeið, en hv. þm. skaut því fram, að þessar vörur hefðu orðið nær ófáanlegar í Bretlandi, þegar því tækifæri var sleppt 1940, sem þá var til að afla þeirra.

Hv. þ.m. sagði, að nú væri það aðalatriðið, að ríkisstj. sneri sér að því að tryggja landinu nægar nauðsynjavörur.

Ég vil geta þess, að öflun kornvara, nýlenduvara, hráefna og efnivara og annarra nauðsynja hefur aldrei verið heft, heldur þvert á móti allt gert til þess að auka innflutning þeirra.

Hitt er rétt, að takmarkanir af hálfu Breta hafa komið fram á ýmsum öðrum vörutegundum, og hefur ríkisstj. mikinn áhuga fyrir því að fá þessu breytt.

En gjaldeyrismálin liggja ekki eins ljóst fyrir og hv. þm. heldur, þótt þess sé að vænta, að ekki verði langt að bíða, að úr rætist.

Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn hv. þm., hvort ríkisstj. mundi gera ráðstafanir til þess, að fluttar yrðu inn vörur svo sem unnt er, vil ég upplýsa, að ríkisstj. hefur alltaf stutt að því svo sem mest má verða, að nauðsynjar flytjist til landsins, og því mun hún halda áfram.