12.11.1941
Efri deild: 14. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (454)

6. mál, stimpilgjald

Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. fjhn. hefur haft. þetta frv. eitt mála til meðferðar nú um mánaðartíma, en hefur ekki fært það til betra vegar, heldur vill hún vísa því frá, og er ekki einu sinni gert ráð fyrir, að ríkisstj. skili málinu á næsta þingi, heldur bara einhvern tíma í framtíðinni.

Ég verð að segja, að það var ýmislegt í ræðu hv. frsm., sem vakti athygli mína. Það getur margt verið rétt, sem hann sagði, en má þá ekki ráða bót á vanköntum frv.? Ástandið í þessum efnum er óviðunanlegt. Ég sýndi fram á það við 1. umr., að nú tapar ríkið af stimpilgjöldum svo hundruðum skiptir við hverja sölu. En sölur eru mjög tíðar, eins og menn vita. Þeir, sem græða, eru húsaspekúlantarnir, er þeir þurfa ekki að geta um verðið, en farið er eftir fasteignamatsverði. En allir vita, að verð fasteigna hér er tvöfalt eða jafnvel þrefalt á við fasteignamatsverð. Það mætti þá, þangað til hægt yrði að ganga frá málinu með nýjum stimpillögum, hafa almennilegt eftirlit með þessum málum. Líka er hægt að taka drengskaparyfirlýsingu af mönnum. Ég skal ekki segja, að hvaða gagni slíkt kæmi, en það er þó oft gert. Mér finnst sjálfsagt að reyna þá leið, sem í frv. felst, og treysta því, að fjmrn. hafi rækilegra eftirlit með þessu en áður.

Um ákvæði varðandi skip er það að segja, að þau vantar alls ekki. Og ef ekki kemur fram frá fjmrn. sérstök lögskýring, sem gengur í aðra átt, þá er vafalaust, að innheimtumennirnir taka það raunverulega verð sem grundvöll fyrir álagningu stimpilgjaldsins.

Það getur vel verið, að það sé ekki fjarri sanni að taka þetta ráð, sem bent hefur verið á, að hafa fasteignamatsverðið fyrir grundvöll, en hækka jafnframt stimpilgjaldið til muna.

Ég yrði þakklátur, ef einhverjir vildu benda á hagkvæmar leiðir til umbóta á þessu frv., og ég veit, að fjhn. hefði getað gert ýmsar umbætur á því, ef vilji hefði verið fyrir hendi. Og ég vænti þess, ef frv. verður vísað til 3. umr., að n. sjái sér fært að taka málið til yfirvegunar.

Eins og hin rökst. dagskrá er, sé ég mér ekki fært að vera með henni, hvorki vegna efnis né orðalags. Ég tel sjálfsagt að láta ekki þetta ófremdarástand standa lengur og að þessu verði kippt í lag sem fyrst.