12.11.1941
Efri deild: 14. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (457)

6. mál, stimpilgjald

Magnús Gíslason:

Hv. flm. hélt því enn fram, að þetta frv. væri fram komið vegna þess ástands, sem skapazt hefði vegna mismunar kaupverðs og fasteignamatsverðs, og að það kæmi fyrir, að greitt væri stimpilgjald af lægra verði en söluverði.

Það má segja, að núverandi ástand hafi hrundið þessu af stað, en það hefði verið ástæða til að endurskoða þetta fyrr en gert hefur verið, og ef það verður ofan á, sem fjármálaráðuneytið hefur í hyggju, en það er sú grundvallarbreyt. að miða stimpilgjaldið við fasteignamat, þá fæst væntanlega hér úrbót á. Ég fyrir mitt leyti er ekki sannfærður á þessu stigi um það, að rétt sé að fara inn á þá braut að leggja mismunandi gjald á eftir því, hvaða tegund fasteigna um er að ræða, því það er órannsakað mál t. d., hvort jarðir hafa ekki stigið í verði og eigi eftir að stíga eins mikið og hús.

Hv. 1. þm. N.-M. var með athugasemdir í garð ríkisstj. fyrir að hafa ekki borið frv. um breyt. á stimpill. fyrr fram. Þessu vil ég aðeins svara því, að ég var búinn að gefa á þessu þá skýringu, að málið væri til athugunar með það fyrir augum að leggja það fyrir næsta þing. Það var ekki búizt við, að þetta mundi standa svo lengi, að hægt yrði að koma slíku frv. fram, enda var það ekki svo undirbúið, að unnt væri að koma með það nú.

Hv. þm. sagði, að núverandi ástand væri óviðunandi, þar sem nær aldrei væri gefið upp rétt verð. Ég þori að fullyrða, að þessi staðhæfing nær ekki nokkurri átt. Ég hef sjálfur fengizt við stimplanir í 20 ár og veit af örfáum tilfellum, þar sem ekki var gefið upp hið rétta verð. Það má þó vera, að nú séu meiri brögð að þessu en áður var. En úr því hv. þm. fannst þetta ástand svona óviðunandi, hvers vegna var hann þá ekki búinn að skora á stj. að breyta þessu? Ég efast sannast að segja um, að hv. þm. hafi möguleika til að vita með vissu um það, sem hann sló hér fram, og þetta sé því hreinn og beinn sleggjudómur hjá honum.