12.11.1941
Efri deild: 14. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (459)

6. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég vil aðeins út af því, sem hv. flm. sagði, að oft væri ekki gefið upp rétt söluverð, segja nokkur orð. Má vera, að svo sé í einstaka tilfelli, en þess munu færri dæmi. Ég hef nýlega verið riðinn við stóra fasteignasölu hér í bænum, og þar var kaupverðið 3 til 4 sinnum hærra heldur en fasteignamatsverðið, en var þó gjafverð. Þó að þessi löggjöf sé oft svikin, er ekki óalgengt, að rétt verð sé gefið upp. En hins vegar, á slíkum tímum, sem nú standa yfir, er enginn vafi á, að það er töluvert af fé landsmanna, sem ekki kemur til skatts. Það liggur í augum uppi, að kaupandi og seljandi fasteigna hafa nóga möguleika til að fela hluta af eignum sínum, svo að þær komi ekki til skatts. Ég veit ekki, hvernig á að koma í veg fyrir slíkt samkomulag milli manna, en það er þýðingarlaust að ætla að bæta úr því með brbl. Í frv. stendur, að sé fasteignamatsverð ekki gefið upp, skuli það vera áætlað. En þeir menn, sem hefðu innræti til þess, þyrftu ekki annað en gefa upp það verð, sem þeir hefðu komið sér saman um, þó að það færi langt niður úr öllu valdi.

Þetta finnst mér ófært, og ég vil beina því til ríkisstj., þegar hún býr þetta mál undir næsta þing, að þá verði till. hennar a. m. k. á þann hátt, að þær gangi jafnt yfir alla.