20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (483)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Eins og sést á brtt. minni á þskj. 2, er hún viðbót við þáltill., um að einnig verði séð um eyðingu tundurdufla, sem rekið hefur á land. Þetta mál er þannig vaxið, að strandlengjan sunnanlands, t. d. í báðum Skaftafellssýslunum, er þakin tundurduflum, og menn vita ekki, hvort þau eru óskaðleg eða lífshættuleg. Það er því skylt að gæta allrar varúðar, en hins vegar hefur yfirstjórn setuliðsins ekki viljað, að Íslendingar fengjust við eyðingu duflanna, en lofað því, og jafnvel krafizt þess, að þeirra menn ynnu að þessu. Á þessu hefur orðið mikill misbrestur eins og á ýmsu fleiru, og ekkert hefur verið gert í marga mánuði. Duflin liggja á fjörum almennings, svo að menn geta ekki sótt verðmæti á fjörurnar né farið þangað nauðsynlegra erinda. Ég hef vikulega gert kröfur um leiðréttingu á þessu, en til einskis. Ég hef haft samráð við forstjóra skipaútgerðarinnar og veit, að hann hefur jafnharðan tilkynnt stjórn brezka setuliðsins um málið. Mér er kunnugt um, að hann hefur átt tal um þetta bæði við brezka setuliðið og ríkisstj. og einnig skrifað um málið og stungið upp á þeirri aðferð, að setuliðið veiti Íslendingum tafarlaust tilsögn um eyðingu duflanna. Þó að margir Íslendingar telji vel gerlegt að framkvæma þetta, má ekki flana að neinu. Setuliðið hefur og tekið vel í þetta, og má vera, að málið sé komið á góðan rekspöl, en ég vildi þó láta till. mína koma fram, ef það kynni að flýta framkvæmdum.

Ég skal geta þess, að nú rekur á fjörur ýmiss konar verðmæti, t. d. trjávið, og það er ekki lítilsvert að vera við til að bjarga því, en ég hef ekki viljað taka ábyrgð á því að láta menn fara fjöruferðir vegna hættunnar af sjóreknum tundurduflum.

Það var borið fram í fyrstu, að sjórekin tundurdufl væru óskaðleg, en nú vita menn, að þau springa stundum í lendingu, og fjöldi þeirra er þannig, að menn geta ekki áttað sig á, hvort þau eru skaðleg eða ekki. Það er því mikil nauðsyn til að gera einhverjar ráðstafanir í þessu efni, sem að haldi mega koma.