20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (485)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Finnur Jónsson:

Eftir að Bretar höfðu lagt tundurduflum fyrir Austfjörðum, hefur það sýnt sig, að þau lágu ekki kyrr, en því hefur verið haldið fram af hálfu herstjórnarinnar, að þau væru óskaðleg, ef þau slitnuðu upp. Að vísu hafa ekki orsakazt af þeim slys hér við land, svo að menn viti. Hins vegar er vitað, að mjög mörg af þeim hefur rekið, og hafa sum sprungið í lendingu. Brezka herstjórnin hefur átt að sjá um, að þau tundurdufl, sem ræki á land, væru eyðilögð, en á því hafa verið misbrestir. Því var það, að ég bar fram þá áskorun á fundi Slysavarnarfélagsins, að Þór yrði settur í tundurduflaveiðar um síðustu áramót. Það var gert, og hefur sýnt sig, að þess var mikil þörf, og eftir því sem lengra líður, hefur það sýnt sig, að ekki er nóg að hafa til þess eitt skip. Ég vil því mjög mæla með þessari till., en jafnframt vil ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort athugað hafi verið, hvort Bretar fengjust til að greiða a. m. k. eitthvað af þessum kostnaði, því að það er kunnugt, að þeir hafa lagt tundurduflum á fiskimið okkar, og meginhlutinn af þessum duflum, sem eru hér á reki á siglingaleiðum og fiskimiðum, er brezkur. — Sýnist ekki ósanngjarnt, að Bretar legðu fram fé í þessu skyni, enda þótt það kunni að vera í samræmi við alþjóðalög, að á stríðstímum sé tundurduflum lagt á vissum svæðum utan landhelgi. Það er vitað, að mikinn kostnað hlýtur að leiða af því fyrir ríkissjóð að gera miðin nokkurn veginn fær skipum og eins að hreinsa strendur landsins af þessum ófögnuði.

Ég vil því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort leitað hafi verið eftir því hjá Bretum, að þeir tækju þátt í þessum kostnaði, án þess að ég vilji á nokkurn hátt láta það standa í vegi fyrir frekari framkvæmdum, því að aðalatriðið er að fá hér bót á ráðna.