20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (487)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hef litlu við að bæta þann rökstuðning, sem fram hefur komið við þessa till., en vil aðeins undirstrika það, sem hv. frsm. sagði um nauðsyn þess að hraða þessu máli. Hann benti á það, sem nú er kunnugt, að mikið af tundurduflum er á reki umhverfis landið. Hauststormarnir hafa leyst þau úr tengslum, eins og við mátti búast. Það er tvímælalaust, að þeim aðferðum, sem nú eru hafðar við tundurduflaveiðar, er aðeins hægt að beita á björtum degi. Það fer þannig fram, að reynt er að skjóta þau í kaf. Getur það oft tekið alllangan tíma, og fer það að sjálfsögðu mikið eftir því, hversu öruggir menn eru að hitta í mark.

Á það hefur verið bent, að ófullnægjandi sé að hafa aðeins tvö skip við þetta starf. Eftir því sem ég veit bezt, hefur öðrum bátnum verið ætlað takmarkað svæði við Suðurland, en hinn hefur að mestu leyti verið við Austurland. Ég vil enn fremur benda á, að tundurduflarekið hefur ekki verið hvað minnst við Norðurland, Húnaflóa og Skagafjörð og alla leið austur að Langanesi, og efast ég um, þegar svo stuttur er dagur sem nú er orðinn, að einn bátur til viðbótar fullnægi þessari þörf, meðan tundurduflarekið er svo mikið sem það er nú. Þetta vildi ég, að hv. n. kynnti sér hjá þeim aðilum, sem gerst eiga að vita um þessi mál, en það er náttúrlega í fyrsta lagi forstjóri Skipaútgerðar ríkisins og svo þeir aðrir, sem þar koma til greina, eins og brezka sjóliðsstjórnin. Og eins og hv. þm. V.-Sk. rökstuddi svo vel, þá er hættan af tundurduflum, sem rekið hefur, sízt minni, og má sennilega vænta þar skjótra aðgerða, að þau verði eyðilögð, jafnóðum og þau verða landföst.

Ég vil að síðustu undirstrika það, sem kom ekki nægilega skýrt fram í umr., að svo mikil hætta sem fiskiveiðunum stafar af rekduflunum, þá stafar siglingunum engu minni hætta af þeim, hvort sem er um að ræða strandferða skipin eða önnur skip, sem þurfa að sigla um þessi svæði. Og þótt menn geri lítið úr þeirri hættu, sem stafar af rekduflunum, sbr. skýrslu brezkra sérfræðinga, þá eru um það skiptar skoðanir manna, sem telja sig hafa vit á þessu. Ég játa mína fáfræði í þessu, en ég hef lesið grein eftir danskan sérfræðing, sem hann gaf át til leiðbeiningar fyrir dönsku þjóðina í byrjun stríðsins. Hann sagði, að gera mætti ráð fyrir 10% hættu af rekduflum.

Ég vildi láta þessi orð falla, aðallega til þess að leggja áherzlu á, að málinu yrði hraðað, svo að hægt yrði nú þegar að auka skipakost í þessu augnamiði, meðan dagur er þetta langur og eins mikið af rekduflum og nú er. Vænti ég að n., sem fær málið, sýni því í fullan skilning og velvild.