10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (489)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Eftir að þessari þáltill. hafði verið vísað til fjvn., tók hún málið til athugunar mjög fljótlega og kynnti sér eftir beztu föngum allan aðdraganda og gang málsins. Til þess að fá fyllstu upplýsingar um þetta, þá sneri n. sér til þess manns, sem ríkisstj. frá öndverðu fól að hafa á hendi eftirlit og framkvæmdir á eyðingu tundurduflanna, en það er forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, Pálmi Loftsson. Lét hann n. í té þær upplýsingar í þessu máli, sem getið er um í því áliti, er n. hefur gefið út og liggur nú hér fyrir á Alþ.

Þessar upplýsingar sýna það, að þegar í stað, er hætta fór að stafa af hinum miklu tundurduflalagningum á vissum svæðum við strendur landsins, var hafizt handa um að draga úr hættunni eftir því, sem frekast var kostur á. Þessi hætta virðist hafa farið ört vaxandi, þannig að þau tundurdufl, sem lögð voru fyrir Austurlandi, hafa slitnað upp og rekur um siglingaleiðir umhverfis strendur landsins. Eins og upplýsingarnar bera vott um, er þegar búið að setja í 5 af þeim skipum, sem ríkið á og rekin eru til strandgæzlu, — og auk þess í björgunarskipið Sæbjörgu, — áhöld til þess að slæða og eyðileggja tundurdufl. Hafa skipin unnið að þessu starfi, — en þó eigi að staðaldri, sökum annarra aðkallandi verkefna.

Annar þáttur þessa máls, sem einnig er fjallað um í þessari till. til þál., og er þangað kominn samkv. brtt. frá hv. þm. V.-Sk., er flutt var hér á fyrra stigi þessa máls, er sá; að eyðileggja þau tundurdufl, sem rekur á land.

Það er vitanlega mikil þörf á því að eyðileggja þessi dufl eða gera þau óvirk, eins og það er kallað, því að af þeim getur stafað mikil hætta. En þetta mál hefur nokkru lengri aðdraganda en eyðing tundurdufla á sæ úti, sem stafar af því, að Íslendingar kunna ekki til þeirra starfa að gera duflin óvirk, og hefur því þurft að sækja fræðslu í þessu efni til útlendra manna. Fjvn. var tjáð, að nú væri lausn fengin á þessu atriði, og að þegar væri hafizt handa um eyðilegging þeirra dufla, er á land hefðu borizt.

Nú kemur það fram í þessari till. til þál., að þrátt fyrir þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og nú er lýst, þá þykir sá skipakostur, sem eyðir tundurduflum við strendur landsins, engan veginn fullnægjandi. Þess vegna er þessi þáltill. flutt, að ætlazt er til, að bót verði ráðin á þessu og að á hverjum tíma sé fyrir hendi nægilegur skipastóll til þess að bægja hættunni frá sjófarendum. N. fellst að sjálfsögðu alveg á þá nauðsyn, sem er fyrir hendi í þessum málum, og mælir þess vegna mjög eindregið með því, að orðið sé við þessum till. eftir því, sem frekast eru föng á á hverjum tíma. — Fjvn. hefur einnig rætt málið við ríkisstj., — eða þá ráðh., sem það heyrir einkum undir, og hafa þeir tekið mjög vel í málið og heitið fullum stuðningi sínum til frekari aðgerða.

Mér þykir svo ekki ástæða til að hafa fleiri orð um þetta, en vil fyrir hönd fjvn. mæla hið bezta með því, að þessi till. til þál. verði samþ. og að unnið verði að framkvæmd þessa máls í anda þeirrar samþykktar, sem till. væntanlega fær hér á Alþ.

N. hefur gert lítils háttar orðabreyt. á till. Fannst n. fara eins vel á því að orða svo sem hér er gert, en í þessu felst engin efnisbreyt.