20.11.1941
Sameinað þing: 15. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hjó eftir því hjá hæstv. forseta, að tilætlunin væri að slíta Alþ. fyrir hádegi á morgun. Ef ljúka skal afgreiðslu þeirra mála, sem eru á dagskrá, mun það taka alllangan tíma. Nú er mér kunnugt um það, að allmargir utanbæjarþingmenn hyggja til ferðar á morgun, og má gera ráð fyrir, að þeir eigi ekki hægt um vik að sitja nú lengi á fundi. Enn er það, að þótt þessi mál fengjust afgreidd, eru ýmis mál, sem margir meðal þm. bera fyrir brjósti, og mun þeim þykja sinn hlutur nokkuð skertur, ef þessum málum og eigi fleirum verðurlokið á þinginu. Mætti þá sýnast bezt fara á hinu, að gera þar hlut allra jafnan. Allmargir þm., sem önnum eru kafnir undir burtför sína, hljóta nú að verða fjarverandi í kvöld, en þá geta úrslit málanna oltið á nokkurri tilviljun. Af þessum ástæðum öllum sýnist mér ekki hyggilegt að taka fyrir þau mál, sem á dagskrá eru, til afgreiðslu í kvöld. Mun ég gera það að till. minni við hæstv. forseta, að hann athugi, hvort eigi muni rétt að taka þau öll af dagskrá og eitt sé látið yfir alla ganga, — eftir því sem atvik standa nú til.

Ég býst ekki við, að hæstv. forseti geti á þessa till. fallizt nema bera hana undir atkv. og fá fram vilja Alþ. um hana. En ég vona, að hv. þm. sé ljóst, hve sterkar ástæður mæla með till., og gjaldi henni jáyrði.