19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (503)

24. mál, skyldusparnaður

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) :

Herra forseti! Þegar dýrtíðarmálin voru til umr. á Alþ. núna og frv. voru lögð fram vegna dýrtíðarinnar, þá fannst mér vanta þar atriði, sem ég hygg, að athuga beri, ekki sízt, heldur fyrst og fremst. Það er, á hvern hátt sé hægt að stöðva þá peningaveltu, sem nú er í landinu, og taka eitthvað af peningum úr umferð. Um þetta hefur hvorki verið rætt í blöðum né annars staðar, og er því sjálfsagt núna, að þetta verði tekið til athugunar, þegar ríkisstj. ætlar að fara að fást við vandamál þau, er nú steðja að. Þess vegna hef ég leyft mér að hera fram þessa till. til þál., sem nú er til umr.

Ég geng þess ekki dulinn, að þessi leið, sem ég vil fara, muni vekja óvinsældir, ef eitthvað verður úr framkvæmdum, en ég veit einnig, að þegar menn athuga málið, þá sjá þeir, hversu nauðsynlegt er að gera eitthvað svipað þessu. Sérstaklega á þessum vandræðatímum, sem nú eru, þá verður að gera fleira en gott þykir í svipinn. Við munum það mjög vel, hvernig það gekk í heimsstyrjöldinni síðustu, að þá urðu afar miklar verðsveiflur einmitt hjá okkur hér á landi, því það kom mikið peningaflóð til okkar þá. Við kunnum ekki vel að fara með peninga þá, eins og oft vill verða, þegar fátæklingar komast yfir miklar fjárfúlgur; þeir vita ekki almennilega, hvað þeir eiga að gera við peningana, og verður þá afleiðingin sú, að féð vill undrafljótt fara forgörðum. Því að það verðum við að viðurkenna, að einmitt það, hversu mikið flæddi hér inn þá af peningum, það hafði þær afleiðingar, að vinnusemi og sparsemi landsmanna beið þar alvarlegan hnekki, og fjárhagur þjóðarinnar eftir stríðið og þeirra, sem stunduðu framleiðslu, fór þess vegna ört versnandi. Og þegar yfirstandandi heimsstyrjöld brauzt út, var allt komið í kaldakol hjá okkur, lánstraustið glatað og hrun atvinnuveganna yfirvofandi, þrátt fyrir allt það fé, sem okkur hafði áskotnazt í síðustu styrjöld. En nú er vitanlegt, bæði innan þings og utan, að þessi styrjöld, sem nú geisar, er margfalt ógurlegri heldur en sú, sem þá geisaði. Glötun verðmæta er margfalt meiri í þessari styrjöld og einnig hættan fyrir land vort og þjóð, hættan fyrir sjálfstæði og fjárhag okkar er margfalt meiri nú en hún var þá. Og það er líka auðsætt á því, sem hingað til hefur fram komið, að hið fjárhagslega bylting verður svo margfalt meiri nú heldur en hún var í síðustu styrjöld. Og ef ekki verður gert eitthvað í þeim efnum, og það sem flest og sem róttækast, liggur mér við að segja, þá lendir nú í sama farinu og enda verra heldur en eftir hina heimsstyrjöldina. Menn hafa nú, eins og sakir standa, meiri peninga milli handa hér á landi heldur en þeir hafa nokkurn tíma haft áður. Og mikill þorri þeirra manna hefur meiri peninga undir höndum heldur en hollt er; því að það er gamalt máltæki, að það þurfi sterk bein til að þola góða daga, og sérstaklega finnst mér, að þurfi að bera kvíðboga fyrir ungu kynslóðinni og reyna að sjá um, að hún úrkynjist ekki við þetta mikla peningaflóð, sem nú er hér hjá okkur. Því að það er mikil hætta á því, að einmitt hjá ungu kynslóðinni verði afleiðingin af þessu peningaflóði eyðslusemi, og mér liggur við að segja leti líka, sem sigli þar í kjölfarið. Og ég álít, að við hinir eldri og við, sem höfum fylgzt með því, hvernig það gekk eftir síðustu heimsstyrjöld, bregðumst skyldu okkar, ef við á þessum velmegunartímum ölum ungu kynslóðina upp í óhófi og eyðslusemi og ætlumst svo til þess, að hún með slíku veganesti verði fær um að kljúfa erfiðleikana og skuldabaslið, sem óhjákvæmilega kemur eftir á, ef ekkert er að gert. Fjárhagur manna er yfirleitt sæmilegur nú sem stendur. Margir hafa komizt úr skuldum og erfiðleikum og atvinnuvegirnir standa nú nokkurn veginn á föstum fótum; og það má segja líka, að ýmsir hafi gætt sparnaðar. Það sýnir það, að fé til geymslu í sparisjóðum hefur aukizt gífurlega á þessum tímum. En samt sem áður er það svo, að mikill þorri manna hefur ekki farið þá braut að leggja fé sitt á sparisjóði, heldur eytt því og keypt fyrir það ýmist þarfa hluti eða óþarfa, sem eru heilsuspillandi jafnt og heilsubætandi. Og þess vegna er það, að þeir einmitt, sem hafa lagt fé á vöxtu, eru orðnir hræddir um það, að peningar verði orðnir verðlitlir eftir nokkurn tíma, ef svona heldur áfram. Mér er kunnugt um það, að ýmsir verkamenn og sjómenn og bændur líka, sem hafa lagt fé sitt á vöxtu og ætlað sér að búa sér betur í haginn að stríðinu loknu, t. d. með húsbyggingum og öðru slíku, þeir eru orðnir hræddir um, að peningar verði þá kannske einskis virði. Og þess vegna er hætta á, að þeir sömu menn fyllist ótta um verðgildi peninganna og komi þá í þann hópinn, sem hefur sýnt, að hann er frekar fylgjandi eyðslusemi heldur en sparnaði. Og þegar svo er komið, þá veit maður það, að eftirspurnin er margfalt meiri eftir vörum heldur en framboðið á þeim, og mönnum stendur þá yfirleitt á sama, hvað varan kostar, bara ef hún fæst. Eru mýmörg dæmi um það nú í daglega lífinu, sem sýna, að það er ekki verið að hugsa um peningana, þegar hluturinn er keyptur, hvort sem hann er þarfur eða óþarfur.

Ég álít þess vegna, að fyrsta skilyrði til þess að geta haldið dýrtíðinni niðri sé að taka peningana úr umferð og minnka þannig kaupgetuna meðal almennings. Við verðum líka að gæta þess, að eftir því sem við höldum lengur áfram á þessari braut, þá eigum við erfiðara með það, þegar móti blæs, að láta á móti okkur ýmislegt það, sem við höfum vanizt á, þegar við höfum haft nóg handa á milli af peningum. Það verður erfiðara fyrir atvinnuvegina og fyrir alla framleiðslu að halda í horfinu seinna meir, þegar við erum búnir að læra að lifa yfir efni fram, ekki aðeins við hinir fullorðnu, heldur líka kynslóðin, sem á að taka við af okkur.

Eins og ég hef getið um í grg. þessarar þáltill. minnar, þá álít ég, að það væri hægt að fara þessar tvær leiðir í þessum skyldusparnaði: Í fyrsta lagi þá leið að skylda menn til þess að leggja fé á vöxtu í sparisjóði og líka skylda menn til þess að kaupa ríkisskuldabréf, og hvort sem menn ættu fé í sparisjóði eða hjá ríkinu, þá væri þetta fé vaxtalaust. Og mér finnst, að einmitt þessar tvær leiðir mættu sem bezt fara saman, þannig að helmingurinn af því fé, sem af hverjum manni er tekið til þess að skylda hann til að spara það, væri lagt í sparisjóð, en hinn helmingurinn hafður til þess að kaupa fyrir ríkisskuldabréf. Ég ætlast til, að það komi engin spákaupmennska eða brall til greina með þessar innstæður, hvort sem þær eru í sparisjóðum eða ríkisskuldabréfum, þannig að menn gætu ekki selt þetta eða veðsett, heldur væri það raunverulega geymt þar til fær í að blása á móti, svo að menn hefðu þar einhverju að að hverfa, þegar atvinnuleysi kæmi, og einnig, að ríkissjóður hefði þar að einhverju að hverfa líka, þegar vandræði kæmu hjá honum.

Með þessu móti vinnst þrennt: Í fyrsta lagi það, að sparisjóðirnir þurfa ekki að svara vöxtum af þessu fé, sem kæmi inn til þeirra; en nú er það þannig hjá mörgum sparisjóðum, a. m. k. hjá þeim smærri úti um land virðist það vera þannig, að þeir ýti ekki undir menn með að leggja fé á vöxtu hjá þeim, heldur kannske þvert á móti, af því að þeir tapa stórfé við að borga vexti af innstæðum, þegar útlán eru jafnlítil og þau eru nú. En við vitum allir, hvílík nauðsyn er á því, að sparisjóðirnir hafi nægilega trygga afkomumöguleika, nú á þessum tímum, því að þeim mun tryggara og betra verður allt á fjármálasviðinu í landinu, sem þeir eru traustari og öflugri. Í öðru lagi mundi ríkissjóður mynda sér þarna álitlegan sjóð, sem hann gæti gripið til, þegar erfiðleikar steðjuðu að, þegar atvinnuleysið kemur og örbirgðin, sem ábyggilega siglir í kjölfar þessarar styrjaldar að henni lokinni. Í þriðja lagi, eins og ég gat um, mundi einnig kaupmáttur minnka og þar með dýrtíðin um leið. Ég er líka viss um, að það mundi koma ýmsum bæjar- og sveitarfélögum vel, þegar færi að blása á móti þeim líka, að geta fengið hjá ríkissjóði lán úr þessum sjóði til ýmissa framkvæmda hjá sér og til þess að halda uppi atvinnuvegunum hjá þeim, þegar erfiðleikarnir kæmu og ekki væri hægt að ná nægilegu fé inn með útsvörum eða öðrum tekjustofnum, sem sveitarfélög og bæjarfélög hafa. En svo er ég líka sannfærður um það, og það er ekkert aukaatriði í þessu máli, að þessi tilhögun, ef farið væri að á svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir, mundi verða til þess, að minnka mundi aðstreymið úr sveitunum til þessarar svo kölluðu Bretavinnu í kaupstöðunum. Ég er viss um það, að þegar margir af þeim unglingum, sem leita til kaupstaðanna til þess að afla þessa fljótfengna fjár, mundu hugsa sig um tvisvar, hvort ekki væri réttara samt sem áður að búa að sínu í sveitinni heldur en að fara hingað, þegar þeir hefðu ekki fullar hendur fjár eins og þeir hafa nú. Því að það er vitanlegt, að margir þessara unglinga, sem koma úr sveitunum til þessarar vinnu, þeir vilja nota peningana fyrir hana til lystisemda hér í höfuðstaðnum og annars staðar þar, sem þeir eru við vinnu, og þeir hafa þannig ætlað sér að hafa þessa peninga að eyðslueyri. En ef peningarnir væru teknir af þeim með þessu tvennu móti, mundu þeir kannske hugsa sem svo, að réttara væri að búa í haginn fyrir sig sjálfa í framtíðinni með því að sitja kyrrir í sveitinni og halda framleiðslunni þar gangandi.

Ég er ekki í vafa um, að sumir munu hafa þá skoðun, að þessu mætti líka ná á þann hátt, að ríkissjóður geti myndað sér álitlegan sjóð, eins og ég ætlast til, með þessu móti, einnig á þann hátt að hækka skattana á almenningi, tekju- og eignarskattinn og annað því líkt. En við vitum það allir, að skattastefnan yfirleitt er mjög svo umdeild og óvinsæl. En slík skipan, eins og mér finnst að ætti að hafa á þessu máli, mundi taka af sárasta broddinn, þar sem þetta væri þó eign þeirra, sem það væri tekið af, eftir sem áður. Og í öðru lagi fyndist þeim — það vera miklu meiri þegnskapur, sem þeir sýndu, og mundu leggja fúsari meira af mörkum, ef það væri haft á þennan hátt, eins og ég hef minnzt á í grg. fyrir þáltill.

Og við vitum það, að ófriðarþjóðirnar hvetja til sparnaðar hjá sér. Hér á landi hefur furðu lítið verið gert að því að hvetja menn til sparnaðar. En þar er hvatt til sparnaðar, og ekki eingöngu, að menn séu hvattir til þess, heldur líka sums staðar komið á skyldusparnaði, eins og mun vera að nokkru leyti komið á í Englandi. En allt, sem þar vinnst með sparnaði, fer til þess að framleiða sem mest af drápstækjum og sem fljótvirkustum eyðileggingartækjum. En við ætlum okkur, ef við aðhyllumst þessa leið, sem ég hef minnzt á með þessari þáltill. minni, eins og hverri friðsamri þjóð sæmir, að byggja upp framtíð okkar eftir styrjöldina, þannig að við höfum ekki bundið fjárhagslegan bagga okkar eftirkomendum, heldur höfum við búið þá þannig undir framtíðina, að þeir hafi gott veganesti til þess að mæta erfiðleikunum, sem þá má búast við. Ég vona því, að þessi þáltill. mín fái góðar undirtektir í þessari hv. d. og að hún megi verða til þess, að hæstv. ríkisstj., þegar hún fer að ræða dýrtíðarmálin milli þinga, athugi þessa leið og rannsaki, hvort ekki sé hægt að framkvæma hana þannig, að fullkomið réttlæti skapist í þessum efnum líka. Því að mér er það vel ljóst, að það er mjög svo erfitt að koma á löggjöf í þessu efni þannig, að fullkomins réttlætis sé gætt og að ráðstafanir í þessu efni komi ekki illa niður. En ég ætlast líka til þess, að ríkisstj. — hún hefur svo góðum kröftum á að skipa — mundi þá leita til hinna færustu manna í þessu efni og mundi þá annaðhvort koma með frv. í þessa átt á næsta þingi eða þá a. m. k. gæfi hv. þm. öllum kost á að fá að vita um niðurstöður þær, sem komizt væri að við rannsókn á þessu máli, sem hún hefði þá látið fara fram á milli þinga.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Þessari þáltill. fylgir allýtarleg grg., þannig að ég veit, að allir hv. þm. hafa getað vel áttað sig á því, hvað ég meina með henni.