19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (504)

24. mál, skyldusparnaður

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér þykir hlýða að segja örfá orð við þessa umr. og gefa nokkrar upplýsingar um það, hvað fram hefur farið í ríkisstj. um það efni, sem þessi þáltill. fjallar um. Enn fremur drepa nokkuð á meðferð þessa máls innan Framsfl., en þar hefur það verið til meðferðar a. m. k. allt síðasta ár.

Í vetur, þegar verið var að undirbúa dýrtíðarfrv. það, sem ég þá lagði fram, var skyldusparnaður nokkuð ræddur í ríkisstj.; því að ég leit svo á, að lögleiddur skyldusparnaður gæti verið einn þáttur í lausn dýrtíðarmálsins. Ég benti þá m. a. á það, þegar svo var komið, að menn gátu ekki sameinazt um að afla tekna til dýrtíðarráðstafana með almennum sköttum, hvort ekki væri þá hægt í stað þess að fara inn á þá leið að setja löggjöf um skyldusparnað. Þessu var tekið þannig af sumum hæstv. ráðh. í ríkisstj., að sýnilegt var, að ekkert samkomulag gat fengizt um það mál á því þingi, og lét ég því þetta mál niður falla að sinni.

Síðan hefur málið verið til meðferðar innan Framsfl. Og nú í haust var gerð um þetta efni ályktun í flokknum og okkur ráðh. flokksins falið að láta undirbúa málið nánar.

Í sambandi við meðferð dýrtíðarmálanna í ríkisstj. í haust og í samræmi við þessa ályktun Framsfl. lagði ég fram till. um, að setja skyldi löggjöf um skyldusparnað. En sú till. fékk l. m. k. ekki þær undirtektir, að það væri ástæða til þess að halda, að slík löggjöf flygi í gegnum þingið. En þó var ekki hægt að segja, að þá væri bein andstaða gegn henni í þinginu.

Ég hef látið nokkra hagfræðinga vinna að því að athuga þessi mál og hafði hugsað mér, í framhaldi af þessari skoðun minni og flokksins, að þeir störfuðu að því til næsta þings og gerðu sér staklega grein fyrir því, á hvern hátt þessi hugmynd yrði bezt framkvæmanleg. En bæði var það, að þessi athugun var ekki nægilega langt komin, því að málið er vandasamt, og eins hitt, að löggjöf um skyldusparnað má setja með fullum árangri á næsta þingi, — hvort tveggja varð þetta til þess, að ég hef ekki beitt mér til þess, að frv. um þetta kæmi fram á þessu haustþingi. Þetta vildi ég, að kæmi fram, til þess að sýna, að í Framsfl. hefur þessi hugmynd verið sérstaklega til meðferðar; og við höfum þráfaldlega komið fram með hana í ríkisstj., þó að ekki hafi sá árangur af því orðið, að frv. um þetta efni hafi komið fram. Þetta mál hefur því verið nokkuð athugað og er í frekari athugun nú sem stendur, að tilhlutan minni.

Það eru sérstaklega tvenns konar ástæður til þess, að ég hef um skeið haft áhuga fyrir setningu löggjafar af þessu tagi og að koma frv. um hana á framfæri, og þær eru nokkuð svipaðar í meginatriðum því, sem kom fram hjá hv. þm. Hafnf. Önnur er sú, að það er tvímælalaust spor í rétta átt að draga fé úr umferð með því að lögleiða skyldusparnað. Hins vegar mega menn auðvitað ekki villast á því, að það er þó ekki tæmandi eða einhlít ráðstöfun gegn verðbólgunni í landinu, sem nú á sér stað, heldur aðeins einn liður í því að vinna gegn henni og áreiðanlega spor í rétta átt. Þetta hefur verið önnur meginástæðan frá mínu sjónarmiði. Hin ástæðan hefur ver ið sú, að ég fyrir mitt leyti er ákaflega hræddur um það, að margt af því fólki, sem nú fær fjármuni í hendur, geri mjög lítið að því að leggja þá til hliðar, og muni sjá beizklega eftir því síðar að hafa ekki gert meira að því að spara heldur en nú á sér stað hjá mörgu þessu fólki. Nú eignast margt ungt fólk mikið fé, sem því gæti síðar komið að notum til heimilamyndunar eða til þess að koma á fót atvinnurekstri í einhverri mynd, ef þetta fé væri lagt til hliðar. En margt af þessu fólki notar þessa fjármuni þannig, að það væri betra fyrir það sjálft, að það væri skyldað til að leggja nokkuð af þeim til hliðar. Og þetta fólk mun síðar sjá, að það hafi verið því til góðs að vera skyldað til að leggja þetta fé til hliðar, ef það verður að framkvæmd, að slíkur skyldusparnaður komist á, hvernig sem það kynni að snúast gagnvart þeirri ráðstöfun nú. Má búast við, að því finnist það kvöð eins og nú stendur, en síðar mundi það verða ánægt með þá ráðstöfun.

Ég er að þessu leyti hv. flm. alveg sammála. En þá kemur spurningin, hvernig eigi að koma fyrir löggjöf eins og þessari. Ég hygg, að menn muni reka sig á, að þar muni koma upp ýmis vandamál. Ég get getið þess til upplýsingar, að skv. efni, sem ég hef viðað að mér, þá hafa verið sett í Englandi l. um skyldusparnað, og eru þau byggð upp á sérstakan hátt, sem sé þannig, að persónufrádráttur skattal. hefur nú verið stórlega lækkaður, en sá skattauki, sem mönnum hefur þannig verið reiknaður, er tilfærður sem innieign þessara manna hjá ríkissjóði Breta, sem verður greiddur þeim síðar. Þannig fara þeir að. Í raun og veru mundi það verða mest til að minnka verðbólguna, ef hægt væri að viðhafa þá aðferð, að menn legðu til hliðar af tekjum sínum jafnóðum og þeir vinna sér þær inn, því að þá er það fé undireins tekið úr umferð. Þessi aðferð er í raun og veru æskilegust, en ég hygg, að á henni séu slíkir agnúar, að hún sé vart framkvæmanleg. En reynist hún ófær, þá er helzt eftir sú leið að miða skyldusparnað manna við skattaframtal þeirra, og þá yrði það fé, sem spara ætti, tekið eftir á með sköttunum. En þetta hefur þann ókost, að þá kunna menn að vera búnir að eyða fénu að verulegu leyti og því erfitt fyrir menn að inna þetta framlag af hendi, en þó er það væntanlega þessi leið, sem kemur til athugunar í þessu sambandi.

Þá er annað atriði: Hvaða reglur á að setja um skyldusparnað? Hvað mikið á að leggja til hliðar, og við hvað á að miða? Hvort á að miða við nettótekjur manna, og hversu mikið tillit á að taka til fjölskyldu framfæranda o. s. frv.? Svo er eitt atriði, sem er talsvert veigamikið. Hvort á að skylda menn til að leggja til hliðar vissa hundraðstölu af þeim tekjum,. sem er umfram vissan persónufrádrátt, eða einhvern vissan hluta af þeirri tekjuaukningu, sem menn hafa fengið, síðan styrjöldin hófst? Er það að sumu leyti eðlilegast, en hefur að sumu leyti ágalla, því að þá þyrfti svo mikla rannsókn á skattaframtali hvers manns til þess að komast að laun um, hve mikið tekjur hvers manns hafa aukizt.

Á þessu sjá menn, að þótt menn aðhyllist hugmyndina um skyldusparnað, þá eru ýmis atriði, sem þarf að rannsaka, hafa verið rannsökuð að undanförnu og eru enn í rannsókn, þó að frv. hafi ekki enn þá verið lagt fram. En ég vildi í sambandi við þetta mál rétt drepa á þessi atriði til umhugsunar fyrir menn, svo að þeir átti sig á því, sem hér liggur fyrir.

Hv. flm. vék að þessu máli á þá lund, að menn kynnu að hafa ástæðu til að álíta, að lögboðinn skyldusparnaður gæti komið í staðinn fyrir skatta að verulegu leyti eða að öllu leyti í staðinn fyrir stríðsskatta. Má vera, að þetta hafi ekki vakað fyrir hv. flm., enda er verulegur munur á að leggja skatta eða leggja þannig á nokkurs konar þvingað ríkislán. Ég vil einnig taka fram, að þótt ég sé fylgjandi skyldusparnaði, þá er mér ljóst, að ríkið verður að tryggja, að ríkissjóður sjálfur geti bætt hag sinn á þeim tímum, sem nú eru, og sjálfur eignazt verulega sjóði til þess að standa undir framkvæmdum framvegis. Menn verða einnig að gera sér ljóst, að það er ekki fullnægjandi, þótt ríkið dragi saman fjármuni eingöngu með skyldusparnaði, sem ríkið yrði svo síðar að standa skil á. Það verður að finna meðalveg til að leggja á hæfilega skatta og lögbjóða einhvern hóflegan skyldusparnað, sem væri eins konar ríkislán, sem yrði skilað aftur að styrjaldarlokum. En á þessu er sá reginmunur, að þegar ríkissjóður ætti að skila aftur þessum lánum, yrði það að takast af skattatekjum eftir styrjöldina, og þess vegna mega menn ekki rugla þessu tvennu saman. Þess vegna verður þetta tvennt að haldast í hendur, en hitt getur verið álitamál, hversu langt eigi að ganga í hvoru fyrir sig og hversu langt í hvoru tveggja.

Það er enn fremur 1jóst, að því lengra, sem gengið er í að leggja skatta á, því skemmra verður að ganga í skyldusparnaðinum. Þetta verður því einnig að því leyti að athugast í nánu sambandi hvort við annað.

Mér finnst eiginlega megingallinn á því, hvernig þetta mál liggur fyrir nú, að þessi till. skuli vera borin fram í Ed., en ekki Sþ. Mér finnst ekkert óviðeigandi, að einhverjir hv. þm., sem kynnu að hafa áhuga á þessu máli, vildu hafa forgöngu um slíkt, sem mér skilst, að þyrfti engan veginn að reka sig á, þó að þessi till. hafi verið flutt í Ed. Enn fremur þætti mér fróðlegt að heyra skoðanir hæstv. ráðh. úr öðrum flokkum um málið, því að það hefur ekki verið rætt svo til hlítar í stj., að afstaða ráðh. sé augljós.

Ég vil því samkv. því, sem ég nú hef sagt, mæla með því, að þessi till. verði samþ.