19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (509)

24. mál, skyldusparnaður

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil aðeins, segja örfá orð út af ræðu hv. þm. Vestm.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. sé því kunnugastur í ríkisstj., hvort hægt muni vera að selja meira af ríkisskuldabréfum en gert hefur verið. Hann hefur fylgzt bezt með þeim lánum, sem þegar hafa verið boðin út. Það má vel vera, að hægt væri að selja meira af ríkisskuldabréfum á innlendum markaði, ef þau væru boðin til kaups. En ég vil bara benda á, að slíkt finnst mér ekki geta komið í staðinn fyrir skyldusparnað, nema að litlu leyti. Við skulum hugsa okkur, að það sé haldið áfram að bjóða út lán, — þá kaupa þeir helzt ríkisskuldabréfin, sem eru hvort sem er í þeim hug að spara og mundu spara jafnt fyrir því, þótt ríkisskuldabréfin væru ekki gefin út. Ég vil ekki bera á móti því, að tilboð á ríkislánum geti aukið sparnað eitthvað, en það, sem við er átt með skyldusparnaði, er það að fá þá til að spara, sem ekki mundu gera það að öðrum kosti. Ég er með því, að boðið sé út ríkislán til þess t. d. að standa undir skuldagreiðslum erlendis, en ég vil aðeins benda á, að mér finnst það ekki geta komið í staðinn fyrir skyldusparnað, eins og ég hef þegar tekið fram.

Varðandi það, að tryggja þurfi, að það fé, sem lagt yrði til hliðar, missti ekki mjög gildi frá því það er tekið af mönnum, þangað til því væri skilað aftur, þá vil ég segja það, að það er erfitt að gera sérstakar ráðstafanir til þess, en þetta sýnir bara, eins og hæstv. forsrh. tók fram, þá almennu nauðsyn, sem er á því að reyna að tryggja gengi íslenzku krónunnar, eins og mikið hefur verið rætt um og ekki er ástæða til að blanda einstökum atriðum hér inn í þessar umr., en það sýnir, hvað mikil nauðsyn er á því almennt að gera slíkar ráðstafanir, því ef ekkert er gert til þess, þá hverfur sparnaðarhvötin meira og meira hjá þjóðinni. Og ef engar ráðstafanir verða gerðar, þá gæti svo farið, að hv. þm. treystu sér ekki til að framkvæma lögboðinn sparnað, sem þeir annars væru meðmæltir.