03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (525)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Það mun hafa verið þann 24. f. m., sem brezk-íslenzki fisksölusamningurinn var til umr. á lokuðum fundi í sameinuðu þingi. Að því er ég man bezt, var fundurinn lokaður fyrst og fremst eftir ósk hæstv. stj., og þá auðvitað sérstaklega þess ráðh., sem þessi mál heyra undir. Daginn eftir birtist síðan í Morgunblaðinu frásögn frá gangi þessa máls hér á þingi, og stendur hún í blaðinu þann 25. f. m. M. ö. o., strax og fundi er lokið, þá er þessi fregn borin í Morgunblaðið, því að eins og ég sagði, þá kemur það með fregnina daginn eftir að fundurinn var haldinn.

Þar segir svo um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan hafa þessi mál verið rædd á lokuðum fundum í sameinuðu Alþingi: M. ö. o., blaðinu er fullkunnugt um, að þetta er lokaður fundur. „Eftir miklar umr. á þessum fundum Alþ. og allar upplýsingar komið þar fram varðandi þessi mikilvægu mál, var samþ., með atkv. allra viðstaddra þm. í öllum flokkum, að fráteknum kommúnistum, að taka ekki tilboði brezku stjórnarinnar um riftun samningsins. Kommúnistar greiddu ekki atkv., en munu þó efnislega ekki hafa verið þess fýsandi, að samningnum yrði riftað. Nær allir þm. voru viðstaddir, er atkvgr. fór fram.“

Hér er þess að geta, að jafnhliða því, að blaðið er þess vitandi, að það er að skýra frá því, sem gerzt hefur á lokuðum fundi, er frásögnin alls ekki tæmandi og á allar hliðar að ýmsu leyti hlutdræg. Öllum þeim þm., sem telja sig bundna gagnvart samþykktum Alþ. að segja ekki frá því, sem gerist á lokuðum fundum þar, er enginn kostur að skýra frá þessu máli, meðan þingið hefur ekki leyst þá frá þagnarskyldunni eða komið fram ábyrgð á hendur þeim, sem gerzt hafa brotlegir í þessu efni.

28. okt. kemur grein í sama blaði, þar sem reynt er að verja það, sem gert hafði verið, er fyrri greinin var skrifuð. Greinin heitir: „Krafa þjóðarinnar að fá að vita sannleikann.“ Þar er haldið fram ýmsum atriðum varðandi þetta mál, og vægast sagt er sú grein mjög ruddalega skrifuð og borið ýmislegt á þá menn, sem víttu þetta, sem þeir geta ekki borið á móti, meðan þeir telja sig bundna af því drengskaparheiti, sem þeir hafa gefið um að þegja um það, sem gerist á lokuðum fundum. Ég get ekki hjá því komizt að lesa upp nokkur atriði úr þessari grg. blaðsins, vegna þess að það sýnir nokkuð þá afstöðu, sem það tekur, og finnur alls ekki til sektarkenndar, heldur vill halda því fram, að þjóðin eigi kröfu í að fá að vita sannleikann, og er þá vitanlega hægt að halda því fram um hvaða lokaðan fund sem er og hvaða leyndardóm sem er. En ef það er krafa þjóðarinnar að fá að vita það, sem gerzt hefur í þessu máli, þá er það ekki síður krafa hennar að fá að vita, hver eða hverjir hafa gerzt sekir um trúnaðarbrot við Alþ., og það á þessum tímum og í jafnmikilvægu og viðkvæmu máli og við vitum, að þetta er. Ég vil segja það, að öll meðferð þeirra, sem hafa staðið að þessum samningum við Breta, er þannig, að það er eins og verið sé að reyna að gera allt, sem hægt er, til þess að egna sem flesta menn í þjóðfélaginu upp á móti þessum samningum. Það er eins og þeim, sem hafa haft þetta mál með höndum, og ekkert síður þeim, sem hafa viljað verja samninginn, hafi tekizt svo óhönduglega til í þeirri vörn, að því meir, sem þeir hafa viljað verja samninginn, því fleiri tugir og hundruð manna hafi risið upp á móti honum fyrir þessa málsvörn. Ég álít, að samningurinn sé að ýmsu leyti hagstæður og óumflýjanlegt hafi verið að gera hann á sínum tíma, en þegar svo langt er gengið í þessari vörn, að segja má, að einskis sé svifizt, þá getur það ekki leitt til annars en að jafnvel þeir, sem hafa verið honum fylgjandi, fari að fá óbeit á þessu framferði, og ég er einn í þeirra tölu, og af þessu hlýtur að leiða það, áður en langt líður, að annaðhvort verður að nema hann úr gildi eða það verður að fela framkvæmd hans öðrum manni, því að ef þessu fer fram, hlýtur svo að fara, að öll þjóðin verði á móti samningnum. Það er eins og verið hafi skipulagsbundinn áróður af hendi þeirra manna, sem eiga að hafa framkvæmd samningsins með höndum, að fá sem flesta menn á móti honum.

Í þessari grein Morgunblaðsins segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Það er ekki að furða að rógberana svíði undan snoppungum, þegar Alþ. svo að segja einum rómi, Finnur Jónsson líka, hafnar því boði að ganga frá samningnum.“ (Það er ekki verið að velja fögur orð, og það í skjóli þagnarskyldunnar.) „Hitt er þó veigameira atriði, að almenningur átti kröfu til að verða ekki leyndur því, sem gerzt hafði. Ríkisstj. hafði ekki leyfi til þess að dylja það.“

Hver á að ákveða, hvað er leyfilegt að birta

um lokaða fundi? Er það Morgunblaðið, eða er það Alþ.? Þetta verða hv. þm. að gera sér ljóst. Á það að vera á valdi hvaða blaðs sem er að ákveða, hvað birt skuli af því, sem sameinað Alþ., hefur samþ., að halda skuli leyndu? Ef svo er, hvað á þá að þýða sá skollaleikur að halda fundi fyrir lokuðum dyrum. Ég sé ekki, að þá sé til neins að taka til meðferðar á Alþ. nokkurt það málefni, sem má ekki fara samstundis út um hvippinn og hvappinn.

Svo segir blaðið loks í grein 29. okt., sem heitir „Skjól leyndarinnar“: „Mál það, sem um ræðir, samningagerðin við Breta, snerti fjölmarga menn og hafði af óhlutvöndum mönnum verið notað sem árásarefni á einstaka forustumenn þjóðarinnar. .............. Þessir menn kusu að leyna fólkið því, sem gerzt hafði. Morgunblaðið kaus það gagnstæða, og það hefði kosið að greina nánar frá þessum málum.“ M. ö. o., röksemdin, sem fyrir þessu er færð, að það hefði verið nauðsynlegt að birta þetta, þó að það hefði gerzt á lokuðum fundi í Alþ., var sú, að það hefði snert marga menn og Morgunblaðið hefði kosið að gera það. Ég vil nú spyrja: Er nokkurt það mál til, sem Alþ. ræðir á lokuðum fundi, sem snertir ekki marga menn, sem snertir ekki alla þjóðina? En ef það á að vera á valdi einhvers blaðs, hvað það gerir í þessu efni, þá er nauðsynlegt, að þetta blað viti, í hvert sinn sem lokaður þingfundur er haldinn, hvaða mál þar eru til umr. og hvernig með þau er farið, og svo sé á valdi þess að skýra frá því og þá á þann hátt, sem því bezt líkar. Með þessu er þá rofin gersamlega sú leynd, sem á að ríkja um þá fundi, sem ákveðið er, að skuli vera lokaðir. Blaðið játar með þessu, að það hafi ekki einu sinni fregnir af þessum lokaða fundi, heldur yfirleitt af hverjum lokuðum fundi, sem haldinn er, hvort sem það hirtir þær fregnir eða ekki.

Ég vil nú spyrja: Til hvers er að halda lokaða fundi, ef það á að verða til þess, að þeir, sem óvandaðir eru í hópi þm., eigi að fá að sverta samþm. sína í skjóli drengskapartilfinningar þeirra? Ef þetta á að ganga þannig, þá er tilvalið fyrir þá, sem telja sér heimilt að brjóta þetta þagnarheit, að beita þessu vopni gagnvart þeim þm., sem vilja halda með drengskap það loforð, sem þeir hafa gefið um að segja ekki frá því, sem á þessum fundum gerist: En ef svo er, þá veit ég ekki, hvaða þm. vill láta beita sig slíku vopni eða sitja fundi með þeim, sem þannig haga sér. Það hefði eitthvað verið sagt, ef eitthvert annað blað, t. d. Nýtt dagblað, blað kommúnista, hefði hagað sér þannig. Hvaða Ramakvein halda menn, að hefði þá komið upp hér á Alþ.? Þá hefði verið heimtað hreint og beint, að þm. þess flokks yrði bannað að koma á lokaða fundi á Alþ. framvegis. En þó er það miklu alvarlegra, þegar eitt stærsta blað þessa lands, blað stærsta stjórnmálaflokksins, hagar sér þannig en þó að það hefði verið blað minnsta flokks þingsins. Auk þess vil ég benda á, að þetta er því alvarlegra sem þetta er það blað, sem ákafast styður þann ráðh., sem þetta mál heyrir undir og vildi hafa fundinn lokaðan, og er mjög handgengið honum í flestum málefnum, ekki sízt í sambandi við samninga þá, sem komið hafa fram frá hans hendi.

Að lokum vil ég segja þetta: Ef Alþ. gerir ekkert til þess að verjast þeirri atlögu, sem gerð hefur verið að því með þessu framferði, þá má segja, að svipað sé orðið ástatt fyrir því og einum góðum borgara, sem blöðin sögðu frá um daginn. Útidyrahurð hans var stolið, og ekki tókst að handsama. þjófinn. Þessi góði borgari hefur því orðið að sofa fyrir opnum dyrum. Eins virðist mér nú vera farið með Alþ., ef ekkert er gert í þessu máli. Þá er búið að svipta hurðinni frá öllu öryggi þess. Má vera, að sjáist. til hins seka, en það er eftir að handsama hann, og þess er áreiðanlega þörf, ekki síður en þarf að handsama þá, sem tóku hurð um nótt frá dyrum óbreytts borgara hér í bænum. Þingið verður því að fela stj. að láta dómstólana rannsaka þetta mál og komast eftir því sanna.

Mér hefur verið bent á, að kannske hefði verið eins eðlilegt að fela forsetum þingsins þetta mál. Hæstv. forseti Sþ. hefur skrifazt á við blaðið, eins og hann hefur skýrt þingheimi frá, og hefur það ekki leitt til neins. Forsetar hafa heldur ekkert framkvæmdavald, en stj. hefur vald til að framkvæma þingviljann. Ég álít því, að þáltill. sé rétt stíluð og framkvæmdavaldið eigi að fá þetta mál og að það láti hraða því sem mest, svo að hægt sé, ef þjóðarnauðsyn krefur, að ræða vandamál þjóðarinnar án þess að það fari út til allra samstundis.