03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (529)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég þarf ekki að gera langar aths. við ræður þeirra tveggja hv. þm., sem tekið hafa til máls síðan ég hélt mína síðustu ræðu.

Það er einn sameiginlegur misskilningur, sem kemur fram hjá þeim báðum, en hann er sá, að vegna þess að eitthvað hefur verið sagt á lokuðum fundi á Alþ., þá megi það aldrei koma fram undir neinum kringumstæðum. Þetta væri einkennileg regla og gæti bókstaflega orðið til þess að inniloka um aldur og ævi þýðingarmikinn sannleika. Hv. 4. þm. Reykv. hefur þá skoðun, að það beri að gagnrýna brezka samninginn. En af því að á Alþ. hafa farið fram umr. um þennan samning fyrir luktum dyrum, heldur þm., að honum sé ekki heimilt að láta í ljós skoðun sína á þessum samningi. Af því að frá því hefur verið skýrt á lokuðum fundi á Alþ., að við hefðum von um að fá okkar vörur borgaðar í dollurum, þá heldur þm., að aldrei sé leyfilegt að skýra frá þessu opinberlega. Þetta er barnalegur og undarlegur hugsunarháttur. sem ég skil ekki. Ég bið hv. þm. að athuga, að þetta gæti verið nokkuð róttæk aðferð, ef hún væri tekin alvarlega, til að loka fyrir munn alþm., ef ekki þyrfti annað en að kalla þá á lokaðan fund og skora á þá að segja ekki frá því, sem þar gerðist, og þar með væru þeir múlbundnir. Eftir það gætu þeir ekki haldið fram sínum skoðunum á öðrum vettvangi. Sjá ekki allir, hvað þetta er barnalegt og fjarri sanni? Ég sagði frá því, að í þessu skeyti, sem ég las upp og sent var brezku stj., þar stóð, að ríkisstj. vildi gera allt,. sem í hennar valdi stæði, til að lægja óánægjuna með samninginn. Finnst mönnum það nokkuð undarlegt, þótt ríkisstj., sem sjálf hefur gert þennan samning, vilji gera allt, sem hægt er, til þess að minnka óánægjuna með hann? Það liggur í augum uppi, að stj. kæri sig ekkert um, að hann sé tættur í sundur. Hins vegar tókum við það sérstaklega fram, að við hefðum ekkert vald til að hindra gagnrýni á samningnum. Ég tel það þess vegna fullkomlega leyfilegt fyrir hv. 1. þm. Rang. og 4. þm. Reykv. að telja, að þeir hafi ekki fallið fram og tilbeðið þennan samning, jafnvel þó þeir á lokuðum fundi á Alþ. hafi sagt sínar skoðanir um hann. Ég verð að segja, að ég skil ekki þeirra hugsunarhátt. Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvers vegna ég hefði ekki neytt Alþ. til þess að segja sína skoðun fyrir opnum tjöldum. Ég er búinn að segja, að það var vegna þess, að ég taldi þá gagnrýni, sem stefnt hefur verið að mér fyrir þennan samning, ekki svo hættulega mér, að ég teldi persónulega nokkra ástæðu til þess að heimta nýjar umr. um þetta á opnum fundi.

Ég skil satt að segja ekki, hvað hv. 4. þm. Reykv. er að fara, þegar hann talar um, að eitthvað hafi ekki verið birt, sem fram fór á lokuðum fundum rétt áður en hertaka landsins fór fram. Ég segi það fyrir mig, að þegar hertaka landsins fór fram, þá kom hún mér jafnóvart og öllum öðrum. Ég man, að ég var vakinn upp um miðja nótt af 3 mönnum, sem skýrðu mér frá því, að erlend herskip væru komin á ytri höfnina og létu ófriðlega. Ég sagði þessum mönnum, að ég mundi sofa áfram fyrir því. Ef þetta væru Englendingar, þá mundu þeir tala við mig á morgun, en ef það væru Rússar, þá mundu þeir sækja mig heim. Ég ætlaði þess vegna að sofa áfram og bað þá að ónáða mig ekki frekar. En að nokkrar umr. hafi farið fram á Alþ. um þetta, þess minnist ég ekki.

Hv. þ.m. talaði um, að það væri skylda alþm. að beita sér fyrir því, að það bærist ekki út, sem sagt væri á lokuðum fundum. Það er nú svo, en eitt er skylda og annað geta. En varðandi það mál, sem hér er rætt um, þá tel ég, að það hafi verið svo fjarri, að það væri skaðlegt, að birt væri atkvgr. um það, að ég tel efnislega, að það hafi verið þjóðinni til góðs.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem gaf tilefni til andsvara, og það var ekki heldur margt í ræðu flm., sem ég þarf að svara.

Það skiptir litlu máli og er ekki ástæða til að margræða það, hvert sé skapferli þessa hv. þm. og hvort það hafi komið að ógagni í stjórnarsamvinnunni eða ekki. Ég hef enga yfirlýsingu gefið um það. Ég sagði, að hann mundi hafa tekið heldur nærri sér að styðja stj., sem ég á sæti í. Ég hef ekki haft mikla samvinnu við þennan þm. persónulega, en ég hef orðið var við það af því litla, sem ég hef haft saman við hann að sælda, að ummæli mín eru ekki gripin úr lausu lofti. Ég hirði ekki að fara að endurtaka rök mín fyrir því, hvort það hafi orðið til góðs eða ills, að þessi vitneskja barst út, en ég miðaði ekki mína umsögn sérstaklega við sjálfan mig í því efni. Ég viðurkenni, að það getur vel verið, að ef ég væri nógu nærgætinn við sjálfan mig, þá hefði ég átt að láta fara fram opinbera atkvgr. um málið, en ég sagði jafnframt, að ég hefði látið það undir höfuð leggjast vegna þess hve litlu ég sinnti fram kominni gagnrýni. Hitt er svo annað mál, að ég taldi, að málefnalega væri það til góðs, að þjóðin fengi að vita, að Alþ. ályktaði eftir fengnar upplýsingar, að þessi samningur væri öllum landsmönnum svo mikils virði, að ekki bæri að samþ. riftun á honum. Þessa ályktun dró ég af því, að flm. varpaði fram þeirri skoðun, að því fleiri landsmenn, sem vildu una við samninginn, því betra væri það fyrir þá og málefnið. En ég taldi, að því fleiri landsmenn mundu una samningnum, þegar þeir heyrðu um ályktun Alþ., því fleiri, sem hafa meira traust á öllu Alþ. en ríkisstj. einni. Ég taldi, að þetta mundi sætta þá landsmenn við samninginn, sem vegna ósanngjarnrar gagnrýni höfðu fengið andúð á honum, og ég held, að þetta sé rétt. Ég sagði, að blöðin — og ég taldi öll aðalblöðin — mundu hafa vitað um niðurstöðu atkvgr. eftir að hún hafði farið fram og á þeirri stund, sem þessi fregn var birt, og að blöðin hefðu ekki þurft að sækja þessa vitneskju til neins hv. þm., og þetta stafar af því, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það er ósköp auðvelt fyrir blaðamenn að komast að því, hvað gerist í svona málum. (SvbH: Er þá ekki einhver hv. þm., sem ljóstrar því upp?). Ég sagði, á þeirri stundu, sem þessi fregn var birt. Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hann áður en hann kom á Alþ. gat fengið vitneskju um það, sem gerzt hafði í slíkum tilfellum. Þannig er það líka víst, að ritstjórarnir, sem standa að stjórnarblöðunum, hafa, bæði frá þm. og öðrum, getað aflað sér þessara upplýsinga. Og það er upplýst af ritstjórum Morgunblaðsins, að þeir höfðu ekki sínar upplýsingar frá neinum þm., heldur frá almannarómi í bænum daginn, sem þetta skeði.

Hv. flm. sagði, að svo mætti með gott mál fara, að það væri ómögulegt að styðja það. Hvað er það í meðferð þessa mikla máls, þar sem Íslendingar selja framleiðsluvörur sínar fyrir 100 milljónir kr. og fá að sumu leyti fyrir þær það verð, sem þeir óska, hvað er það, sem hneykslar þennan hv. þm. svo mjög, að það orki að spana ábyrgðartilfinningu hans gegn því máli, sem hann segist hafa verið fylgjandi?

Ég gat þess sérstaklega eftir undirritun samningsins, að eftir atvikum mætti hann teljast góður hvað verðlag þessara afurða snertir, en gat þess jafnframt sérstaklega, að ef hann væri skoðaður einn út af fyrir sig, þá lægi hann opinn fyrir gagnrýni, og að hann væri gerður í fullu trausti þess, að Bretar stæðu við loforð, sem þeir hefðu gefið. Ég trúi því ekki, að samningur, sem gerður er af allri ríkisstj., af því að hann er talinn góður, geti orðið vondur í augum þessa hv. þm., þó ég hafi látið orð falla um það, að hann væri hagstæður. En hvað getur það verið, sem hefur slík áhrif á ábyrgðartilfinningu þessa hv. þm.? Ég get ekki séð, að nein sú málsmeðferð hafi hér verið viðhöfð, sem geti afsakað það, að ábyrgur þm. lýsi yfir því, að hann vegna málsmeðferðarinnar vilji snúast gegn því, sem hann hefur talið rétt að gera í jafnþýðingarmiklu máli fyrir þjóðina eins og þetta mál er. Hv. þm. sagði, að ef hægt hefði verið að fara opna leið, hefði verið skylda að gera það. Auðvitað gat Morgunbl. ekki gert neina kröfu til þess. Ég gat það hins vegar, og einmitt það getur verið til að benda til þess, að það hafi ekki verið jafnnáið samband milli mín og Morgunbl. um þetta eins og hv. þm. vill vera láta. Ég gat farið opna leið, og ég get vitnað til hæstv. forseta um það, að mér var fullvel ljóst, að þessi möguleiki var fyrir hendi. Ég kom að máli við hæstv. forseta í hliðarherbergi þingsins, og við ræddum þar um það, hvernig atkvgr. skyldi fara fram, og ég lagði enga áherzlu á, að atkvgr. væri opinber, vegna þess, eins og ég hef margtekið fram, að ég lagði ekki svo mikið upp úr gagnrýninni.

Hv., l. þm. Rang. reyndi að færa ýmis rök að því, að það hefði verið ég, sem skýrði Morgunbl. frá þessu. Fyrstu rökin voru þau, að hann hefði heyrt tvo þm. segja það, að það væru miklar líkur til þess, að það hefði verið ég. Ég sé ekki, að það geri lygina neitt sennilegri, þótt fleiri menn endurtaki hana. Önnur rökin voru þau, að enginn þm. hafi reynt að verja þetta nema ég. Ég vil bara segja hv. þm. það, að það er eðlilegt, að ég standi hér fyrir svörum, því það er sérstaklega verið að tala um mig í þessu sambandi. Og ég held líka, að það mætti benda hv. þm. á það, að enginn af hans flokksbræðrum hefur tekið til máls. Hv. þm. sagði, að það væru líkur til þess, að grein um þetta mál, sem birtist í Morgunbl., væri eftir mig. Heldur þessi þm., að þó hann sjái vel skrifaða grein í Morgunbl., þá þurfi hún endilega að vera eftir mig?

Ég skal játa, að ég las þessa grein í Morgunblaðinu og þótti hún góð, eins og flest annað, sem ég les í Morgunblaðinu. Ekki dettur mér í hug — nema síður sé —, þótt ég sjái vel skrifaða grein í Tímanum, að hún sé eftir hv. 1. þm. Rang.