03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (530)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Finnur Jónsson:

Tveim dögum eftir að þessi umrædda grein birtist í Morgunbl. baðst ég undan að þurfa að þegja yfir þessu máli og fékk þá það svar, að slíkt leyfi væri ekki hægt að gefa.

Hæstv. atvmrh. hefur lesið hér upp plagg, sem mun eiga að lýsa afstöðu þingsins til málsins, en það er nú ekki svo tæmandi, að það lýsi afstöðu einstakra þm. né heldur ríkisstj. á umræðufundunum. Ég mun af skiljanlegum ástæðum ekki fara út í þetta nánar, en vænti þess, að hv. þm. muni þetta með mér.

Það eru alleinkennilegar umr., sem hér hafa farið fram um þessa till. Hæstv. atvmrh. vill endilega taka hana í glensi. Hann segir, að flm. till. þyki sjáanlega betra að aðhafast illt en ekki neitt, og till. sé ekkert annað en grín. Nú hefur verið deilt á hæstv. atvmrh. fyrir þá fregn, sem birt hefur verið um fundinn. Og hæstv. ráðh. hefur tekið upp vörn í þessu máli. Mér virðist af þeim umr., sem fram hafa farið, þá bendi sterkar líkur til, að hæstv. atvmrh. hafi átt hér einhvern hlut að máli. Það er óneitanlegt, að eins og fregnin var birt, þá hlaut hæstv. ráðh. að hafa sérstaka hagsmuni af henni. Fregnin var birt á þá lund, að Alþ. hefði lýst ánægju sinni yfir brezka samningnum, sem hæstv. atvmrh. hafði áður verið að hæla. Þessu hefur hann ekki getað neitað, heldur hefur hann sagt: Morgunblaðið kann að hafa miðað þessa frétt við hagsmuni mína, en sjálfum hafði mér nú ekki dottið þetta snjallræði í hug. — Og í samræmi við þetta finnst svo ráðh., sú leið réttlætanlegri, að birta þessa fregn á óheimilan hátt, heldur en að fara eftir þingræðisleiðum, sem hann er tvisvar búinn að lýsa yfir, að hann hefði getað. Hæstv. ráðh. sagði, að um það mætti deila, hvort Alþ. ætti að taka ákvörðun um þetta sjálft eða einstakir þm. ættu að taka sér það vald að birta svona lagað. En nú er það svo, að þessi hæstv. ráðh. hefur komið til Alþ. og beðið um leynd um mál. (Atvmrh.: Hef ég sérstaklega beðið um það?) Því var skilað til Alþ. frá allri ríkisstj. En samt finnst honum það afsakanlegt, að farin hefur verið sú óheimila leið um birtingu þessarar fregnar, sem raun er á orðin. Ég skal játa, að það er náttúrlega ekki nema mannlegt, þar sem hæstv. ráðh. hefur viljað eigna sér einum heiðurinn af brezka fisksölusamningnum, að hann vilji láta líta svo út, að allur þingheimur hafi verið eins ánægður með samninginn og hann. Hitt er svo annað mál, að það samræmist ekki hagsmunum landsins að vera alltaf að láta í ljós ánægju með samning við erlent ríki, sem vitanlegt er um, að stj. þarf að byrja á því að mótmæla brotum á eftir nokkrar vikur frá undirskrift hans, brotum, sem þó ekki er hægt að segja, að séu beinlínis brot á bókstaf samningsins, heldur á anda hans.

Annars er hér í raun og veru ekki deilt um, hvað segja mátti um þennan samning, heldur er um það deilt, hvort Alþ. á að halda sínar samþykktir eða ekki.

Hæstv. ráðh.. sagði, að hann hefði getað haft margar leiðir til þess að koma málinu á opinberan vettvang, meðal annars með því að óska eftir, að atkvgr. færi fram fyrir opnum tjöldum. En því gerði hann þetta ekki? Fannst honum viðkunnanlegra, að hans aðalstuðningsblað bryti hans eigin samþykkt og samþykkt Alþ?

Það er svo um fleiri samninga heldur en þennan, að deila má um, hver andi ríkir í þeim. Annars er hér ekki verið að deila um, hvað hafi verið sagt um brezka samninginn, heldur hvort Alþ. á að halda sínar samþykktir eða ekki. Hæstv. atvmrh. benti á, að hann hefði getað farið margar leiðir til að koma þessu máli á opinberan vettvang, og meðal annars hefði hann getað fengið atkvgr. um það. En hvers vegna fór hæstv. ráðh. ekki þá leið, ef hún var möguleg? Finnst honum hin leiðin eðlilegri, að sumir hv. þingmenn brjóti samþykktir sínar? Hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh. finnst þetta ekki annað en meinlaust gaman? Hvernig á. að vera hægt að koma með utanríkismál til Alþ., ef það á að vera undir mati hvers einstaks þm., hvort sagt er frá því, sem ríkisstj. og Alþ. ákveða á lokuðum fundum? Það er þetta, sem deilan er um, en í raun og veru ekki um, hvort rétt hafi verið að segja frá því, sem gerðist um brezka samninginn. Deilan er um það, hvort Alþ. á að halda trúnað við sínar samþykktir eða ekki. Ég get ekki verið sammála hæstv. atvmrh. um, að hér sé gaman á ferðinni. Hæstv. ráðh. lýsti því, að honum hefðu verið margar leiðir færar til þess að gera mönnum málið heyrum kunnugt á heiðarlegan hátt. Hvers vegna var hann þá að verja þá óheiðarlegu leið, sem farin var í málinu?

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en ég tel, að sú till., sem hér liggur fyrir, sé nokkurs konar prófsteinn um, það hvort Alþ. sé þess umkomið að fara með utanríkismál landsins. Ef það á að vera undir mati þm., hvenær á að segja frá því, sem hér gerist, þá virðist alls ekki vera óhætt fyrir nokkra ríkisstjórn að koma með utanríkismálin til Alþ. Á þessum tímum, sem nú standa yfir, er áreiðanlega betra að sýna nokkra varfærni í því, sem gert er og sagt. Ég hygg, að ríkisstj. hafi komið með þær óskir til okkar þm. að hafa þessar umr. fyrir luktum dyrum af því, að henni hafi fundizt ástæða til þess. Ef einhverjum okkar annarra þm. hefði fundizt ástæða til að segja frá þessum fundi, er hætt við, að hæstv. atvmrh. hefði ekki fundizt vera gaman á ferðinni. Við megum vita það, ef við afgreiðum ekki þessa till. frá hv. .1. þm. Rang. í einu hljóði og ef við látum ekki fara strax fram rannsókn á þessum málum, að hér eftir þýðir ekki fyrir nokkra stjórn að koma með utanríkismálin til Alþ. í því skyni að vænta fullrar þagmælsku af þm. Ég álít því, að hér sé ekki meinlaust gaman á ferðinni.