10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (532)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það eru nú nokkrir dagar liðnir síðan þetta mál var til umr. og hv. þm. Ísaf. hafði haldið ræðu, sem gaf nokkurt tilefni til andsvara, sérstaklega varðandi hans flokk. Ég hef nú ekki hér hjá mér þau gögn, sem ég hafði handa á milli meðan þær umr. stóðu. Mér er nú liðið úr minni flest af því, sem ég hafði hugsað mér að svara honum, og hirði ég, satt að segja, ekki um að ganga heim til

mín og sækja það, sem ég skrifaði þá viðvíkjandi hans ræðu. Ég hafði hugsað mér að biðja hann um upplýsingar, áður en umr. um þetta mál væri lokið, um það, hvaðan Alþýðublaðinu hefði borizt vitneskjan viðvíkjandi norsku samningunum 1932, meðan þeir voru algert trúnaðarmál og leyndarmál utanrmn. og ríkisstj. Og ég skal, ef óskað er, tilfæra fleiri dæmi, þó að mér sé engin sérstök skylda á höndum um það, um samskonar trúnaðarbrot eins og þetta, sem hér er um að ræða, ef þar er um trúnaðarbrot að ræða. Og má mikið vera, ef böndin berast ekki að þeim, sem situr mér hærra á þessari samkundu, áður en þessari umr. er lokið.