10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (535)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Jónas Jónsson:

Ég vildi segja fáein orð um þetta mál, af því að mér finnst, að það geti orðið til nokkurs gagns fyrir landið og þjóðina, að umr. um þetta séu hafðar, þó að það þurfi að taka tillit til fleira heldur en þess, sem hér hefur verið minnzt á. Við erum ákaflega ung þjóð með tilliti til meðferðar utanríkismála, og sú meðferð hefur gengið vel og illa. Eitt af því, sem mig furðar á, er það, að ekki skuli hafa verið talað meira um þá óhæfilegu meðferð, sem höfð var á þessu fisksölumáli af mörgum hv. þm., og þeim skrifum, sem um það hafa verið birt í blöðunum. Það verðum við að gera okkur ljóst, að sú aðferð að níða samninginn niður svo mikið eins og gert var varð til þess, að Englendingar bjóða okkur að sleppa samningnum. Og það er náttúrlega sá snoppungur á þjóðina sem það er, að hinir krítíklausu menn, sem eggja á að sleppa samningnum, vilja svo ekki sleppa honum. Og síðan ég skrifaði um þetta mál, hef ég ekki séð einn einasta mann skrifa um málið, því að þessi úlfaþytur var sleginn niður, þegar menn vissu, að annaðhvort urðu Þeir að halda samningnum eða sleppa honum.

Ég álít, að það hefði átt að vera opinber atkvgr. um þetta mál, þó að það væri rætt á lokuðum fundi. Því að úr því að deilur urðu út af samningnum, þá var rétt, að þjóðin fengi að sjá, hvar hún stóð. Það þarf þjóðin að muna hér eftir, að það er ekki til neins annað en að gangast við sínum gerðum.

En út af því máli, sem hér liggur fyrir, sem gæti orðið okkur til upplæringar á ýmsan hátt (ef ég mætti nota það orð), að við þm. höfum ekki verið nógu varkárir með að geyma sumt af því, sem átti að vera geymt, þá vil ég minna á það, að það vildi svo til, að sá maður, sem átti heiðurinn af því, að utanrmn. var komið á, Héðinn Valdimarsson, og sem lenti — sem líka vel fór á — í n., hann átti í ákaflega mikilli deilu, sem var milli hans sem nefndarmanns og annarra í n., út af samningi, sem Jón Árnason og núverandi hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, stóðu að. Hann (HV) var ákaflega mikið á móti þessum samningi og taldi það skyldu sína gagnvart föðurlandinu að birta samninginn, og hann sagði strax, að hann mundi gera það, og gerði það. Hvort sem það nú var rétt af honum að gera þetta eða ekki, urðu um þetta harðar deilur, að hann birti þennan samning. En í því máli var það klippt og skorið, að þessi hv. þm. fór þarna leið, sem var að vísu vítt af mörgum mönnum og maður getur fullyrt nú, að hann hefði ekki átt að fara. En hann bæði hélt því fram þá og mun halda því fram enn, að hann hafi haft á réttu að standa. Nú í vetur kom einnig fyrir okkur marga þm. mjög leiðinlegt tilfelli, og það eina tilfelli af þessu tagi, sem okkur hefur verulega stafað hætta af, að einhverjir menn opinberuðu það mál, sem átti að vera leyndarmál. Það var þannig, að það komu vissar umleitanir frá merkum mönnum í Bandaríkjunum hingað til ríkisstj., sem síðar kom fram að voru um, að þeir álitu nauðsynlegt, að Bandaríkin hefðu hér einhverja bækistöð. Um þetta var rætt á mjög stórum fundi, þar sem voru margir þm. og nokkrir utanþingsmenn, og þar var valið lið. Og ef við lítum yfir þann mannalista, munum við sannarlega viðurkenna, að enginn þeirra manna vilji skaða sitt land. En það barst ýtarleg vitneskja af þessum fundi, sem kom svo í einu blaðinu nokkuð mikið afbökuð. Þetta varð til þess, að ég sem formaður utanrmn., án þess að ég hafi haft ástæðu til þess að áfellast nokkurn síðan, hef síðan ekki kallað eins marga menn á fund, þegar við höfum haft fund í n., aðeins til þess að minnka nefndina.

Nú álít ég, að þetta, sem komið hefur fyrir og hér er rætt um, eigum við kannske ekki að taka á eins heitum grundvelli og sumir vilja ræða þetta mál, að eitt blað í bænum hefur fengið upplýsingar um það, sem ekki átti að birta. En ég fullyrði, að þessu máli á að ljúka þannig, að við þm. allir viðurkennum, að við eigum að vera gætnari hér eftir en áður, svo að við birtum ekki þau mál, sem eiga að vera leynd. Því að það hefur vitanlega fleira slíkt vitnazt út frá þinginu heldur en það, sem þessi þrjú dæmi taka til. Þess vegna er það heppilegt, að hv. 1. þm. Rang. hefur tekið tilefni af þessu síðasta tilfelli, sem komið hefur fyrir þess konar, til að ræða þetta. Það má segja, að það hafi verið vítavert af mér að hafa ekki tekið þetta. upp í vetur, þegar birt var það, sem gerðist á þeim fundi í utanrmn., sem ég gat um. En ég hef litið svo á, að það væri ákaflega erfitt að lækna þessa lausu meðferð Alþ. á málum. Ég hefði tekið þetta upp í vetur, hefði ég ekki verið þessarar skoðunar, af því að það var ákaflega óheppilegt og óþægilegt, sem þá kom fyrir. En þessar umr. eiga að ná miklu víðar heldur en hér er tilfellið, þó að ég sé fús til þess að taka þátt í umr. um þessa atkvgr. Og ég álít, að það hafi verið til stórskaða fyrir landið, að hún var ekki látin fara fram á opnum fundi.