10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (538)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hygg, að ummælin séu ekki alls kostar rétt eftir mér höfð, en þetta var hugsun mín:

Ef þessi skrípaleikur, sem hér er leikinn, á að halda áfram, þá má mikið vera, ef böndin berast ekki að þeim, er situr mér hærra á þessari samkundu.

Á ég hér við hæstv. forseta Sþ.

Ég vil spyrja hæstv. forseta: Með hvaða rétti hefur hann gefið vottorð um leynilega atkvgr. í Sþ.?

Hér hefur verið leikinn skrípaleikur af öðrum en hv. 1. þm. Rang., en honum er slík framkoma alveg samboðin. Hér var einnig leikinn skrípaleikur á einhverju hátíðlegasta augnabliki í sögu Alþ. — þegar ríkisstjóri var kjörinn. Við þá kosningu fékk formaður Framsfl. eitt atkvæði. Allir vita, að ef formaður Framsfl. hefði lagt kapp á það að verða ríkisstjóri, þá hlaut hann að fá miklu fleiri atkvæði en eitt, hve mörg skal ég ekkert um segja, en það er á allra vitorði, að hann hlaut að fá nokkuð mörg atkv. um þetta atvik var töluvert rætt í blöðunum, og í blaði forseta Sþ. var þetta atvik nefnt götustráksháttur. Hinir og aðrir hafa verið bendlaðir við að hafa greitt formanni Framsfl. þetta eina atkv. við ríkisstjórakjörið, og ætlunin mun hafa verið sú að láta líta svo út, að hann hefði einskis manns atkv. fengið til starfsins annars en sjálfs sín. Síðan gefur forseti Sþ. út yfirlýsingu um það, að rithönd formanns Framsfl. hafi ekki verið á umræddum atkv.seðli. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta, hvernig stendur á því, að hann leyfir sér að gefa út yfirlýsingu um það, hvernig atkv. hafi verið greidd við leynilega kosningu hér á Alþ.? (GSv: Hver bað um það?) Hver bað um það? (GSv: Já, var það einhver, sem greiddi atkv.?) Ég held, að þessi hv. þm., sem sjálfur er forseti, ætti að geta fengið þetta upplýst hjá starfsbróður sínum, — mér finnst satt að segja ærið nóg að eiga í höggi við einn forseta í einu.

Ég tel það, sem hér fer fram, hreinan skrípaleik. Á ég þar ekki við ræður þeirra tveggja þm., er síðast töluðu, þeir vilja sjálfsagt, úr því sem komið er, gera sitt bezta til þess að bjarga sóma Alþ. En maðurinn, sem flytur till., og ræður hans í þessu máli sýna ljóslega, að hér er um skrípaleik að ræða. Mér finnst tæplega þess vert að fara langt út í að rifja upp sögu þessa máls, en í fáum dráttum hefur þetta gerzt : Ríkisstjórn og viðskiptanefnd gera samning við Breta, og höfðu flokkar Alþ. fengið tækifæri til þess að fjalla um samninginn og samþykkja hann í meginatriðum, og eftir það er engin breyt. á honum gerð. Þegar samningurinn hefur verið undirritaður og ríkisstj. lýst yfir því, með því að ganga að honum, að hún teldi hann góðan, þá kemur það fyrir, að sá ráðherra, sem útflutningsverzlunin heyrir undir, segir, eftir að samningurinn var undirskrifaður, álit sitt á málinu. Og hvernig? Hann segir, að samningurinn sé eftir atvikum góður, svo langt sem hann nái. Forsrh. er raunverulega búinn að segja þetta sama, því hvernig hefði hann annars átt að vilja bera ábyrgð sem stjórnarforseti á samningsgerðinni. — Ég bætti því við um samninginn, að ef hann væri tekinn einn út af fyrir sig, án þess að hliðsjón væri höfð af ýmsu öðru, sem taka yrði til greina, þá lægi hann flatur fyrir gagnrýni. Hann væri gerður í trausti þess, að Bretar stæðu við loforð sín gagnvart Íslendingum. Þegar svo nokkrir heiðursmenn, sem hér eiga sæti, og einstaka ærlegir Íslendingar utan þings, sjá það, að ég hef látið þessa umsögn falla, þá gleyma þeir því, að hér er verið að selja afurðir landsmanna fyrir um 100 millj. króna, og einnig því, að með því að samþ. samninginn hér á Alþ. hafa þm. raunverulega látið sama álit í ljós og ég á samningnum, — en sjá það eitt, að hér gefist e. t. v: tækifæri til að rægja þann ráðh., sem samningurinn embættislega heyrir undir. Þannig er þessi svívirðingarsaga. Hve mikinn þátt hv. 1. þm. Rang. á í þessum gangi málsins, er ekki vitað, en eðli hans allt og innræti bendir til þess, að hans hlutur sé ekki lítill í þessu máli, a. m. k. hefur hann gengið fram fyrir skjöldu hér á Alþ. í því efni. — Það er alveg rétt hjá formanni Framsfl., að það eru einmitt þeir, sem mest hafa vítt samninginn, sem í mestan vanda hafa sett Íslendinga. Þeir, sem eitthvað þekkja eðli Breta, vita, að það er ekki hnefi smárra Íslendinga, sem ræður úrslitum um það, hvort samningsgerð reynist hagkvæm við þá eða ekki. Það er ekkert, sem þjónar betur hagsmunum Íslendinga í slíkum samningagerðum en varfærni og lipurð. Þeir eiginleikar reynast giftudrýgri en illgirni og dómgreindarlaus gagnrýni, svo sem mætt hefur þessum stærsta verzlunarsamningi, sem Íslendingar hafa nokkru sinni gert.

Svo kemur að þeim ólukkudegi fyrir þá, sem rægja þennan samning, að brezka stjórnin segir: Ég er orðin leið á að hlusta á þennan sífellda són utan af Íslandi, og ef Íslendingar hafa engar þyngri raunir á þessum örlagaríku tímum en fisksölusamninginn, þá býður brezka stjórnin þeim að losna við hann. Þegar svo er komið og farið er að ræða samninginn fyrir luktum dyrum hér á Alþ., þá sýndu þm. þó svo mikla ábyrgðartilfinningu, það skal játað, að þeir vildu ekki leggja þann bagga á herðar Íslendinga, að þeir færu á mis við fríðindi samningsins, þrátt fyrir ágalla hans. Hvað svo? Þegar Alþ. Íslendinga hefur fyrirskipað íslenzku ríkisstj. að skýra brezku ríkisstj. frá því, að Alþ. vilji ekki hagnýta sér riftunarréttinn, en haldi gerðan samning, þá kemur það dæmalausa óhapp fyrir, að Morgunblaðið skýrir íslenzkum blaðlesendum frá því, sem Alþ. hefur fyrirskipað ríkisstj. að tilkynna Bretum. — Þetta er kjarni málsins.

Eins og hæstv. forsrh. sagði, þá er það ekki nein nýjung, að skýrt sé frá því annars staðar, sem gerist á lokuðum fundum í Alþ. Það er þess vegna, að ég tel þetta mál skrípaleik. Ef hér væri í fyrsta skipti um slíkt að ræða, þá horfði málið öðruvísi við, en eins og bæði hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. hafa lýst yfir, þá er um mjög algengan hlut að ræða. Hv. 4. þm. Reykv. skýrði frá því, að löngu áður en hann og hans flokkur áttu sæti á Alþ., vissi hann sem ritstjóri hér í bænum, hverju fram fór á lokuðum þingfundum. Auk þess má vekja athygli á því, að þær fregnir, sem Mbl. birti, gátu engan skaðað, og Íslendingar áttu kröfu á að fá þetta upplýst. En þeir menn, sem höfðu þjónað lund sinni með því að ófrægja samninginn, sáu nú allar stoðir bresta undan málflutningi sínum, þegar Alþ. hafði álitið samninginn þannig, að ekki væri unnt að komast af án hans. — Þessi fregn í Mbl.; þessi dæmalausa slysni, að Íslendingar sjálfir skyldu fá að vita það, sem ríkisstj. var fyrir skipað að skýra brezku stjórninni frá, hafði í för með sér þann skrípaleik, sem hér er leikinn. Þetta gæti ef til vill verið til góðs, ef menn vildu taka upp þá venju, þá nýju venju, að það, sem fram fer á lokuðum fundum Alþ., skuli aldrei berast út fyrir þinghúsveggina, en ég vil aðeins benda á, að hér er í meira ráðizt en menn gera sér ljóst, eins og ég hef áður lýst. Það er gersamlega ómögulegt að ætlast til, þótt hv. 1. þm. Rang. hafi látið einhver ummæli falla á lokuðum þingfundi, að hann sjái einhverja annmarka á fisksölusamningnum, þá láti hann þau hvergi koma fram utan þings.

Nei, ég sé, hvaða hvatir liggja til grundvallar árásum hv. 1. þm. Rang. Mér urðu þær bezt ljósar, þegar ég sá í grg. hans, að ekki sé um neitt að villast, að það hljóti að vera ég, sem sagt hefði Mbl. fregnir af þingfundinum. — Það veit hann fyrirfram. — Og þegar í blaðinu stendur: „Fregnir hafa einnig borizt um ....,“ þá veit þessi þm., að þessu muni ég einnig hafa ljóstrað upp. Ekki fékk ég þetta skeyti, það kom til utanríkismrh. (SvbH: Hver flutti fregnina fyrstur hér á Alþ.?) Ætli það hafi ekki verið ég? Ég býst við því, og það var vegna þess, að hæstv. utanríkismrh. var ekki viðstaddur. Ég spurði hæstv. viðskmrh., hvort ekki væri viðkunnanlegra að ná í utanríkismrh. til þess að hann skýrði frá þessu. En ef það, að ég skýrði fyrstur frá þessu á þingi, á að vera sönnun þess, að ég hafi einnig skýrt Mbl. frá því, verð ég að segja, að slik röksemdafærsla á ekki að heyrast á þessum stað. hetta er of líkt hugsunarhætti allra lélegustu kjósenda hv. 1. þm. Rang. Hvatirnar, sem liggja á bak við þessa till., eru auðfundnar, og einmitt þess vegna er mál þetta skrípaleikur. Um leið og hv. 1. þm. Rang. talar af miklum fjálgleik — rétt eins og hann væri að tala um guð í Tímanum í sinni nýju hempu, sem hann er nú farinn að nota, — leikur hann þennan skrípaleik hér, að draga utanríkismálin inn í persónulegar ádeilur á andstæðing sinn. Slík framkoma er fyrir neðan virðingu Alþ. Ef þm. hefði borið málið fram í alvöru og það væri ásetningur þm. að útiloka Það framvegis, að fregnir bærust af lokuðum fundum, þá hefði nafn ákveðins þm. ekki verið bendlað við þessa fregn. Nei, þetta er til þess að draga utanríkismálin niður í skítinn, eins og flm. till. kemst sjálfur að orði.

Það sýnir líka alvöruleysi þessa hv. þm. í þessu máli og þjóðmálum yfirleitt, að hann er hér að margendurtaka það, að vegna meðferðarinnar á þessu máli, fisksölusamningnum, þá sé hann í miklum vafa um, hvort hann eigi ekki að snúast gegn því. Þm., sem lýsir yfir því, að hann álíti málefni í sjálfu sér gott, en vegna meðferðarinnar á því sé efst í huga hans að snúast gegn því, á ekki skilið virðingu nokkurs manns. Þm. ætti að standa upp og biðjast fyrirgefningar á þessari framkomu sinni.

Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að þessu máli verði vísað til allshn., eins og hæstv. forsrh. stakk upp á, en þá væntanlega í því skyni, að rakin verði bæði saga þess og annarra hliðstæðra mála. Ég vil vænta þess, að allshn. kalli á sinn fund hæstv. forsrh. og óski eftir, að hann skýri frá því, við hvað hann átti, er hann sagði, að slíkar frásagnir af lokuðum fundum Alþ. væru ekki sjaldgæfar. Ég vil einnig vænta þess, að hv. 4. þm. Reykv. verði kallaður á fund nefndarinnar og látinn skýra frá, á hvern hátt hann sem ritstjóri fékk vitneskju um það, sem fram fór á lokuðum fundum Alþ., áður en nokkur hans flokksmanna átti sæti á Alþ. Ég vænti þess einnig, að hv. 1. þm. Rang. verði kvaddur á fund nefndarinnar, — ef það þykir þá þess virði, — til þess að gera grein fyrir því, hvernig hann viti, að ég hafi skýrt Mbl. frá umræddri fregn. Þegar svo búið er að yfirheyra okkur alla, — ef við þá sleppum við steininn, — þá skal ég, fyrir mitt leyti, vera með því, að leitazt sé við að finna lausn á þessu máli, sem gæti orðið alvara, í staðinn fyrir þessar gamanleiksumræður.