10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (540)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) Ég skal ekki fara að deila við hæstv. forseta sameinaðs þings um. hvað er heppilegt og óheppilegt. En það er fullkomlega eðlilegt, að maður, sem er borinn lognum sökum, beri sig saman við hæstv. forseta, sem hefur gefið yfirlýsingu um atkvgr., sem var leynileg. Hver var meiningin með því að hafa atkvgr. leynilega? Hún hlýtur að hafa verið sú, að um hana hefur enginn átt að fá að vita. Og ef hæstv. forseti hefur rétt til að gefa einum þm. slíkt vottorð, sem þar átti sér stað, þá skilst mér, að honum beri skylda til að bjóða öllum hv. þm. vottorð um það, að þeir hafi ekki kosið svona. Og mundi það ekki verða til þess, að allir fengju þetta vottorð nema sá seki? Ef þannig væri farið að, mundi það leiða til þess, að upp kæmist, hver hefði greitt þetta eina atkv. í leynilegri atkvgr. Og hér á Alþ. eru menn, sem bornir hafa verið þeim sökum að hafa gert þetta, sem kallað hefur verið götustráksháttur. Ég hef enga tilhneigingu til að deila við hæstv. forseta sameinaðs þings, en ég hef gaman af að draga ýmsar myndir fram um leyndina hér á Alþ., og þær geta orðið fleiri áður en lýkur.