10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (546)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Einar Olgeirsson:

Ég held ég verði að óska hæstv. atvmrh. til hamingju með nýja hjálparkokkinn, bæði í þessu máli og öðrum. Það væri hins vegar skemmtilegra, að þeir bæru sig betur saman, svo að þeim beri ekki eins mikið á milli.

Hæstv. atvmrh. lýsti því yfir, að þjóðstjórnin hefði sett hnefann í borðið, og þá hafi sjálft heimsveldið guggnað. En hv. þm. S.-Þ. sagði : „eftir að ég skrifaði um málið, þá þorði enginn að vera á móti samningnum.“ Það þurfti ekki meira til.

Hins vegar virðist þessum hv. þm. ekki bera mikið á milli í því, hvernig rétt sé að fara með leyndarmál Alþ. Hv. þm. S.-Þ. þykir rétt, að þjóðin fái að vita, hvar hún stendur. Hæstv. atvmrh. hafði áður tekið skarið af og sagt, að Morgunblaðið ætti þakkir skilið fyrir það að bæta úr yfirsjón Alþ. Annars vil ég segja það í sambandi við það, sem hér er rætt, og þá sérstaklega til hæstv. atvmrh., úr því að hann æskir eftir uppljóstrunum: Hver ljóstraði upp tveim leyndarmálum síðasta fundar í Sþ.? Ég hygg, að það hafi verið hæstv. atvmrh. sjálfur, þannig að allt þingið heyrði. Annað málið var um það, hvort það ætti að greiða fiskinn í dollurum, hitt málið kom fram í skeyti, sem hann las upp hér í hv. d.

Hvers vegna lætur hæstv. atvmrh. Morgunbl. ekki gera þetta um dollarana að opinberu máli?

Hvernig stendur á því, að Morgunbl. þegir um þetta mál? Því lætur það ekki fólkið fá eitthvað að vita um þetta? Mig langar að spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig stendur á því, að hann sér sér ekki fært að láta sitt blað, „Tímann“, birta eitthvað um þetta mál, dollarana? Þessi hæstv. ráðh., mun ekki hafa talið rétt að skýra sínu blaði frá þessu, því að „Tíminn“ kemur með fyrirspurn um það, hvort það muni vera einhver krafa frá Bretlandi að banna gagnrýni á ákveðnum málum. Má ég nú spyrja: Er það, sem hæstv. atvmrh. sagði um skeytið, leyndarmál? Ef það er ekki leyndarmál, hvaða ástæða var þá fyrir ráðh. Framsfl, að neita sínu blaði um upplýsingar? En hins vegar, svo framarlega sem atvmrh. telur þetta leyndarmál, þá er hér um trúnaðarbrot að ræða við ríkisstj. En fyrst menn eru hér að ræða um það, hvað Morgunblaðið sagði, væri ekki fjarri lagi að þm. fengju að vita, hvað það var, sem „Tíminn“ gat ekki fengið upplýsingar um hjá sínum ráðh, í ríkisstj., og hvað það er, sem Morgunbl., þessi forsjón Alþ., ekki sér ástæðu til að skýra sínum lesendum frá. Hvernig stendur á því, að það er þagað um það, hvort greiða eigi fiskinn í dollurum? Hvað þurfum við framar vitnanna við? — Svo langar mig til þess að minnast á hinn uppljóstrunarmanninn, hv. þm. S.-Þ., form. utanrmn. Hann fór að minnast á þessi mál hér áðan og lýsti yfir því, að miklir menn í Bandaríkjunum hefðu farið þess á leit, að Bandaríkin fengju hér einhverjar bækistöðvar, og í tilefni af þessu hefði verið kallaður saman fundur, ekki Alþ. Það þurfti ekki að kveðja það til fundar um þau mál, það voru kallaðir saman aðrir menn. Það voru kallaðir saman, efir upplýsingum form. utanrmn., allmargir þm. og nokkrir utanþingsmenn, og þessi form. utanrmn. upplýsti, að þetta hefði verið valið lið. Ég skal ekki um það segja, af hverjum þetta lið hefur verið valið, en þetta valda lið er ekki meira úrval en svo, að það, sem það sagði og gerði, fer út um borg og bý! Hvers konar aðfarir eru þarna á ferðinni? Ég er ekki reiðubúinn til þess að trúa þessu eins og það liggur fyrir hjá hv. þm. S.-Þ. — Ég vildi æskja þess, að hæstv. forsrh., sem ég held, að hafi gefið upplýsingar um þetta efni alveg þveröfugt við það, sem form. utanrmn. gerði, upplýsti, hvort þetta er satt, að hann hafi upplýst þetta. (Forsrh.: Ég hef aldrei sagt neitt um það, hvorki til né frá.) Því miður má ég ekki segja frá samtali, sem fór fram milli okkar í samandi við umr. um þessi mál. En það, sem ég vildi segja, er þetta : Hvers konar meðferð er þetta á okkar utanríkismálum, að einn þm., form. utanrmn., ásamt einhverjum mönnum utan úr bæ taka svo stórkostlega þýðingarmikil mál til meðferðar, og að Alþ. Íslendinga er ekki látið vita af þessum málum? Hvers konar endileysa er það, sem slík meðferð á utanríkismálum er? Ég man ekki betur, en að ég heyrði það sagt fyrir skömmu, að enginn fundur hefði verið hjá utanrmn. um langt skeið. Ég verð að segja það, að ég held, að þeir hv. þm., sem sæti eiga í n., viti lítið um það, hvernig eigi að fara með utanríkismál, hvað þá heldur þýðingarmikil utanríkismál. A. m. k. held ég, að það væri betur komið þannig, að hv. þm. S.- Þ. kæmi ekki nærri þessum málum. — .

Ég hef hér minnzt á nokkur mál, sem hæstv. atvmrh. gaf tilefni til, að minnzt væri á í sambandi við þetta mál, og fyndist mér eðlilegt, að þau væru athuguð í sambandi við þetta uppljóstrunarmál. Ég hef áður lýst fylgi mínu við þessa till., og álít ég rétt, að hún sé samþ. Það er engin afsökun í þessu máli að halda því fram, að slíkar uppljóstranir hafi komið fyrir áður. Sízt af öllu er það afsökun fyrir þá, sem ljóstra upp 1–2 stórkostlegum leyndarmálum í viðbót, þegar þeir sjálfir tala um það, að menn eigi að vera sjáandi í þessum málum.