03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Minning látinna manna

forseti (HG) :

Áður en tekið verður til fundarstarfa, vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins fyrrv. þingmanns, Lárusar Helgasonar, sem andaðist að heimili sínu, Kirkjubæjarklaustri, aðfaranótt síðast liðins laugardags, 1. þ. m., 68 ára að aldri.

Lárus Helgason fæddist að Fossi á Síðu 8. ágúst 1873, sonur Helga Bergssonar bónda þar og konu hans, Höllu Lárusdóttur bónda í Mörtungu Stefánssonar. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og naut ekki annarrar skólavistar en lítils háttar farkennslu um fermingaraldur. Árið 1901 reisti hann bú í Múlakoti á Síðu og bjó þar til 1905, en þá fluttist hann búferlum að Kirkjubæjarklaustri og bjó þar til dauðadags, eða alls 36 ár. Snemma hlóðust á hann margvísleg trúnaðarstörf í héraðinu. Á fyrstu búskaparárum sínum í Múlakoti varð hann hreppsnefndaroddviti og sýslunefndarmaður Hörgslandshrepps og gegndi þeim störfum þar til hann fluttist úr hreppnum. Tveim árum síðan, 1907, var hann kosinn í hreppsnefnd Kirkjubæjarhrepps og sýslunefndarmaður sama hrepps 1910, en oddviti hreppsnefndar 1913. Þessum störfum gegndi hann óslitið síðan. Formaður stjórnar Kaupfélags Skaftfellinga var hann frá 1911 og í stjórn Sláturfélags Suðurlands frá 1916, en eftirlitsmaður þess félags frá 1911–1918, er hann tók að sér stjórn útibús félagsins í Vík í Mýrdal. Þá var hann og formaður í stjórn hlutafélagsins „Skaftfellings“ alla tíð frá stofnun þess, 1917, til þess er félaginu var slitið í fyrra, Þingmaður Vestur-Skaftfellinga var hann 1922–1923 og 1928–1933 og sat alls á 9 þingum.

Lárus Helgason var héraðshöfðingi, gildur bóndi og rausnarmaður í hvívetna, karlmenni í sjón og raun og þó hið mesta ljúfmenni, enda átti hann almennum vinsældum að fagna, bæði í héraði og á þingi. Hann var meðal forgöngumanna um flest þau mál, er horfðu til framfara í sveit hans og sýslu, og var bæði laginn og atorkusamur að koma þeim fram. Má þar einkum nefna stórfelldar framfarir, er orðið hafa á sviði samgöngumála í héraðinu og hann átti hlut að. Heimili hans að Kirkjubæjarklaustri hefur ekki eingöngu verið miðstöð sveitarinnar og eitt hið mesta höfuðból héraðsins, heldur og fjölsótt athvarf ferðamanna, innlendra og erlendra, og mjög rómað fyrir gestrisni og myndarbrag á öllu.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessa látna bændahöfðingja virðingu sína með því að risa úr sætum sínum.

[Þingmenn risu úr sætum.]