28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (1004)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég vil aðeins taka fram fáeinar aths. Hv. 1. þm. Skagf. vildi mega skilja þessa till. á þá leið, að kandídatar í millibilsástandi því, er hann lýsti, yrðu ekki afskiptir styrkjum. Þetta viðhorf kom nú raunar ekki beint fram hjá n., en eftir mínu viti tel ég ekki órétt, að þetta yrði á þennan veg, þótt sá varnagli sé sleginn að miða styrkinn við venjulegan námstíma, svo að námsmenn freistuðust ekki til að draga námið þarflaust, heldur reyndu að ná prófi sem fyrst. Ekki mun heldur um mörg slík dæmi að ræða. Hv. þm. minntist á tvö slík dæmi, og mun þó annar sá kandídat vera í góðu starfi.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að sín till. miðaði að því að gera kjörin svipuð fyrir alla stúdenta, hvar sem þeir stunduðu námið. En með því móti er farið alveg inn á nýjar brautir, verið að styrkja alla stúdenta, er fara utan. En næði þetta samþykki, væri Alþ. mjög skuldbundið, ef heimild þessi yrði notuð til fulls.

Um hina innilokuðu stúdenta í Þýzkalandi og á Norðurlöndum gegnir allt öðru máli. Hún er þeim alveg ósjálfráð og því réttmætt að hjálpa þeim, og auk þess munu þeir ekki verða fleiri en 16 að tölu, er líður á þetta ár.

Samkv, upplýsingum frá upplýsingaskrifstofu stúdenta munu 104 stúdentar dveljast nú í hinum umræddu löndum. Þar af höfðu 23 lokið prófi 1941, 33 um síðustu áramót eða í vetur, og margir munu, að því er búast má við, ljúka prófi í vor. Stúdentar við nám eru því mun færri en menn skyldu ætla.

Hæstv. forsrh. sagði, að framkvæmdin mundi verða svipuð, hvor till. sem yrði hér samþ. Ég tel þetta þó hæpið, því að ef till. hv. 3. þm. Reykv. yrði samþ., hefði stjórnin heimild til að styrkja alla, sem utan fara, og það er grundvallarbreyt. frá því, sem verið hefur. En hæstv. forsrh. kvaðst annars mundu greiða atkv. með till. n., og mun ég því ekki fara nánar út í að svara honum.

Ég vil að lokum benda á eitt verulegt atriði, þann mun, að stúdentarnir á Norðurlöndum munu þeir einu, er ekki hafa fengið styrk sinn með dýrtíðaruppbót frá því opinbera síðan dýrtíðin byrjaði. Ameríkustúdentarnir hafa aftur á móti fengið frá byrjun 3600 kr. árlega, sem vera mun um helmingur dvalarkostnaðar þeirra, í stað þess að styrkurinn til stúdenta á Norðurlöndum hrekkur tæplega fyrir þriðjungi kostnaðarins. Því er nú enn ástæða til að gera eitthvað alveg sérstaklega fyrir þessa stúdenta. Vegna þessa ólíka viðhorfs, er ég hef nefnt, þótti n. rétt að gera nokkuð fyrir þessa ákveðnu menn, en ekki ótakmarkaðan fjölda.