28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1006)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

*Héðinn Valdimarsson:

Frsm. n. mælti að nýju á móti till. minni, og nokkuð í sömu átt mælti hæstv. forsrh. Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. n. sagði, að ef brtt. mín væri samþ., mundu allir námsmenn, sem vildu til útlanda fara, fá helming dvalarkostnaðar sem styrk, þá var nokkur veila í því, samkv. því, sem hann minntist á síðar, því að þetta er aðeins heimild til hæstv. ríkisstj. til þessa, og það er undir ríkisstj. komið, þó að þetta væri samþ., hvaða námsmenn fá styrk yfirleitt. Það verður einnig nokkuð takmarkað fé, sem þessir menn geta fengið, sem fara til útlanda til náms. Auk þess þarf frá ríkisstj. leyfi til þess að fara til útlanda. Hún getur séð um, að ekki flykkist stúdentar til útlanda til náms. Svo hefur hún og í hendi sinni, hverjir fá styrk, og líka að taka ákvarðanir í þessum efnum með tilliti til námstímans. Ég hef ekki gert ráð fyrir því, að frekari reglur verði settar af hæstv. ríkisstj. um þessa hluti alla en nú þegar gilda. Og mér þótti vænt um þau orð hæstv. forsrh., er hann sagði, að svipuð framkvæmd mundi verða höfð á þessum styrkveitingum, hvort sem þessi þáltill. væri samþ. eða ekki. En þá finnst mér, úr því nú á að samþ. þáltill. um þetta efni á annað borð, eðlilegast, að þá sé nokkurt jafnræði haft um þessar styrkveitingar í ákvæðum þáltill. gagnvart námsmönnum og engin forréttindi veitt einum hópi þeirra fremur en öðrum með þál. um styrkveitingar, eftir því hvar þeir dveljast, nema að því leyti sem samgönguteppa gerir slíkt óhjákvæmilegt.

Hv. frsm. sagði, að námsmenn í Þýzkalandi og á Norðurlöndum hefðu haft lægri námsstyrki heldur en þeir, sem hefðu verið í Bandaríkjunum og Kanada. Það er rétt, af því að þar hefur verið ódýrara að stunda nám, og er svo enn þá. Þó að mín brtt. væri samþ., þá verður samt dýrara að stunda nám í Bandaríkjunum heldur en á þessum stöðum hér í álfu. Viðvíkjandi því að veita námsmönnum styrk, sem dveljast í Englandi, er það að segja, að dýrtíð fer þar vaxandi líka, þannig að þó að styrkurinn til námsmanna þar hafi verið miðaður við fastákveðna krónutölu, má búast við, að þessum mönnum nægi það ekki, heldur verði að hafa miðun í þessu við dvalarkostnað. Ég verð því að halda fast við það enn þá, að ef hæstv. Alþ. fer á annað borð að gefa einhverjar leiðbeiningar um þessi mál, þá sé eðlilegast, að slíkt gildi um stúdenta almennt, sem erlendis dveljast. Og þá er hitt atriðið mál út af fyrir sig, að sjá þeim menntamönnum farborða erlendis, sem hefur verið veitt slík hjálp, ef ekki er um annað að ræða. Um slíkt þurfti ekkert að taka fram, því að ríkisstj. mundi að sjálfsögðu gera það, hvort sem var.